Það sló í brýnu með Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni Sjálfstæðisflokksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar í þingsal í dag.
Það sló í brýnu með Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni Sjálfstæðisflokksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar í þingsal í dag.
Það sló í brýnu með Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni Sjálfstæðisflokksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar í þingsal í dag.
Tilefnið er að Guðrún gerði starfslok Helga Magnúsar Gunnarssonar, fráfarandi vararíkissaksóknara, að umræðuefni í athugasemdum við atkvæðagreiðslu um fjárauka í þinginu í dag.
Guðrún minntist á fregnir af starfslokasamningi við Helga Magnús, sem hún sagði myndu líklega nema 350 milljónum króna, en það setti hún í samhengi við hagræðingu í fjárauka upp á 330 milljónir á ársgrundvelli.
„Ég vil fá að upplýsa um það að ég hyggst leggja hér fram skriflega fyrirspurn til ráðherra um endanlegan kostnað á þessum starfslokasamningi að máli sem var búið að afgreiða í tíð fyrri ráðherra,“ sagði Guðrún.
Eftir að atkvæðagreiðslu um fjáraukann lauk var atkvæðagreiðsla um varnarmálalög á dagskrá. Steig Þorgerður Katrín í pontu þar sem gera átti athugasemdir við þá atkvæðagreiðslu en hún nýtti tækifærið til þess að mótmæla orðum Guðrúnar í athugasemd hennar við atkvæðagreiðslu um fjáraukann.
„Hér var ekki um neinn starfslokasamning að ræða og mér finnst miður ef að fyrrum hæstvirtur dómsmálaráðherra veit það ekki að þetta er stjórnarskrárbundinn réttur sem viðkomandi aðili hafði rétt á.“
Sagði Þorgerður það risastórt mál að hennar mati, að Guðrún, sem er fyrrverandi dómsmálaráðherra, kæmi með ávirðingar í pontu um að verið væri að gera eitthvað sem ekki væri löglegt og vændi Guðrúnu um vanþekkingu.
„Að það hafi verið starfslokasamningur gerður. Mér finnst miður að upplifa það og það er kannski skiljanlegt að hæstvirtur fyrrum dómsmálaráðherra hafi aflétt líka áminningu á þennan tiltekna starfsmann. Ég kem hingað inn af því að hæstvirtur dómsmálaráðherra er ekki í sætinu til þess að svara fyrir þessar ávirðingar. Þannig að ég vil halda því til haga að það var ekki gerður starfslokasamningur, heldur er þetta stjórnarskrárbundinn réttur viðkomandi manns, sem mér finnst mjög skrítið að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi ekki þekkingu meiri á.“
Forseti þingsins, Bryndís Haraldsdóttir, minnti ráðherrann að svo búnu á að til umræðu væri atkvæðagreiðsla um varnarmálalög.
Guðrún steig nokkru síðar í pontu og svaraði fyrir sig.
„Mér finnst þetta vera orðin meiriháttar uppákoma hér í þingsal, ég verð nú að segja eins og er, ég hélt við værum hér að útskýra hvernig við greiðum atkvæði í varnarmálum, en hér kemur hæstvirtur utanríkisráðherra og fer að tala um þegar ég fór í atkvæðaskýringu varðandi fjárauka, þar sem að ríkisstjórnin er að boða 330 milljóna króna sparnað og ég bara benti á það að hér var verið að ljúka við starfslok hjá vararíkissaksóknara sem mun líklega kosta skattgreiðendur 350 milljónir króna.“
Brast þá út töluvert háreysti í þingsal og þurfti Guðrún að hafa nokkuð fyrir því að fá orðið aftur í pontu vegna hávaðans.
„Og af því að, og af því að, og af því að [hér linnti loks látum] hæstvirtur utanríkisráðherra talar hér um og vænir hér fyrrum dómsmálaráðherra um að hafa ekki sinnt vinnunni sinni, þá var það mál frágengið þegar sá ráðherra fór úr ráðuneytinu, það mál var frágengið enda er þetta bara starfsmannamál sem núverandi ráðherra hefur tekið 6 mánuði í að afgreiða, 6 mánuði.“
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins steig einnig tvisvar í pontu og gerði athugasemd við túlkun ráðherrans á stjórnarskrárbundnum rétti Helga Magnúsar til 350 milljónanna.