Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um stöðuna í átökunum á milli Ísraels og Íran, áhrifin sem þau kunna að hafa og þjónustu við Íslendinga á svæðinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um stöðuna í átökunum á milli Ísraels og Íran, áhrifin sem þau kunna að hafa og þjónustu við Íslendinga á svæðinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um stöðuna í átökunum á milli Ísraels og Íran, áhrifin sem þau kunna að hafa og þjónustu við Íslendinga á svæðinu.
Pawel Bartoszek, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Viðreisnar, segir nefndina hafa átt góðan og opinskáan fund með ráðherra um stöðu mála.
Hann segir einhverja Íslendinga hafa haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins frá því á föstudag, þegar Ísraelsmenn hófu loftárásir á Íran, en síðan þá hafi árásir gengið á víxl.
„Við höfum öll áhyggjur af öllum meiriháttar átökum á þessu svæði og það væri gott ef það væri hægt að finna einhverja diplómatíska leið út úr þessum átökum. Svæðið má ekki við því að það sé meiri olíu hellt á þennan eld,“ segir Pawel í samtali við mbl.is.
Fram hefur komið að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi til skoðunar ýmsar sviðsmyndir er kemur að átökunum milli Ísraels og Íran, þar á meðal hugsanlega árás Bandaríkjanna á kjarnorkuinnviði í Íran. Bandaríkjaher hefur aukið viðveru sína í austurhluta Miðjarðarhafs og Arabíuhafi, en varnarmálaráðuneytið hefur þó sagt það einungis í varnartilgangi.
Trump hefur krafist skilyrðislausrar uppgjafar Írana og segir Bandaríkin hafa fulla stjórn á lofthelgi þeirra.
Pawel segir óvarlegt að tjá sig um hugsanlegar fyrirætlanir Bandaríkjamanna að svo stöddu enda breytist staðan mjög hratt.
„Það má lesa í þeirra yfirlýsingar að þeir ætli sér einhverja stærri hluti í þessum átökum heldur en reiknað var með miðað við fyrstu yfirlýsingar.“
Pawel gerir ráð fyrir að utanríkismálanefnd þingsins muni funda ört næstu daga, bæði til að klára einstaka þingmál og líka til að fara yfir stöðu mála í Mið-Austurlöndum.
„Ég geri ráð fyrir að nefndin muni funda ótt á títt á næstu dögum og þá oft með ráðherra.“