Umræðan um stofnun íslensks hers hefur dúkkað upp af og til. Aríel Pétursson, liðsforingi hjá danska sjóhernum, telur enga raunhæfa ástæðu fyrir því að Ísland fari þessa leið. Hann bendir á að slíkt væri bæði gríðarlega kostnaðarsamt og í raun gagnslaust.
Umræðan um stofnun íslensks hers hefur dúkkað upp af og til. Aríel Pétursson, liðsforingi hjá danska sjóhernum, telur enga raunhæfa ástæðu fyrir því að Ísland fari þessa leið. Hann bendir á að slíkt væri bæði gríðarlega kostnaðarsamt og í raun gagnslaust.
Aríel bendir á í samtali við mbl.is að herstarfsemi byggist alltaf á þremur meginstoðum: landi, lofti og sjó. Hér sé um að ræða liði sem kosti gífurlega fjármuni.
Nefnir hann sem dæmi að freigáta af gerðinni Iver Huitfeldt, eins og danski sjóherinn notar, kosti um 50 milljarða króna ein og sér og þá kosti vopnapakkinn fyrir skipið aðra 50 milljarða. Þá er ótalinn kostnaðurinn við rekstur skipsins, sem gæti verið um 10 milljarðar á ári, auk áhafnar sem telur á annað hundrað manns.
Freigáta ein og sér gagnslaus
„Eitt og sér er svona skip eiginlega algjörlega gagnslaust. Sama má segja með landher. Ef við förum að vera með loftvarnakerfi og vera með HIMARS-trukka [loftvarnarkerfi] fjóra, hvern á sínu landshorni, þá erum við líka að tala um kostnað á milli fimm til tíu milljarða í kringum hvern hertrukk. Svo værum við með svona þrjátíu manna áhöfn sem er að vinna á vöktum og náttúrulega umstang í kringum þetta. Eitt og sér er þetta algjörlega gagnslaus partur af miklu stærri hlekk,” segir hann.
Er því ljóst að miðað við þessar tölur myndi mjög takmarkaður her kosta ríkið verulegar fjárhæðir en þetta er bara brotabrot af heildarkostnaðinum. Flugvélar kosta sitt og svo þyrfti að þjálfa og vopnvæða her, sem óljóst er hversu margir væru í. Hann nefnir að mikil velta sé í herjum annars staðar í heiminum og því þurfi mikinn mannafla sem er til í að mæta í herinn.
„Ef maður setur þetta í samhengi, erum við að gera þetta bara til þess að gera eitthvað? Til þess að sýnast hafa einhverja burði til þess að mæta hverju? Maður spyr sig, hverju eigum við að mæta með slíkum her?” spyr hann.
Þessi ljósmynd var tekin á varnarsvæðinu í Reykjanesbæ. Á myndinni sést B-2 sprengjuþota, en þessar þotur tóku þátt í árás Bandaríkjamanna á kjarnorkuinnviði Írans um helgina.
Ljósmynd/Bandaríski flugherinn
Ísland mikilvægur bandamaður
Hann segir Ísland vera mikilvægan hlekk í alþjóðlegu samstarfi við Atlantshafsbandalagið (NATO) og bendir á að einnig séum við með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin.
Ísland sinnir leit og björgun á tveggja milljóna ferkílómetra svæði þar sem við fylgjumst með umferð og erum með viðbragðsgetu til að fara í leitar- og björgunarstarf.
„Það er bara rosalega mikið gagn í því fyrir danska herinn, fyrir bandaríska herinn, fyrir Frakka og fyrir hverja þá sem starfa með okkur og treysta á það að við getum ræst út þyrlur og skip til þess að leita og bjarga ef til þess kemur,” segir Aríel.
Hann segir mikilvægt að við treystum enn frekar böndin við okkar bandalagsþjóðir og sinnum því vel sem við gerum þegar, leit og björgun.
„Við erum stærsta flugmóðurskip Norður-Atlantshafsins. Við erum landfræðilega gríðarlega mikilvæg og verðmætin í því fyrir önnur NATO-lönd að við séum hérna, veitum aðstöðu, eru miklu meiri heldur en það að við séum að taka þátt í einhverjum krónum og aurum og þykjast reka einhvern her,” segir hann.
Landhelgisgæslan vanfjármögnuð
Hann segir alveg ljóst að Ísland þurfi að efla varnir sínar og tryggja öryggi sitt betur. Nefnir hann í því samhengi að tryggja landamærin okkar betur, svo að óprúttnir aðilar streymi ekki hér inn.
Einnig nefnir hann að Landhelgisgæslan sé vanfjármögnuð og að rekstrargrundvöllurinn sé ekki tryggur.
„Þegar Landhelgisgæslan á tvö skip en getur ekki verið með úthald nema á öðru skipinu í einu. Og þegar annað skipið er á sjó þá er það nú yfirleitt við akkeri eða við bryggju til þess að spara olíu af því það eru ekki til peningar til að kaupa olíu. Til þess að kóróna þetta allt saman þarf Landhelgisgæslan að sigla til Færeyja og vera utan þjónustusvæðis, ef svo mætti segja, af því að þeir eru að ná sér í ódýrari olíu. Þeim er stillt upp við vegg með þessum hætti. Þau þurfa bara að reka sig með ábyrgum hætti og þau fá ódýrari olíu í Færeyjum og þar af leiðandi er skipið utan þjónustusvæðisins á meðan þau eru að ná sér í olíu,” segir hann.
Tryggja landamærin og efla Landhelgisgæsluna
Hann nefnir einnig að þó að við eigum þrjár þyrlur þá séu þær ekki í fullri viðbragðsgetu allt árið og í þokkabót eigum við eina eftirlitsflugvél sem þarf að vera í útleigu hluta árs í Miðjarðarhafinu vegna fjárskorts.
Kjarninn í því að efla varnir á Íslandi felst því í því að tryggja landamærin, efla landhelgisgæsluna og vera áfram öflugur bandamaður vinaþjóða, að mati hans.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.