„Þetta verður mjög áhugavert augnablik og það er erfitt að sjá góða leið fyrir Pútín að spila úr því,“ segir Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur, spurður álits á mögulegum friðarviðræðum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Tyrklandi á morgun.
„Þetta verður mjög áhugavert augnablik og það er erfitt að sjá góða leið fyrir Pútín að spila úr því,“ segir Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur, spurður álits á mögulegum friðarviðræðum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Tyrklandi á morgun.
„Þetta verður mjög áhugavert augnablik og það er erfitt að sjá góða leið fyrir Pútín að spila úr því,“ segir Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur, spurður álits á mögulegum friðarviðræðum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Tyrklandi á morgun.
Hann segir Pútín hafa lagt fram tillöguna að fundi við Selenskí til að bregðast óbeint við og draga úr kröfu Evrópuleiðtoga um 30 daga skilyrðislaust vopnahlé. Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi tekið undir og hvatt Selenskí til að mæta.
„Selenskí greip það bara á lofti og sagðist ætla að mæta sjálfur. Hann veit að það er mjög ólíklegt að Pútín mæti, næstum því útilokað. Það liggur líka fyrir að friðarvilji Rússa er mjög lítill, þeir eru ennþá með sínar ýtrustu kröfur frá 2022, sem er hreinn uppgjafarsamningur Úkraínu, og hafa sagt að þeir vilji að viðræður í Tyrklandi byrji á þeim punkti.“
„Þetta er mjög klókt hjá Selenskí. Hann sér fyrir sér að Pútín mæti ekki og hann sagðist ekki munu hitta neinn annan,“ segir Erlingur. Þannig hafi Selenskí sýnt fram á að engin meining liggi að baki yfirlýstum friðarvilja Rússa.
„Trump stjórnin hefur verið að komast að því. Selenskí samþykkti t.d. 30 daga vopnahlé sem að Bandaríkin lögðu til á fundunum í Sádí Arabíu fyrir nokkrum vikum en Pútín ekki.
Ég held hann hafi viljað kippa fótunum undan þessari 30 daga vopnahléskröfu Evrópulandanna og fara út í langdregnar viðræður þar sem hann getur sakað Úkraínumenn um að vera ekki með samningsvilja, eins og hann gerði síðast.“
Markmið Pútín sé því að „draga lappirnar“, halda áfram á vígvellinum og vona að stuðningur Bandaríkjanna við Úkraínu hætti, og þá þreytist Evrópulöndin mögulega líka.
„Það sem að Rússar hafa alltaf viljað í þessu sambandi er að þeir geti, bara eins og árið 1945, sest niður með Bandaríkjamönnum í aðalhlutverki og höndlað málefni Evrópu án aðkomu Evrópu,“ segir Erlingur. Rússar láti stöðugt í ljós að þeir beri enga virðingu fyrir Evrópusambandinu og Evrópuríkjunum.
Þrátt fyrir þetta segist hann telja að Pútín sé ekki skemmt með núverandi stöðu mála, „því að hann er kominn í ákveðið þrönga stöðu“.
Þá bendir hann á að ekki er vitað hvernig samtal Pútín fór við og Xi Jinping, forseta Kína, í Moskvu 9. maí. Kínverjar eru líklega farnir að upplifa að stuðningurinn við Rússa, sem hefur verið eindreginn, sé farinn að vera óþægilegur fyrir þá. Á Bandaríska þinginu er að aukast vilji fyrir að Bandaríkin setji á þriðju aðila viðskiptaþvinganir, á þá sem að kaupa olíu af Rússum, eins og Indland og Kína en Lindsay Graham, öldungadeildarþingmaður í Suður-Karólínu, hefur talað fyrir því.
Er það mat Erlings að Kínverjar hafi áhyggjur af þessu, en efnahagsmál þar í landi séu ekki í mjög góðri stöðu, auk þess að þeir eru nýbúnir að ná tollasamkomulagi við Bandaríkjamenn.
„Ef þetta verður vandmál fyrir Xi verður það vandamál fyrir Pútín. Ef stuðningur Kínverja veikist að einhverju leyti, það verður allavega pressa frá Kínverjum að binda enda á þetta stríð og losa þetta erfiða ástand.
Pútín getur ekki rekið þetta stríð án þess að Kínverjar kaupi af honum olíu, veiti honum pólitískt skjól og sendi honum allskonar stuðning, þó þeir hafi ekki sent bein vopn. Það er líka með velvild Kínverja sem Norður-Kórea er að styðja Rússa. Þeir geta ekki heldur rekið þetta stríð án skotfæra og stórskotaliðs frá Norður-Kóreu.“
Hverjar verða afleiðingarnar fyrir aðstoð Bandaríkjanna ef Pútín mætir ekki í viðræðurnar í Tyrklandi á morgun?
„Stuðningur Trump við Pútín hefur verið „mikill í orði en ekki á borði. Trump tók t.d. undir sjónarmið Pútín og samþykkt fyrirfram að Úkraína geti ekki gengið í NATO og það verði ekki bandarísk öryggistrygging í friðarsamningnum.
Það getur verið að Bandaríkin láti þá af einhverri svoleiðis vitleysu en þá vitum við ekki hvort að niðurstaðan yrði sú að Bandaríkin myndu bara draga sig algjörlega úr friðarviðræðunum.“
Erlingur bendir á að enn hangi á spítunni krafa Evrópuleiðtoga um 30 daga vopnahlé, sem hann segir hafa verið setta fram á þann hátt að ef Rússar samþykktu ekki vopnahléið, sem átti að hefjast á mánudaginn, en virðist hafa verið frestað fram á fimmtudag út af þessum viðræðumöguleika, þá komi til stórhertar viðskiptaþvinganir af hálfu Evrópuríkjanna og Evrópusambandsins.
„Þannig að það er væntanlega að fara að gerast ef að Pútín mætir ekki á fundinn, eins og við reiknum með.“
Fulltrúar NB8 ríkjanna lýstu yfir stuðningi við Úkraínu á mánudag og tók Selenskí undir og þakkaði sérstaklega fyrir yfirlýsinguna í færslu á samfélagsmiðlum.
NB8 er bandalag milli Norðurlandanna, Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, og Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litáen.
Í yfirlýsingu NB8 um friðarferli og vopnahlé segir að löndin standi með Úkraínu og að þau ítreki ákall sitt fyrir 30 daga skilyrðislaust vopnahlé, sem aðeins árásaraðilinn, Rússland, hafi hafnað.
Segir einnig í yfirlýsingunni að löndin fagni framförum í átt að samningaviðræðum í góðri trú og von um að þær leiði til réttlætis og friðar. Þá hæla löndin Selenskí fyrir að vera reiðubúinn til að hitta og ræða við Pútín í eigin persónu.
Að lokum hvetja þau Rússland til að halda aftur af öllum árásum á óbreytta borgara og innviði í aðdraganda viðræðna morgundagsins og segjast reiðubúin, ásamt Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og samstarfsríkjum, til að setja á frekari refsiaðgerðir ef vopnahléið verður ekki virt.
Færslu Selenskí á X, þar sem hann lýsir þakklæti við NB8 löndin og segir mikilvægt að ræða beint við „manninn sem tekur ákvarðanir í Rússlandi“, má sjá í heild sinni hér að neðan.