Vinkonurnar Birna Mjöll Björgvinsdóttir og Isabella Ó. J. Morthens hafa farið yfir heimsins höf síðastliðna mánuði, en þær voru að klára fjögurra mánaða heimsreisu. Þær bjuggu til TikTok og Instagram aðgang undir nafninu Ljóskureisan og átti sá reikningur fyrst og fremst að vera minningarbók fyrir þær sjálfar, fjölskyldu, vini og vandamenn til að fylgjast með ferðinni, en nú hafa fleiri áhugasamir bæst í fylgjendahópinn og eru þær með nokkur þúsund fylgjendur á báðum miðlum.
Vinkonurnar Birna Mjöll Björgvinsdóttir og Isabella Ó. J. Morthens hafa farið yfir heimsins höf síðastliðna mánuði, en þær voru að klára fjögurra mánaða heimsreisu. Þær bjuggu til TikTok og Instagram aðgang undir nafninu Ljóskureisan og átti sá reikningur fyrst og fremst að vera minningarbók fyrir þær sjálfar, fjölskyldu, vini og vandamenn til að fylgjast með ferðinni, en nú hafa fleiri áhugasamir bæst í fylgjendahópinn og eru þær með nokkur þúsund fylgjendur á báðum miðlum.
Vinkonurnar Birna Mjöll Björgvinsdóttir og Isabella Ó. J. Morthens hafa farið yfir heimsins höf síðastliðna mánuði, en þær voru að klára fjögurra mánaða heimsreisu. Þær bjuggu til TikTok og Instagram aðgang undir nafninu Ljóskureisan og átti sá reikningur fyrst og fremst að vera minningarbók fyrir þær sjálfar, fjölskyldu, vini og vandamenn til að fylgjast með ferðinni, en nú hafa fleiri áhugasamir bæst í fylgjendahópinn og eru þær með nokkur þúsund fylgjendur á báðum miðlum.
„Ferðin gekk vonum framar og við gætum í raun ekki verið ánægðari með það hvernig allt þróaðist. Auðvitað mættum við áskorunum inn á milli en það er einmitt hluti af svona ferðalagi, að þurfa að takast á við óvæntar aðstæður, læra af þeim og vaxa í leiðinni.
Eftir fjóra mánuði þar sem nánast hver einasti dagur bauð upp á eitthvað nýtt og spennandi, var það sérstök og óvenjuleg tilfinning að snúa aftur heim í hversdagsleikann á Íslandi. Þessir fjórir mánuðir voru svo sannarlega bestu mánuðir lífs okkar, svo það tekur sinn tíma að lenda og ná aftur tengingu við daglegt líf heima,“ segir Isabella.
Hvað fóru þið til margra landa?
„Við fórum alls til tíu landa á ferðalaginu okkar og það var ótrúlega dýrmæt reynsla að fá að kynnast ólíkum menningarheimum og umhverfi þar sem að hvert land hafði eitthvað sérstakt upp á að bjóða. Lengstum tíma eyddum við í Taílandi, Indónesíu og Ástralíu, um þrjár vikur í hverju landi. Þegar litið er tilbaka hefðum við viljað vera lengur á hverjum stað en á sama tíma að þá voru mörg lönd sem okkur dreymdi um að heimsækja svo þetta var hinn fullkomni millivegur. Við ferðuðumst hratt um en fengum að sjá ótal staði með mismunandi menningu, náttúru og sögu,“ segir Birna.
Hvaða land kom ykkur mest á óvart?
„Það land sem kom okkur hvað mest á óvart var án efa Ástralía. Við eyddum þremur vikum í að ferðast niður austurströndina með rútu og urðum algjörlega heillaðar af landinu. Við áttum ekki von á að náttúran væri svona fjölbreytt og falleg, allt frá hvítum ströndum Whitsundays-eyja til kóralrifanna í Great Barrier Reef, regnskóga Cairns og eyjunnar Fraser. Þetta voru staðir sem heilluðu okkur algjörlega,“ segir Isabella.
„Við vorum búnar að heyra margar sögur um hættulegt dýralíf í Ástralíu og við vorum smá stressaðar fyrir ferðina, maður sér jú allt mögulegt á TikTok um köngulær í skóm, snáka inn á baðherbergjum og hákarla í sjónum. Við sáum vissulega köngulær, en bara úti í náttúrunni, eins og við má búast. Þetta var alls ekkert eins og sögurnar gáfu í skyn og var í raun bara partur af ævintýrinu.
Það sem heillaði okkur líka var andrúmsloftið í landinu og fólkið sem við kynntumst. Allir voru svo opnir, hjálpsamir, glaðlyndir og við upplifðum okkur strax velkomnar. Ástralía stal sannarlega hjörtunum okkar,“ segir Birna.
Þið voruð með „bucket-lista“ yfir hluti sem ykkur langaði að afreka í heimsreisunni, hvernig ykkur gekk að klára hann?
„Áður en við lögðum af stað í reisuna gerðum við bucket-lista, þar á meðal var að fá köfunarréttindi, læra á brimbretti, fara í fallhlífar- og teygjustökk, kafa í Great Barrier Reef, synda með skjaldbökum og hákörlum. Okkur tókst að klára allt þetta, og meira til!
Á meðan ferðalaginu stóð bættum við líka reglulega við listann, þá bæði afþreyingum ásamt stöðum sem okkur dreymdi um að sjá einhvern tímann á ævinni. Sem dæmi ákváðum við alveg óvænt að synda með risastórum skötum á Balí, eitthvað sem við höfðum ekki planað, en það var algjörlega ógleymanleg upplifun.
Í Airlie Beach í Ástralíu stukkum við úr flugvél og það var svo sannarlega eitthvað sem við munum aldrei gleyma. Orð ná varla að lýsa þeirri mögnuðu tilfinningu, að vera í frjálsu falli og öllum þeim hugsunum sem fljúga í gegnum hausinn á manni í því augnabliki. Útsýnið var líka alveg klikkað og það var ótrúlegt að svífa um í þessu fallega landslagi. Maður áttar sig á því að lífið er núna, og maður á að njóta þess til fulls á meðan maður getur,“ segir Birna.
„Teygjustökkið var í bænum Taupo í Nýja-Sjálandi og það var meiri skyndiákvörðun, bókað með aðeins eins dags fyrirvara. Sú tilfinning var allt öðruvísi en fallhlífarstökkið, tilfinningalega sjokkið var meira og allt var mun fljótara að gerast. Og það kom augnablik þar sem að okkur leið eins og að það væri ekkert að fara að grípa okkur. Báðar þessar upplifanir voru einstakar á sinn hátt og klárlega á meðal hápunkta ferðarinnar,“ segir Ísabella.
Stelpurnar ferðuðust um Eyjaálfu í dágóðan tíma, bæði í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og svo fóru þær þaðan til Cook eyja og vörðu viku í sannkallaðri paradís, áður en þær héldu til Norður-Ameríku.
„Eins og við sögðum áður, þá urðum strax ástfangnar af Ástralíu og vorum fljótt farnar að íhuga að flytja út og vinna þar eftir dvölina. Það sem stóð upp úr var þriggja daga sigling á seglskipi milli Whitsundays eyja. Við heimsóttum meðal annars Whitehaven Beach, en atriði úr Pirates of the Caribbean bíómyndunum voru tekin þar upp. Við fórum einnig á Fraser-eyju, sem er þekkt fyrir að hafa Dingóa, sem eru villtir hundar, og þeir ráfa um strendur eyjunnar. Þar voru engir vegir og við keyrðum um strendur eyjarinnar á fjórhjóladrifnum bílum, gistum í tjöldum, vorum án netsambands í þrjá daga og kynntumst yndislegu fólki,“ segir Birna.
„Í Nýja-Sjálandi ferðuðumst við um norður eyjuna á húsbíl í tvær vikur. Þar keyrðum við á vinstri vegarhelming, sem var furðu fljótt að venjast, en við höfum hinsvegar lent nokkrum sinnum í því að setja rúðuþurrkurnar í gang í stað stefnuljóss hérna heima.
Náttúran þar er hreint út sagt mögnuð og svipar margt til Íslands. Við ókum í gegnum skóga, sáum fjölda fossa, vötn, heitar laugar, fjöll og strendur. Það sem stóð helst upp úr var að sjá Hobbiton og ganga um þar sem myndirnar Lord of the Rings og Hobbitinn voru teknar upp. Hver dagur var nýttur ævintýri og það var gaman að hafa frelsi til að ferðast á eigin hraða, fylgja veðrinu og finna fyrir auknu sjálfstrausti. Við vorum 19 ára að aka risa stórum húsbíl, hinum megin á hnettinum, á vitlausum vegarhelming, og ökusætið er hægra megin, frekar magnað,“ segir Isabella.
Hvernig ákváðu þið að fara til Cook-eyja?
„Cook Islands eru eyríki í Suður-Kyrrahafi sem við höfðum aldrei heyrt um fyrr en við rákumst á það á TikTok fyrir algjöra tilviljun. Við enduðum á að breyta nokkrum flugum til að komast þangað og það var svo sannarlega þess virði.
Við flugum frá Nýja-Sjálandi til eyjunnar Rarotonga, en hápunkturinn var þegar við flugum þaðan yfir til Aitutaki, útsýnið var eins og paradís á jörðu. Þar fórum við í bátsferð um eyjarnar sem liggja við strendur Aitutaki. Þetta var ógleymanlegur dagur frá upphafi til enda, við syntum í tærasta sjó sem við höfum nokkurn tímann séð, borðuðum mat að hætti innfæddra og upplifðum kyrrðina sem fylgir því að vera algjörlega utan alfaraleiðar.
Það var einmitt þarna sem við lituðum hvor á aðra og sögðum hlæjandi: „Þvílík forréttindi að fá að vera hérna, hvernig erum við svona heppnar að fá að sjá þetta með eigin augum?“ Þetta var eitt af þessum augnablikum sem við munum aldrei gleyma og mun lifa með okkur alla ævi,“ segir Birna.
Næsta stopp bauð líka upp á strönd og sól, en þann stað þekkja fleiri. Önnur sannkölluð paradís, Havaí.
„Havaí kom skemmtilega á óvart, við vorum ekki með miklar væntingar þegar við lentum á eyjunni, en við dýrkuðum að vera þar. Við gistum á gistiheimili í Waikiki sem var aðeins tveimur mínútum frá ströndinni, og leigðum brimbretti við sólsetur. Við kynntumst einnig tveimur stelpum frá Kanada sem voru herbergisfélagar okkar og við áttum dýrmætar stundir með þeim, leigðum allar saman bíl og ferðuðumst um eyjuna. Það var hápunktur ferðarinnar, að komast úr borgar stemningunni sem er við strandlengjuna og fara að öllum náttúruperlunum sem Honolulu hefur upp á að bjóða,“ segir Birna.
Hvaða dagur úr reisunni er eftirminnilegastur?
„Það eru svo margir dagar sem standa upp úr og erfitt að velja einn sem eftirminnilegastan, auðveldasta svarið væri dagurinn sem við fórum í fallhlífastökkið, það er augnablik sem við munum aldrei gleyma. Ef við ættum að velja dag þar sem hafði einhverja merkingu fyrir okkur þá er það dagurinn þar sem við vorum á seglskipi í Ástralíu og við vöknuðum klukkan hálfsex og horfðum út á hafið á sólarupprásina saman. Það var svona augnablik þar sem við litum á hvor aðra og sögðum: ,,Er þetta í alvöru lífið okkar?’’ Eftir það snorkluðum við allan daginn, stukkum út í sjóinn af rólu sem hékk á bátnum og stoppuðum á eyjunum sem voru í kring,“ segir Isabella.
Er eitthvað land sem ykkur langar að fara til aftur á næstu árum?
„Klárlega, það eru mörg lönd sem við viljum heimsækja aftur. Okkur langar að fara aftur til Ástralíu og gefa okkur meiri tíma á hverjum stað, við viljum skoða suður eyju Nýja-Sjálands sem við náðum ekki að sjá í þetta sinn. Hver staður setti sitt mark á ferðalagið okkar og það er ómögulegt að bera þá saman, því fegurðin liggur í því hvað þeir voru ólíkir,“ segir Ísabella og Birna bætir við:
„Eftir að hafa ferðast víða, og kynnst fólki sem hefur heimsótt óteljandi staði, erum við nú að líta til annarra heimshluta fyrir næsta ævintýri okkar. Afríka, Filippseyjar og Suður-Ameríka hafa vakið sérstaka forvitni og spennu hjá okkur.“
Má búast við fleiri ævintýrum hjá Ljóskureisunni?
„Já, alveg pottþétt! Við höfum fengið ótrúlega góðar undirtektir og okkur finnst virkilega skemmtilegt að deila þessu ævintýri með fylgjendum okkar. Við bjuggumst ekki við að fólki fyndist svona gaman að fylgjast með, en þetta hefur verið yndislegt og okkur finnst ekkert skemmtilegra en að fá spurningar um reisuna og vonum að við getum verið innblástur fyrir annað fólk til að fara í svona heimsreisu,“ segir Birna.