Ísland nýtur mikils stuðnings innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) og leiðtogar hafa lýst yfir þakklæti fyrir framlag Íslands til bandalagsins.
Ísland nýtur mikils stuðnings innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) og leiðtogar hafa lýst yfir þakklæti fyrir framlag Íslands til bandalagsins.
Ísland nýtur mikils stuðnings innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) og leiðtogar hafa lýst yfir þakklæti fyrir framlag Íslands til bandalagsins.
Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is frá Haag í Hollandi, hvar leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins fór fram og lauk í dag.
Kristrún segir að fundurinn hafi gengið að óskum ef horft er á hvert markmið fundarins var. Hún segir að í aðdraganda fundarins hafi íslensk stjórnvöld haldið á lofti sérstöðu Íslands, sérstaklega vegna kröfu um að aðildarríkin verji 5% af vergri landsframleiðslu í varnarmál.
Ísland er undanskilið þeirri skyldu en stefnir að því að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu í öryggis- og varnarmál á næstu 10 árum.
„Niðurstaða þessa fundar, þó að hún feli í sér að það sé verið að stórauka varnarframlög, er engu að síður sú að í samtölum við bandalagsríki, í samtölum við framkvæmdastjóra NATO, þá er sérstöðu Íslands áfram haldið á lofti sem herlausri þjóð,“ segir Kristrún.
Varðandi það að Ísland ætli að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu í öryggis- og varnarmál þá minnir Kristrún á að þetta sé fjárfesting í mikilvægum innviðum og stofnunum sem skipti Íslendinga máli.
Nefnir hún sem dæmi Landhelgisgæsluna, almannavarnir, löggæsluna og almenna aðstöðu fyrir æfingar.
Hún segir mikla umræðu hafa sprottið upp um mikilvægi þess að styrkleikar hvers ríkis fái að njóta sín og að ekki sé bara horft á krónutölur þegar litið er til varnarmála.
„Á Íslandi er það þessi gistiríkisstuðningur, þar höfum við staðið okkur gríðarlega vel og við munum áfram vera með fókusinn þar.“
Hvernig metur þú stöðu Íslands í bandalaginu?
„Ísland nýtur mikils stuðnings innan NATO. Fólk er meðvitað um landfræðilega legu landsins. Það er meðvitað um sérstöðu okkar innan bandalagsins og það veit að við höfum staðið okkur vel sem gistiríki. Margir af þeim leiðtogum sem ég hitti hér hafa sérstaklega orð á því að þau hafi notið góðs af þeim stuðningi og eru afar þakklátir. Við höfum gert mjög vel það sem við höfum verið að sinna í Keflavík,“ segir Kristrún og vísar í varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli.
Kristrún hefur átt fjöldamörg samtöl síðustu tvo sólarhringa á leiðtogafundinum. Þar að auki átti hún formlegan fund með öðrum Norðurlandaleiðtogum ásamt Mark Carney forsætisráðherra Kanada.
Á þeim fundi ræddu leiðtogarnir um málefni norðurslóða og öryggi í Norður-Atlantshafi. Að hennar sögn er mikill vilji til þess að vinna frekar saman að öryggi, vörnum og fjárfestingu á svæðinu.
Þó að Úkraína sé ekki NATO-ríki hafa NATO-ríki staðið þétt við bakið á Úkraínu í innrásarstríði Rússlands. Kristrún segir að þar sé engin breyting á.
„Það var ákaflegur stuðningur við Úkraínu á fundinum í dag og flestöll bandalagsríki eru mjög meðvituð um mikilvægi þess að Úkraína sigri Rússa í þessu stríði, það er að segja að Rússland standi ekki eftir sem sigurvegari. Það þarf að verja stöðu Evrópu og þessi landamæri, þessi austurhluti bandalagsins. NATO er auðvitað í hættu ef Rússar vinna. Við höfðum sérstaklega orð á því og ég í mínum orðum inni á fundinum,“ segir Kristrún.