Á meðan hnúturnar ganga milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og íranska klerksins Ali Khamenei rignir sprengjum Ísraela á stjórnarsetrið og höfuðborgina Teheran í Íran og fleiri skotmörk, en gagnárásir klerkaveldisins hafa reynst Ísraelum síður skeinuhættar. Hafa tífalt fleiri fallið í Íran en Ísrael, um 240 á móti 24.
Á meðan hnúturnar ganga milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og íranska klerksins Ali Khamenei rignir sprengjum Ísraela á stjórnarsetrið og höfuðborgina Teheran í Íran og fleiri skotmörk, en gagnárásir klerkaveldisins hafa reynst Ísraelum síður skeinuhættar. Hafa tífalt fleiri fallið í Íran en Ísrael, um 240 á móti 24.
Á meðan hnúturnar ganga milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og íranska klerksins Ali Khamenei rignir sprengjum Ísraela á stjórnarsetrið og höfuðborgina Teheran í Íran og fleiri skotmörk, en gagnárásir klerkaveldisins hafa reynst Ísraelum síður skeinuhættar. Hafa tífalt fleiri fallið í Íran en Ísrael, um 240 á móti 24.
Í morgun, miðvikudag, kveikti íranskt flugskeyti í nokkrum bifreiðum í borg eða bæ um miðbik Ísraels. Að sögn Fars-fréttastofunnar írönsku var eitt skotmarka árásarinnar þó Meron-flugstöðin sem er mun norðar í landinu.
Algengt áróðursbragð stríðandi þjóða er að ritskoða fréttir af tjóni í eigin ranni og gera sem minnst úr. Með því að rýna í myndir og myndskeið sem svífa um samfélagsmiðla hefur Sanad, staðreyndateymi katarska fjölmiðilsins Al Jazeera, kortlagt tjón Ísraela af flugskeytum Írana tímabilið frá laugardegi og fram á mánudag þótt væringarnar hafi nú staðið lengur, eða í sex daga.
Leiðir afraksturinn í ljós að á laugardag sprungu írönsk flugskeyti um 300 metra frá varnarmálaráðuneyti Ísraels í borginni Tel Aviv, en ráðuneytið, sem oft hefur verið kallað „Pentagon Ísraels“, er ein viðkvæmasta, en um leið brynvarðasta, opinbera byggingin í Ísrael gervöllu.
Önnur flugskeytahrina hæfði Weizmann-vísindastofnunina í Rehovot, sunnan Tel Aviv, en talið er að stofnunin hafi lagt ýmislegt til hernaðartækni Ísraelshers um dagana. Írönsk flugskeyti hafa, að sögn rannsakenda Sanad, einnig hæft skotmörk í miðborg Tel Aviv, hvort sem til þeirra var skotið eða skeytin geiguðu.
Í Ramat Gan, nágrannaborg Tel Aviv, urðu nokkrir turnar og fjölbýlishús fyrir sprengjum sem ollu miklu tjóni og leiddu til þess að rýma þurfti víða. Segja borgaryfirvöld níu byggingar hafa skaddast.
Þá hæfðu flugskeyti aðra nágrannaborg austar, Petah Tikva, og tjónuðu þar íbúðar- sem atvinnuhúsnæði auk þess sem trúarlegur skóli var eyðilagður með öllu í Bnei Brak.
Mest hefur tjón Ísraelsmanna í þessu sex daga stríði þó orðið í borginni Bat Yam, suður af höfuðborginni, þar sem níu manns hafa látið lífið svo staðfest sé og um 200 hlotið ýmislegt líkamstjón. Þá er fjöldi heimila rústir einar í borginni Rishon LeZion.
Í Norður-Ísrael hæfðu írönsk flugskeyti Bazan-olíuhreinsunarstöðina í Haifa, þá stærstu í landinu, sem varð til þess að leggja þurfti þar niður alla starfsemi. Í annarri árás á Haifa skemmdust íbúðarhús í hverfinu Neve Sha’anan.
Fjórar konur í sömu fjölskyldu létust í flugskeytaárás á bæinn Tamra í Norður-Ísrael, sem byggður er Palestínumönnum að miklu leyti, en Tamra er sama marki brenndur og mörg palestínsk byggðarlög í Ísrael – þar eru engin loftvarnabyrgi.
Meðan á öllu þessu stóð rigndi mun tæknilegri, nákvæmari og fullkomnari flugskeytum Ísraela yfir Íran þrátt fyrir að klerkurinn Khamenei lýsti því yfir í dag, í sínu fyrsta sjónvarpsávarpi frá árás Ísraela á föstudag, að Íran gæfist ekki upp fyrir neinum og þjóðin stæði hnarreist gegn fjendum sínum í þvinguðu stríði, rétt eins og í þvinguðum friði. Gat hann þess sérstaklega, um leið og hann svaraði Trump fyrr í dag, að Írönum væri svarafátt á tungumáli hótana.
Í gær, þriðjudag, tilkynnti Trump helstu aðstoðarmönnun sínum að hann væri fylgjandi áætlun um að ráðast á Íran, en biði þó átekta til að sjá hvort klerkastjórnin félli frá kjarnorkuvopnaáætlun sinni fyrst. Þetta hefur dagblaðið Wall Street Journal eftir heimildarmönnum.
Eitt af hugsanlegum skotmörkum Bandaríkjamanna er Fordow-auðgunarverið þar sem geislavirk efni eru auðguð svo nýtast megi í kjarnavopn. Verið er grafið í jörð undir heilu fjalli og ekki auðsótt að því, að mati vígbúnaðarsérfræðinga, sem telja aðeins öflugustu sprengjur geta gert þar skráveifu.
Sjálfur hefur Trump ítrekað látið í veðri vaka í ávörpum og viðtölum síðustu daga að Bandaríkin gætu vel gengið til samstarfs við Ísrael um að knésetja Írana, persónulega sæktist hann eftir einhverju „miklu stærra“ en vopnahléi.
Ekki hafa þó öll ummæli Bandaríkjaforseta horft til skýrleika um áætlanir hans og nægir að grípa niður í ávarp hans við flöggunarathöfn í garði Hvíta hússins í dag: „Ég geri það kannski, ég geri það kannski ekki. [...] Ég meina, enginn veit hvað ég ætla að gera,“ sagði Trump og öruggt mál að þar fór hann ekki með fleipur.