Ísland hafi burði til að stofna her

Varnarmál Íslands | 24. júní 2025

Ísland hafi burði til að stofna her

Setja má spurningarmerki við það hvort að Ísland sé raunverulega ábyrgur bandamaður í Atlantshafsbandalaginu (NATO). Ísland þarf að tryggja varnir sínar mun betur, sem hægt er að gera með stofnun hers. 

Ísland hafi burði til að stofna her

Varnarmál Íslands | 24. júní 2025

Bandarískir hermenn á varnarsvæðinu í Reykjanesbæ.
Bandarískir hermenn á varnarsvæðinu í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Setja má spurn­ing­ar­merki við það hvort að Ísland sé raun­veru­lega ábyrg­ur bandamaður í Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Ísland þarf að tryggja varn­ir sín­ar mun bet­ur, sem hægt er að gera með stofn­un hers. 

Setja má spurn­ing­ar­merki við það hvort að Ísland sé raun­veru­lega ábyrg­ur bandamaður í Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Ísland þarf að tryggja varn­ir sín­ar mun bet­ur, sem hægt er að gera með stofn­un hers. 

Þetta seg­ir Arn­ór Sig­ur­jóns­son, sér­fræðing­ur í varn­ar­mál­um, í sam­tali við mbl.is.

Mark Rutte, fram­kvæmda­stjóri Atlants­hafs­banda­lags­ins, varaði við því í gær að ef aðild­ar­ríki NATO myndu ekki auka út­gjöld til varn­ar­mála þá væri hætta á því að Rúss­ar gerðu árás á aðild­ar­ríki á næstu 3-7 árum.

„Þá má spyrja sig, er það ábyrg afstaða ís­lenskra stjórn­valda að út­vista al­gjör­lega öll­um vörn­um lands­ins og ör­yggi til annarra aðila, þar með talið Banda­ríkja­manna og Atlants­hafs­banda­lags­ins? Er það ábyrg afstaða stjórn­valda? Ég set spurn­ing­ar­merki við það og ég set spurn­ing­ar­merki við þá full­yrðingu að Ísland sé ábyrg­ur bandamaður,“ seg­ir Arn­ór.

Verðum að geta brugðist við hættu­ástandi

Hann tel­ur að Ísland hafi fjár­hags­lega getu og mannafla til þess að taka þátt í vörn­um lands­ins með bein­um hætti. Það sé eitt­hvað sem við ætt­um að gera en erum að svo stöddu ekki að gera.

Með stofn­un ís­lensks hers?

„Já, eða við get­um kallað það hvaða nafni sem er. En það þarf að vera ein­hver viðbúnaður sem ís­lensk stjórn­völd geta gripið til ein­hliða og án tafa ef hættu­ástand verður með þeim hætti að við þurf­um að verja innviði okk­ar til þess að geta náð inn liðsauka,“ seg­ir Arn­ór.

Hann seg­ir skyn­sam­legt af Evr­ópu og Evr­ópu­sam­band­inu að leggja aukið vægi á eig­in varn­ir. Það sé nauðsyn­legt svo að vægi Banda­ríkj­anna við varn­ir Evr­ópu minnki.

„Ef við stönd­um frammi fyr­ir því að við meg­um eiga von á ein­hvers kon­ar hugs­an­leg­um árás­um Rússa á lönd eins og Lit­há­en eða Pól­land inn­an þriggja til fimm ára, þá verðum við að geta brugðist við með eig­in varn­ar­getu,“ seg­ir Arn­ór.

Stefn­ir í að Ísland hækki fram­lög til varn­ar­mála

Leiðtoga­fund­ur NATO fer fram í Haag í Hollandi í dag. Mark Rutte, fram­kvæmda­stjóri NATO, hyggst fara fram á breyt­ing­ar um að hækka lág­marks­út­gjöld aðild­ar­ríkja til varn­ar­mála úr 2% í 3,5%. Hann vill einnig að aðild­ar­ríki verji 1,5% af vergri lands­fram­leiðslu í „varn­artengda“ mála­flokka, t.a.m. net­varn­ir og aðra innviði.

Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra og Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sækja fund­inn fyr­ir hönd Íslands. Báðar hafa þær sagt að Ísland muni taka til skoðunar að verja 1,5% af vergri lands­fram­leiðslu í varn­artengda mála­flokka.

„Stjórn­mála­leiðtog­arn­ir hafa lýst því yfir að hugs­an­lega endi Ísland með að verða hluti af þessu 1,5% fram­lagi af vergri lands­fram­leiðslu til innviða. Þar með upp­fyll­um við kröf­ur banda­lags­ins um auk­in fram­lög til varn­ar­mála, en innviðaskuld Íslands er búin að vera viðvar­andi í ára­tugi og hún kem­ur ekk­ert með varn­ir per se að gera,“ seg­ir Arn­ór.

mbl.is