Rós Kristjánsdóttir gullsmiður stofnaði fyrirtækið Hik & Rós ásamt Helga Kristinssyni árið 2022 en hann var meistari hennar í náminu. Rós segir gullsmiðasamfélagið hér á landi lítið og að langflestir beri virðingu fyrir hönnun annarra.
Rós Kristjánsdóttir gullsmiður stofnaði fyrirtækið Hik & Rós ásamt Helga Kristinssyni árið 2022 en hann var meistari hennar í náminu. Rós segir gullsmiðasamfélagið hér á landi lítið og að langflestir beri virðingu fyrir hönnun annarra.
Rós Kristjánsdóttir gullsmiður stofnaði fyrirtækið Hik & Rós ásamt Helga Kristinssyni árið 2022 en hann var meistari hennar í náminu. Rós segir gullsmiðasamfélagið hér á landi lítið og að langflestir beri virðingu fyrir hönnun annarra.
Það á því miður ekki við um alla því augljósar eftirlíkingar hafa verið áberandi í bransanum og hafa þau lent í því oftar en einu sinni að rekast á skartgripi keimlíka þeirra hjá íslenskum skartgripahönnuðum. Hún segir marga aðra íslenska gullsmiði deila sömu reynslu.
Hvernig verður fyrirtækið til?
„Ég fékk atvinnutilboð frá öðrum gullsmið og fann á mér að það var ekki það sem mig langaði að gera. Ég fór að tala um þetta við Helga, eitt leiddi af öðru og við ákváðum að stofna fyrirtæki saman. Við unnum vel saman og hann er flottur hönnuður og smiður,” segir Rós.
Rós hefur alltaf haft mikinn áhuga á skartgripum. „Mér finnst það mikil tjáningarleið fyrir utan fatnað auðvitað, en ég tek meira eftir skartgripunum sem fólk er með. Það segir svo mikið um stíl fólks, hvort það sé með grófan eða fínan smekk og mér finnst það skemmtilegt.”
Gullsmíðaferill Rósar hófst með því að hún sótti kvöldnámskeið í Iðnskólanum.
„Það var til þess að sjá hvort ég hefði þetta í mér. Ég tók þrjú námskeið þar sem ég mætti þrisvar í viku, þar gat ég búið til möppu og sótt um. Því það eru aðeins átta manns sem eru teknir inn á hverju ári,” segir Rós.
Er þetta lítið samfélag?
„Já. Við erum með Félag íslenskra gullsmiða sem flestir eru meðlimir í. Þó að það sé samkeppni þá er þetta lítið samfélag og við reynum að halda okkur okkar megin á vellinum,” svarar hún.
Hvernig kviknaði þinn áhugi á skartgripum?
„Mamma var alltaf með stórt og mikið skart sem er fyndið því það er andstæðan við minn stíl. Það var áhersla hjá henni að vera með stóra hringa og miklar festar, það var punkturinn yfir i-ið. En það er enginn skartgripahönnuður eða gullsmiður í mínu lífi,” segir hún.
Rós lýsir skartgripunum sínum sem mínimalískum, litlum, fíngerðum og fínlegum.
Hvaðan færðu innblástur?
„Það er allavega. Mér finnst bara ef ég sé eitthvað á einhverri manneskju getur það gefið mér hugmyndir. Ég fæ innblástur frá sjónvarpsþáttum og hugsa hvernig ég get útfært skemmtilegar pælingar hjá mér,” segir hún.
Þú segist hafa upplifað að sjá eftirlíkingar á ykkar skartgripum síðan þið fóruð af stað, geturðu aðeins sagt mér meira frá því?
„Já, ég var búin að heyra að þetta hefði viðgengist innan stéttarinnar og af öðrum menntuðum gullsmiðum sem ættu vita betur. Það er þannig að Ísland er lítið, markaðurinn er lítill og samkeppnin er hörð. Það er eiginlega óskrifuð regla, til dæmis, að ef einhver er að gera fléttuhálsmen eða fléttuhring sem slær í gegn, þá ferðu ekki að gera það nákvæmlega sama,” segir Rós.
„En við lentum í því hjá okkur með dropahálsmenið okkar, en það var í fyrstu línunni sem við gáfum út undir okkar nafni. Dropinn er handsmíðaður af Helga, mótaður með þjöl og bor sem er mjög töff ferli. Svo allt í einu vorum við farin að sjá mjög svipuð dropamen frá öðrum gullsmið. Það var sem sagt úr gullhúðuðu silfri og þar af leiðandi miklu ódýrara.
Eins og ég segi, þá erum við ekki að finna upp hjólið með að gera dropaskart en markaðurinn er það lítill og bæði kjánalegt og erfitt að sjá þetta hjá einhverjum öðrum á betra verði.”
Er þá engin virðing borin fyrir hugviti og hönnun? „Ég held það sé staðan. Sami hönnuður og er með dropana er með armband sem er nefnt eftir línu frá okkur, sama enska heitið og allt. Armbandið er öðruvísi að því leytinu til að það eru fleiri hlutir á því og minna pláss á milli kubbanna. En þessi aðili sem ég er að tala um, sem mér finnst vera að stela vörum, er gullsmíðameistari.
Ég gæti nefnt fimm aðra gullsmiði sem þessi gullsmiður hefur tekið hönnun frá.”
Hver eru augljós merki um eftirlíkingu?
„Ef hluturinn lítur þannig út að það væri hægt að rugla því saman hvað hann kemur. Ég hef fengið nokkur hálsmen inn á borð til mín í viðgerð, kíki á stimpilinn sem við merkjum hlutina með og sé að þetta er ekki frá okkur. Mér finnst það líka gróft þegar sömu nöfn eru tekin,” segir Rós.
„Við erum ekki að finna upp skart með kubbum en þegar við komum inn á markaðinn var enginn að gera þetta á áberandi hátt hér á landi. Við gáfum út línu þar sem kubbar eru aðalatriðið og það kom annar gullsmiður með svona stuttu seinna, eitthvað sem er mjög líkt og heitir það sama. Það finnst mér það vera skýr hönnunarstuldur. Þó svo að við getum ekkert gert í því, það er erfitt að fá einkaleyfi á einföldu formi.”
Rós rakst á eyrnalokka á vefsíðu nýs íslensks skartgripamerkis um daginn sem hún segir skýrasta dæmið um eftirlíkingu á þeirra vörum. „Sá aðili er ekki menntaður gullsmiður og segist ekki hafa séð lokkana mína neins staðar. Ég veit ekki hvort það sé satt eða ekki.
En stærðin og breiddin er nákvæmlega eins og ég hef ekki séð neinn gera svona lokka á Íslandi áður. Mér fannst það mjög gróft. En þessi aðili bauðst til að taka eyrnalokkana úr sölu hjá sér, hún gerði það og meira get ég ekki beðið um,” segir hún.
„Ég held að margir þori ekki að segja þetta upphátt vegna þess hve þetta er lítið samfélag.“
Er ekki mikilvægt að tala um þetta, því það eru hönnuðir sem skapa eitthvað og svo aðrir sem sjá tækifærin í því?
„Það er svo mikið feil á Íslandi, þetta er lítill markaður og þú hefur tækifæri til að búa til eitthvað algjörlega annað.”
Hvaða málma notið þið mest?
„Við erum mest í 14 karata gulli og eitthvað í silfri. Við erum ekki mikið í því að gylla því okkur finnst gullhúðun geta verið leiðinleg. Hún nuddast af, fer af í vatni og fer illa í íslensku vatni. En svo viljum við búa til hluti sem endast út ævina,” segir hún.
„Þetta er líka umhverfissjónarmið, að vera ekki alltaf að kaupa sér eitthvað nýtt og nýtt og nýtt. Eins og þegar fólk kaupir sér skartgripi af Temu og er hissa þegar fingurinn verður blár, þá veit ég ekki alveg hvernig ég á að bregðast við.”
Hún segist meðvituð um að það sé ekki í boði fyrir alla að kaupa sér dýra skartgripi.
„En mér finnst meiri vitundarvakning í fatnaði, fólk er alveg að kaupa sér eina vandaða flík sem kostar meira en fimm ódýrari. Ég vildi að fólk myndi yfirfæra þetta yfir á skartgripina,” segir hún.
Af hverju viltu að vekja athygli á þessu?
„Mitt markmið er að fólk velji sér að versla við iðnmenntað fólk, sem veit hvað það er að gera og hefur alvöru ástríðu fyrir því sem það er að gera og það að græða er ekki meginmarkmið.
Svo vil ég að endingin sé góð. Ég vil fá kúnna inn og fimm árum seinna kemur hann með gripinn og ég get gert við hann. Ég veit nákvæmlega hvernig ég get gert við hann. Mig langar að þetta sé eitthvað sem fólk á, getur gefið börnum og barnabörnum og það gerist ekki með hluti sem eru gerðir úr drasli,” segir hún.
„Mér finnst líka að allir og amma þeirra séu að stofna skartgripamerki og selja, sem er auðvitað löglegt og allt í lagi. En það geta allir klippt hár en ég myndi alltaf velja að fara til fagaðila sem er með menntun og veit hvað hann er að gera.”
Svo þú vilt halda utan um þetta litla gullsmíðasamfélag?
„Já þetta er lögverndað starfsheiti og við reynum að standa vörð um það. Í dag er takmarkað sem hægt er að gera með lögum en það má vekja athygli á þessu og gera neytendum grein fyrir þessu.”