Veðurstofa Íslands er smám saman að auka vöktun í kringum Ljósufjallakerfið.
Veðurstofa Íslands er smám saman að auka vöktun í kringum Ljósufjallakerfið.
Veðurstofa Íslands er smám saman að auka vöktun í kringum Ljósufjallakerfið.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að bæði sé verið að að fjölga GPS- og skjálftamælum og að því verði vonandi haldið áfram.
Benedikt segir virknina í kerfinu halda áfram og í raun fari skjálftarnir stækkandi.
„Við erum bæði að sjá stækkandi skjálfta og stærri hrinur en áður. Það er einhver þróun en við höfum ekki enn þá séð aflögun samfara þessari þróun,“ segir Benedikt og útskýrir að skjálftarnir liggi mjög djúpt og því erfitt að koma auga á aflögun.
„Ef kvika er t.d. að safnast fyrir á mjög miklu dýpi, kannski 20 kílómetrum, verður aflögunarmynstrið mjög lítið og dreifist yfir stórt svæði og þannig er erfitt að sjá það.“
Benedikt játar því að langlíklegasta skýringin á jarðhræringum í kerfinu sé kvikusöfnun og segir hann fátt annað en kviku geta valdið svona öflugum skjálftahrinum.
Hann segir ómögulegt að nefna einhverja tímalínu framtíðaratburða því sögulegir atburðir séu fáir og þeir gefi enga fullkomna mynd af því hvað gæti gerst í framtíðinni.
Hvað aðdraganda varðar segir hann að í flestum tilfellum verði að minnsta kosti mánaða aðdragandi að því að eitthvað meira gerist og oft og tíðum ára eða áratuga aðdragandi.
„Við getum lítið annað gert en fylgst með og brugðist við ef eitthvað meira gerist. Við ættum að sjá atburði fyrir með einhverjum fyrirvara. Það er ekki algengt að þeir verði án þess að þeir hafi aðdraganda sem er vel mælanlegur en við erum smám saman að þyngja vöktunina þarna í kring.“