Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segir samtökin hrædd um að allsherjarstríð geti sprottið upp í Persaflóa eftir árásir Ísraels og Bandaríkjanna á Íran.
Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segir samtökin hrædd um að allsherjarstríð geti sprottið upp í Persaflóa eftir árásir Ísraels og Bandaríkjanna á Íran.
Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segir samtökin hrædd um að allsherjarstríð geti sprottið upp í Persaflóa eftir árásir Ísraels og Bandaríkjanna á Íran.
„Við höfum áhyggjur af því að Bandaríkin hafi fylkt sér að baki árás Ísraels og erum hrædd um að það geti sprottið upp allsherjarstríð þarna í Persaflóa,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Guttormur segir það einnig sorglegt að ekki hafi verið reynt að koma aftur á einhvers konar viðræðum á milli ríkjanna.
„Þetta er gert þegar Bandaríkin og Íran eru að fara að byrja samningaviðræður um kjarnorkuáætlun Írana, sem gjörsamlega eyðileggur hana. Þótt Bandaríkjamenn og Ísraelar tali um að þeir séu að fyrirbyggja ógn af því að Íranir byggi sér kjarnorkuvopn, þá hafa helstu álitsgjafar ekki sagt að það hafi verið sérstök vísbending um að þau hafi verið að byggja kjarnorkuvopn," bætir Guttormur við.
Hann segir samtökin, sem friðarsinna og andstæðinga útbreiðslu kjarnorkuvopna, hafa áhyggjur af því að þetta muni mögulega sannfæra írönsk stjórnvöld um að eina leiðin til að verja sig fyrir svona árásum sé að koma upp kjarnorkuvopnum eins og Norður-Kórea gerði.
„Það mætti kannski aðeins fjarlægja sig þessari línu sem er alltaf farið eftir frá Bandaríkjunum um að þetta sé einhvers konar sjálfsvörn Ísraela. Það er alltaf byrjað á þessari möntru um að Ísraelar hafi mátt verja sig, frekar en að fara beint í það að hvetja til friðar og samninga.“
Guttormur segir að Evrópuþjóðir mættu gera alvöru úr því að hlíta þeim alþjóðalögum sem Evrópusambandið og fleiri tala um að séu svo mikilvæg, til að gera eitthvað til að stöðva þjóðarmorð og herför Ísraela gagnvart nágrönum sínum með alvöru þvingunum.
„Þessi vanvirðing gangvart alþjóðalögum, mannnréttindasáttmálanum og alþjóðasamningum sem hefur einkennt framferði Bandaríkjanna, Ísraela og Vesturlanda. Þetta er eitthvað sem Íslendingar tala um að sé svo mikilvægt fyrir smáþjóðir og svo er maður að sjá að þessi lönd sem hafa virkilega verið að grafa undan þessu kerfi samninga eru þau lönd sem við köllum okkar helstu bandamenn. Íslensk stjórnvöld mættu hugsa út í það á hvaða leið við erum,“ segir hann.