Stefna ríkisstjórnarinnar er að vinna skuli gegn svokallaðri gullhúðun reglna Evrópska efnahagssvæðisins.
Stefna ríkisstjórnarinnar er að vinna skuli gegn svokallaðri gullhúðun reglna Evrópska efnahagssvæðisins.
Stefna ríkisstjórnarinnar er að vinna skuli gegn svokallaðri gullhúðun reglna Evrópska efnahagssvæðisins.
Þetta kemur fram í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem innti ráðherra eftir því hvaða vinna stæði yfir á vegum ráðuneytisins gegn gullhúðun við innleiðingu EES-gerða.
Með gullhúðun er átt við það þegar stjórnvöld herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.
Þá spurði Berglind hvort unnið væri eftir þeim tillögum til úrbóta sem nefndar eru í skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn téðri gullhúðun og að lokum hvort ráðherra teldi að festa ætti í lög um þingsköp Alþingis að meginreglan verði að ekki verði gengið lengra í innleiðingarlöggjöfinni en leiðir af lágmarkskröfum þeirrar EES-gerðar sem verið sé að innleiða.
Svaraði ráðherra því til að íþyngjandi regluverk kæmi niður á samkeppnishæfni Íslands. „Mikilvægt er að gefa gullhúðun við innleiðingu EES-reglna sérstakan gaum í þessu sambandi því heimasmíðaðar viðbótarreglur geta skaðað samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á innri markaði EES og þar með komið niður á viðskiptum þeirra og jafnframt niður á neytendum. Gullhúðun við innleiðingu EES-reglna grefur jafnframt undan ávinningi Íslands af EES-samningnum, sem er einn mikilvægasti alþjóðasamningur sem Íslandi er aðili að,“ segir þá í svarinu.
Segir ráðherra enn fremur í svari sínu að um þessar mundir legði ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áherslu á að einfalda regluumhverfi fyrirtækja og skyti því enn frekar skökku við ef settar væru meira íþyngjandi reglur hér á landi en þörf krefði samkvæmt EES-samningnum.
Í þeim tilvikum sem talið væri nauðsynlegt að fara umfram kröfur viðkomandi EES-gerðar skuli gerð krafa um að það sé vel rökstutt og áhrif þess metin áður en innleiðing fer fram. Almenn vitund um hættuna á gullhúðun sé hugsanlega besta forvörnin og sú umræða sem átt hafi sér stað um málið síðustu misseri hafi þar mikilvægt gildi.
Tíundar ráðherra þá úrbætur sem utanríkisráðuneytið hafi unnið að í samstarfi við forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið og byggist á tillögum er fram komi í nefndri skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-reglna.
Rifjar ráðherra tillögur hópsins upp:
1) Eyðublöð með lagafrumvörpum verði uppfærð og skýr krafa gerð um lýsingu á innleiðingu, hvort tilskipun veiti svigrúm við innleiðingu og hvernig vikið er frá lágmarkskröfum hennar. Krafa verði gerð um rökstuðning og að mat verði lagt á áhrif þess og kostnað. Jafnframt verði gerð krafa um að tilgreint sé hvort vikið sé frá meginreglunni um hrein innleiðingarfrumvörp.
2) Gerð verði krafa um nýjan kafla í greinargerð með stjórnarfrumvörpum við innleiðingu á EES-gerðum þar sem greina ber frá á skýran og aðgengilegan hátt hvort ætlunin er að beita gullhúðun og/eða víkja frá meginreglunni um hrein innleiðingarfrumvörp, sbr. 8. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
3) Gerð verði krafa um það í verklagi við innleiðingu tilskipana að samanburðartafla sé unnin samhliða frumvarpi við innleiðingu á tilskipunum og fylgi frumvarpi í gegnum samráðsferli, til ríkisstjórnar og Alþingis.
4) Þegar drög að stjórnvaldsfyrirmælum við innleiðingu EES-gerða eru birt í samráðsgátt sé þess getið með skýrum hætti ef stjórnvöldum er veitt svigrúm við innleiðingu þeirra gerða sem um ræðir og hvort og hvernig það svigrúm sé nýtt við innleiðinguna.
5) Hvert ráðuneyti leggi mat á það hvort gullhúðun hafi átt sér stað á málefnasviðum sínum í gildandi löggjöf og taki upplýsta afstöðu til þess hvort ástæða sé til þess að endurskoða slík tilvik hvert fyrir sig.
Innleiðing tillaganna krefðist þess að uppfærð verði samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og breytingar gerðar á eyðublöðum, sniðmáti og leiðbeiningum í samræmi við það. Meðal þess sem unnið sé að séu uppfærslur á eyðublöðum Stjórnarráðsins sem fylgja með stjórnarfrumvörpum, handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa og EES-handbók Stjórnarráðsins.
„Með þessum hætti sem rakið hefur verið er ætlað að tryggja að stjórnarfrumvörp til innleiðingar á EES-skuldbindingum feli ekki í sér gullhúðun, eða að lágmarki að Alþingi hafi skýrar upplýsingar um hvar kunni að vera farið umfram lágmarkskröfur þeirrar EES-gerðar sem verið er að innleiða og rökstuðning fyrir því,“ segir þá í svari ráðherra.