Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segist sáttur við þær breytingar sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um strandveiðar.
Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segist sáttur við þær breytingar sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um strandveiðar.
Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segist sáttur við þær breytingar sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um strandveiðar.
Frumvarpið er til bráðabirgða, en ein stærsta breytingin í því er að heimild Fiskistofu til að stöðva strandveiðar þegar leyfilegum heildarafla hefur verið náð, er afnumin. Er það liður í því að tryggja 48 veiðidaga, sem var jafnframt meðal helstu kosningaloforða Flokks fólksins.
„Frumvarpið leggst vel í mig og þá sérstaklega það að stöðvunarheimild Fiskistofu sé tekin út og að það verði tryggðir 48 dagar,“ segir Kjartan.
„Eins leggst það vel í mig að það virðist ekki vera í frumvarpinu sjálfu að það eigi að minnka leyfilegt magn sem má veiða í hverri ferð. Akkúrat núna fáum við að veiða 774 kg en sú hugmynd að minnka þann skammt niður hefur greinilega verið viðruð innan ráðuneytisins sem er náttúrulega galin hugmynd,“ bætir Kjartan við.
„Það sem maður er stressaður yfir er að í greinargerðinni er það nefnt að það gæti þurft að gera það. Hvers vegna það er í greinargerðinni en ekki frumvarpinu sjálfu veit ég ekki og er stórfurðulegt.“
Aðspurður um álit hans á gagnrýni þingmanna stjórnarandstöðunnar um að afnám á stöðvunarheimild Fiskistofu stríði gegn markmiði laganna um sjálfbærar fiskveiðar segist hann ekki taka undir þau sjónarmið.
„Ég gef ekkert fyrir þetta. Það eru til alls kyns hundakúnstir í ráðuneytinu og ef þeir vilja finna lausn á þessu þá gera þeir það. Vandamálið er það að það má aldrei losa um eitt gat á spennitreyjunni hjá okkur,“ segir hann.
„Það sem maður hefur meiri áhyggjur af er að það sé verið að taka úr strandveiðipotti framtíðarinnar til að bæta í núna, en það er skammgóður vermir að gera það þannig. Að því leytinu til gæti það verið óraunhæft. Fiskveiðiárið er hálfnað og búið að ráðstafa öllum heimildum svo þeir verða að finna einhverjar bráðabirgðalausnir á þessu áður en frekari lausnir koma til.“