Vísa á Oscar Anders Bocanegra Florez úr landi á þriðjudag. Allsherjar- og menntamálanefnd fundaði um útlendingamál í dag.
Vísa á Oscar Anders Bocanegra Florez úr landi á þriðjudag. Allsherjar- og menntamálanefnd fundaði um útlendingamál í dag.
Vísa á Oscar Anders Bocanegra Florez úr landi á þriðjudag. Allsherjar- og menntamálanefnd fundaði um útlendingamál í dag.
Blaðamaður ræddi mál Oscars við Víði Reynisson, þingmann Samfylkingarinnar og formann allsherjar- og menntamálanefndar, að loknum fundi nefndarinnar í dag. Víðir gat lítið tjáð sig um málið og segir nefndina þurfa að fara í gegnum talsverðan fjölda umsókna um ríkisborgararétt.
Víðir telur því afar ólíklegt að nefndin nái að fara í gegnum allar umsóknir um ríkisborgararétt fyrir þriðjudag, en þá stendur til að vísa Oscari úr landi. Það er því knappur tími til stefnu ef Alþingi hyggst veita honum ríkisborgararétt.
Víðir segir óvenju mikið af umsóknum um ríkisborgararétt á borði nefndarinnar og sé ástæðan fyrir því að ekki hafi náðst að afgreiða frumvarp um ríkisborgararétt vegna þingrofs og kosninga í nóvember síðastliðnum.
Mál Oscars hefur verið mikið til umræðu á síðastliðnum mánuðum. Hann flúði til Íslands ásamt föður sínum árið 2022 eftir að glæpamenn frá Kólumbíu hótuðu þeim lífláti. Faðir Oscars er sagður hafa beitt hann ofbeldi og afsalað sér forræði yfir honum.
Í október á síðasta ári var Oscar sendur úr landi með föður sínum eftir að hafa fengið synjun um vernd hérlendis. Oscar endaði einn á götunni í Bógotá í rúman mánuð áður en fósturfjölskylda hans kom honum aftur til Íslands. Oscar hefur búið hjá íslenskum fósturforeldrum sínum síðan, en þau hafa lengi barist fyrir því að hann fái að dvelja á Íslandi.
Aðspurður segir Víðir að mál einstaklinga séu ekki rædd á fundi nefndarinnar og ekki séu mál barna tekin fyrir í nefndinni núna til úrvinnslu. „Ferlið er þannig varðandi ríkisborgararétt sem Alþingi veitir að það er skipuð undirnefnd sem tekur fyrir þær umsóknir sem berast. Hennar markmið er að hún skili fyrir þinglok og eru þessi mál oft tekin fyrir á síðustu dögum fyrir þinglok,“ segir Víðir í samtali við blaðamann að loknum fundi.
Samkvæmt Víði fundar allsherjar- og menntamálanefnd nánast daglega um þessar mundir til að fara í gegnum allar umsóknir fyrir þinglok. Víðir segir að þær séu gríðarlega margar og því tekur ferlið talsverðan tíma. Víðir segir ólíklegt að það náist að klára að vinna úr umsóknum á þriðjudaginn.
Víðir segir að glufur finnist í öllum kerfum. „Það er gríðarlega mikilvægt að það kerfi og reglur sem við notum séu skýr. Þegar kemur að veitingu Alþingis á ríkisborgararétti er hann fyrst og fremst hugsaður fyrir einstaklinga sem eiga ekki möguleika á að fara hina hefðbundnu leið í kerfinu. [...] Það eru alls konar ástæður sem geta verið á bak við það.“
„Það er mikilvægt að almenningur viti að þó að eitt mál hafi fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun og sé mikið í umræðunni geta verið fleiri sambærileg mál í kerfinu sem fólk hefur ekki fengið aðgang að í fjölmiðlum. Sumir vilja ekki fara með sín mál jafn opinberlega og sumir gera. Þar af leiðandi þarf nefndin að gæta jafnræðis í öllum málum sem fjallað er um,“ segir Víðir.