Þeir þingmenn sem hafa eytt mestu í ferðalög innanlands eru Þorgrímur Sigmundsson, Stefán Vagn Stefánsson, Ingibjörg Isaksen, Jens Garðar Helgason og Sigurjón Þórðarson.
Þar af hefur Þorgrímur eytt tæplega 2,1 milljón króna í ferðalög innanlands, Stefán 1,9 milljónum og Ingibjörg tæplega 1,8 milljónum.
Allir þessir þingmenn eiga það sameiginlegt að vera landsbyggðarþingmenn, búa úti á landi og reka sumir hverjir tvö heimili og ferðast þar af leiðandi mikið innanlands. Þá þurfa sumir þingmenn að ferðast langar vegalengdir til vinnu.
Þegar litið er til þingmanna höfuðborgarsvæðisins hafa Þórunn Sveinbjarnardóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Jón Gunnarsson, Jón Pétur Zimsen og Eiríkur Björn Björgvinsson þeir þingmenn sem hafa eytt mestum fjármunum í ferðalög innanlands. Útgjöld þeirra í þeim efnum eru þó, eins og gefur að skilja, mun lægri en útgjöld fyrrgreindra landsbyggðarþingmanna.
Til að mynda er Þórunn Sveinbjarnardóttir í 17. sæti yfir þá þingmenn sem eyða mestu í ferðalög innanlands en hún hefur eytt rúmum 500.000 krónum. Diljá Mist, sem er næsti þingmaður höfuðborgarsvæðisins á eftir henni þegar kemur að útgjöldum vegna ferðalaga innanlands, er 21. í röðinni en hún hefur eytt rúmum 255.000 kr. á ferð sinni um landið.
Þeir þingmenn sem hafa eytt mestum fjármunum í ferðalög út fyrir landsteinana eru þau Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis, Sigmar Guðmundsson, Pawel Bartoszek, Ingibjörg Isaksen og Dagur B. Eggertsson.
Þeir Sigmar og Pawel sitja í utanríkismálanefnd Alþingis en sú nefnd ferðast eðli málsins samkvæmt talsvert mikið, sem gæti útskýrt háan ferðakostnað þingmannanna. Sigmar og Dagur sitja báðir í Íslandsdeild NATO-þingsins. Þar að auki situr Pawel í þingmannanefnd Íslands og ESB. Ingibjörg situr í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
Ferðalög til útlanda fylgja jafnan setu í alþjóðanefndum þingsins, þar sem margs konar fundir og ráðstefnur eru haldin víða um heim og þeim fylgir jafnan töluverður kostnaður. Þeir þingmenn sem hafa eytt mestum fjármunum í ferðakostnað erlendis eru enda flestir í alþjóðanefndum eða í utanríkismálanefnd Alþingis.
Samfylkingin eytt mestu
Athygli vekur að Þórunn Sveinbjarnardóttir er efst á lista yfir útgjöld vegna ferðalaga erlendis. Hún situr einungis í forsætisnefnd Alþingis, en hafa ber í huga að þátttaka á viðburðum er hluti af starfi forseta Alþingis og gæti það skýrt háan ferðakostnað hennar.
Sá flokkur sem hefur eytt mestu í ferðakostnað er Samfylkingin en þingmenn flokksins hafa eytt rétt rúmum 11 milljónum króna í ferðalög innanlands og utan samanlagt, sem er rétt rúm milljón á hvern þingmann Samfylkingarinnar, að ráðherrum undanskildum, ef kostnaðurinn myndi dreifast jafnt.
Sá flokkur sem hefur eytt lægstum fjárhæðum í ferðakostnað er Miðflokkurinn. Heilt yfir hefur Miðflokkurinn eytt samanlagt rétt tæpum 3,9 milljónum króna sem væri tæplega hálf milljón á hvern þingmann ef kostnaðurinn deildist jafnt.
Framsóknarflokkurinn hefur alls eytt samanlagt um 8,7 milljónum króna í ferðalög innan- og utanlands, sem gerir tæpar 1,4 milljónir króna á hvern þingmann flokksins.
Kostnaður Framsóknarflokksins markast ekki síst af því að allir þingmenn flokksins eru landsbyggðarþingmenn og er stærstur hluti ferðatengra útgjalda þingmanna flokksins vegna ferðalaga innanlands, eða rétt tæplega 7 milljónir af 8,7 milljónum alls.