Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi á Alþingi þingmenn minnihlutans fyrir framgöngu sína í ræðustól að undanförnu.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi á Alþingi þingmenn minnihlutans fyrir framgöngu sína í ræðustól að undanförnu.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi á Alþingi þingmenn minnihlutans fyrir framgöngu sína í ræðustól að undanförnu.
Hún sagði að ekki aðeins hefði verið talað mun meira í hverju málinu á fætur öðru heldur en hefði tíðkast undanfarin ár í þeim tilgangi til að koma í veg fyrir framgang mála ríkisstjórnarinnar, heldur hefðu sumir þingmenn „sýnt á sér þannig hliðar að ég hreinlega vona að enginn sé að horfa”.
Ása Berglind bætti við undir dagskrárliðnum störf þingsins: „Háttvirtir þingmenn hafa komið upp og bókstaflega öskrað á samstarfsfólk sitt líkt og börn með tilfinningavanda sem þau hafa ekki þroska til að ráða við.”
Hún nefndi að forseta Alþingis hefði verið sýnd mikil vanvirðing með framíköllum og óviðeigandi orðum og sagði jafnframt að þingmenn hefðu stigið í pontu og hneykslast á því að ekki væri verið að virða siði kirkjunnar um hvíldardaga.
„Á sama tíma er orðræðan með þeim hætti að prestar landsins hljóta að taka fyrir höfuðið og fara með bæn fyrir háttvirtu Alþingi.”
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, talaði á svipuðum nótum er hann steig í pontu og sagði skrítið að þrátt fyrir að sterkur meirihluti væri á þinginu kæmi hann ekki neinum málum þangað í gegn.
Hann kvaðst velta fyrir sér hvort setja ætti kvóta á umræðuna á Alþingi.
„Ég get skilið að minnihlutinn verður með einhverjum hætti að fá eitthvað hólf til að vinna með sín mál en það er ekki reyndin,” sagði hann og bætti við að ríkisstjórnin væri sterk og ætti því að ná málum í gegnum þingið.
„Það getur ekki gengið að hópur þingmanna sem er kannski með 45% landsmanna á bak við sig komi ekki nokkrum sköpuðum hlutum í gegn,” sagði Guðbrandur og taldi að taka ætti þessi mál til gagngerrar endurskoðunar.