Veiðigjöld sjávarútvegsfyrirtækisins Odda hf. á Patreksfirði yrðu 125 milljónir eftir breytingu þá sem liggur í loftinu með frumvarpi þar um, en eru nú 83 milljónir.
Veiðigjöld sjávarútvegsfyrirtækisins Odda hf. á Patreksfirði yrðu 125 milljónir eftir breytingu þá sem liggur í loftinu með frumvarpi þar um, en eru nú 83 milljónir.
Veiðigjöld sjávarútvegsfyrirtækisins Odda hf. á Patreksfirði yrðu 125 milljónir eftir breytingu þá sem liggur í loftinu með frumvarpi þar um, en eru nú 83 milljónir.
Þetta kom fram í ræðu Jens Garðars Helgasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í kvöld þar sem tekist var á um frumvarpið, sem stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga ræddi á fundi sínum í gær og gerði um sérstaka bókun þar sem stjórnin kvaðst undrast tregðu stjórnvalda til að veita aðgang að lykilgögnum sem varpi ljósi á raunveruleg áhrif frumvarpsins.
Sagði Jens í ræðu sinni að óskandi hefði verið að einhverjir úr meirihluta atvinnuveganefndar hefðu séð sér fært að vera viðstaddir í þingsalnum þar sem hann hefði fengið nýjar tölur frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte um hvaða áhrif veiðigjaldið nýja hefði á Odda sem er meðalstórt fyrirtæki í sjávarútvegi.
Sagði Jens þessa nýju tölu, 125 milljónir, vera útkomuna eftir hækkun frítekjumarks og spurði hvernig á því skyldi standa. Þar væri skýringin breyttur reiknistofn.
„Þetta eru margar krónur á kíló fyrir þorsk og ýsu. Hann [reiknistofninn] breyttist og hann snarhækkaði sem verður til þess að þetta er 50 prósenta hækkun með öllum þeim mögulegu afsláttum sem til eru í kerfinu. Þetta er 50 prósenta hækkun á veiðigjöldum, 50 prósenta hækkun, en þar með er ekki öll sagan sögð um þetta litla meðalstóra fyrirtæki, virðulegur forseti,“ sagði þingmaðurinn í ræðu sinni.
Þar sem núverandi veiðigjald tæki 75 til 80 prósent af ráðstöfunartekjum Odda, að greiddum rekstri, fjármagnsgjöldum og nauðsynlegum viðhaldsfjárfestingum, færi það sem eftir stæði í nýja gjaldið, fé fyrirtækja sem forsætisráðherra hafi á fundi með íbúum á Vestfjörðum í gær talað um að búið væri að koma í var.
Tölurnar segðu hins vegar sitt og sagði Jens það beinlínis rangt að búið væri að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir. „Það er beinlínis rangt. Af því að við erum að fá núna inn nýjar tölur, nýjar greiningar, frá Deloitte og ég get tekið það fram að Deloitte er ekki einu sinni endurskoðandi þessa félags, Odda á Patreksfirði,“ sagði þingmaðurinn.
Kvað Jens málið stóralvarlegt og biðlaði undir lok ræðu sinnar til ríkisstjórnarinnar og meirihluta atvinnuveganefndar.
„Við verðum að staldra við. Það getur vel verið að hæstvirtur forsætisráðherra standi í þeirri trú að þetta hafi átt að hafa tilætlaðan árangur, að koma til móts við þessar útgerðir. En það gerir það bara ekki og tölurnar tala sínu máli. Við verðum að staldra við,“ lauk Jens Garðar Helgason máli sínu.