Oscars Anders Bocanegra Florez, 17 ára kólumbískur drengur, verður sendur til Bógóta í Kólumbíu á þriðjudag. Frá þessu greinir Svavar Jónsson, fósturfaðir Oscars, í færslu á Facebook.
Oscars Anders Bocanegra Florez, 17 ára kólumbískur drengur, verður sendur til Bógóta í Kólumbíu á þriðjudag. Frá þessu greinir Svavar Jónsson, fósturfaðir Oscars, í færslu á Facebook.
Oscars Anders Bocanegra Florez, 17 ára kólumbískur drengur, verður sendur til Bógóta í Kólumbíu á þriðjudag. Frá þessu greinir Svavar Jónsson, fósturfaðir Oscars, í færslu á Facebook.
Svavar lýsir yfir miklum vonbrigðum með íslensk stjórnvöld í færslu sinni og segir Barna- og fjölskyldustofu og ráðherra ríkisstjórnarinnar ákveðið að vilja ekki vernda Oscar.
„Okkur hafði aldrei dottið í hug grimmdin, mótspyrnan og offorsið sem þessi ungi drengur hefur mætt hjá íslenskum stjórnvöldum fyrir þær einu sakir að vilja eignast öruggt líf á Íslandi með vinum sínum, fósturforeldrum, systkinum og fjölskyldu sem hann hefur eignast og umvafið sem sína eigin,“ segir Svavar.
Segir hann sorglegt að sjá æðstu ráðamenn þjóðarinnar „láti brjóta grímulaust á erlendu barni til þess eins að þóknast sínum almestu harðkjarna kjósendum.“ Hann segir þetta minna sig á það sem sé að gerast vestan Atlantshafs eftir að nýr leiðtogi tók við völdum og vísar hann væntanlega til Donald Trumps Bandaríkjaforseta.
„Þetta eru ekki leiðtogarnir sem ég kaus og þetta er heldur ekki þjóðfélagið sem ég vil búa í. Þetta er sorgardagur fyrir Oscar og fyrir alla okkar stórfjölskyldu og vini en ekki síður fyrir íslenskt þjóðfélag, réttarfar og stjórnkerfi almennt.“
Töluvert hefur verið fjallað um mál Oscars í íslenskum fjölmiðlum. Hann flúði til Íslands með föður sínum árið 2022 eftir að glæpamenn frá Kólumbíu hótuðu þeim lífláti. Faðir Oscars er sagður hafa beitt hann ofbeldi og afsalað sér forræði yfir honum.
Í október á síðasta ári var Oscar sendur úr landi með föður sínum eftir að hafa fengið synjun um vernd hér á landi. Oscar endaði einn á götunni í Bógota í mánuð áður en fósturfjölskyldan kom honum aftur til Íslands. Hann hefur búið hjá íslenskum fósturforeldrum sínum síðan en þau hafa barist fyrir því að hann fái að dvelja hér.
„Við höfum komist að því af sárri reynslu að kerfið sér um sig og bregst við af fullu afli og tortímir öllum þeim sem dirfast að ógna því. Kannski hefði Oscar átt meiri möguleika ef hann hefði staðið einn en ekki haft okkur til að berjast fyrir rétti sínum,“ skrifar Svavar.