Farsældarráð Suðurnesja, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, var formlega stofnað í morgun.
Farsældarráð Suðurnesja, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, var formlega stofnað í morgun.
Farsældarráð Suðurnesja, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, var formlega stofnað í morgun.
Ráðinu er ætlað að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur, meðal annars með því að styrkja samstarf og tryggja jöfn tækifæri barna til þátttöku, náms og félagslegrar virkni þvert á kerfi.
Frá þessu segir í tilkynningu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastjóri farsældar barna á Suðurnesjum, segir að með framtakinu stígi Suðurnesin mikilvæg skref sem leiðandi afl í þróun nýrra lausna í þágu barna á landsvísu og móti fordæmi fyrir aðra landshluta.
Bæjarstjórar sveitarfélaganna sem standa að ráðinu, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkurbæjar og Voga, segja stofnunina sögulegt skref fyrir landshlutann.
Ásamt lykilaðilum í þjónustu, svo sem heilbrigðisstofnun, fjölbrautaskóla og ungmennaráði Suðurnesja, standi bæjarstjórnir þétt saman til þess að tryggja börnum og fjölskyldum þeirra bestu mögulegu tækifærin í lífinu.
„Ráðið er skýrt merki um metnað og vilja til að tryggja að kerfin okkar virki fyrir þau sem þau eiga að grípa og styðja,“ segja bæjarstjórar sveitarfélaganna, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Árni Þór Sigurðsson, formaður Grindavíkurnefndar, segir stofnun farsældarráðs mikilvægan lið í samþættingu þjónustu og gott tæki til þess að ná utan um og hlúa að börnum.
„Velferð Grindvíkinga og farsæld barna ekki síst er brýnt viðfangsefni í kjölfar náttúruhamfara,“ segir hann í tilkynningunni.
Skipulag ráðsins byggir á fjórum einingum: farsældarráðinu sjálfu, framkvæmdahópi þess, tímabundnum verkefnahópum og faghópi.
Innan tólf mánaða verður mótuð svæðisbundin fjögurra ára aðgerðaáætlun um farsæld barna sem byggð verður á kortlagningu ráðsins á styrkleikum og áskorunum á svæðinu.