Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, telur að aukna fíkniefnaneyslu barna og ungmenna megi að mörgu leyti rekja til covid-faraldursins, þegar drykkja færðist inn á heimili og ofbeldi gegn börnum jókst.
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, telur að aukna fíkniefnaneyslu barna og ungmenna megi að mörgu leyti rekja til covid-faraldursins, þegar drykkja færðist inn á heimili og ofbeldi gegn börnum jókst.
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, telur að aukna fíkniefnaneyslu barna og ungmenna megi að mörgu leyti rekja til covid-faraldursins, þegar drykkja færðist inn á heimili og ofbeldi gegn börnum jókst.
Hún segir mikilvægt að auka forvarnir en bundnar eru vonir við að með innleiðingu farsældarlaga megi fækka í þeim hópi barna sem glíma við þyngsta vandann.
Það sé þó mikið áhyggjuefni að tilkynningum til barnaverndar vegna fíkniefnanotkunar barna hafi fjölgað um 60 prósent á milli áranna 2023 og 2024, líkt og fram kemur í nýrri skýrslu frá Barna- og fjölskyldustofu.
Tilkynningum vegna afbrota barna fjölgaði einnig á milli ára, eða um 8 prósent og tilkynningum að barn beiti ofbeldi fjölgaði um 21,9 prósent. Flestar slíkar tilkynningar, bæði vegna afbrota barna og barna sem beita ofbeldi, eru vegna drengja, eða 82,6 prósent.
„Ég held að við sem samfélag höfum sofnað svolítið á verðinum. Ef við horfum á covid tímann, þá jókst neysla áfengis. Ferðamenn komu ekki þannig það voru Íslendingar sem voru að neyta áfengisins. Neyslan færðist inn á heimili barnanna af því barir og annað slíkt var lokað. Sem gerði það að verkum að ofbeldi gagnvart börnum og erfiðleikar inni á heimilum jukust. Við erum að mörgu leyti að sjá afleiðingar þess,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.
Svipuð þróun hafi átt sér stað erlendis. Um sé að ræða vanda sem sé að færast í aukana. Samfélagsmiðlar hafi sín áhrif og ljóst sé að normalísering á að beita ofbeldi sé meiri en áður í hópi ungmenna.
„Við höfum alveg talað skýrt og reynt að benda á þessa þætti,“ segir Ólöf.
Barnaverndarþjónustan hefur hins vegar bent á að skortur á meðferðarúrræðum fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda hafi valdið því að hópur barna sem glímir við alvarlegan fíkni- og hegðunarvanda hafi stækkað meira en hann hefði þurft að gera. Í mars sagði framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur í samtali við mbl.is að tilkynningum til barnaverndar vegna afbrota, sjálfskaða og neyslu hefði fjölgað til muna vegna þessa.
Ólöf segir það vissulega mikilvægt að úrræðin séu til staðar, en bendir á að Barna- og fjölskyldustofa sé bundin af þeim fjármunum sem stofnuninni sé úthlutað hverju sinni. Með auknu fjármagni hafi verið hægt að opna meðferðarheimilið Blönduhlíð á Vogi fyrr á þessu ári og vonir standa til þess að að langtímameðferðarheimili fyrir drengi verði opnað á ný í haust. Það þurfi þó líka að horfa til þess að grípa börnin áður en þau eru komin á þann stað að þurfa á meðferð að halda.
„Við viljum helst að úrræðin séu til staðar og að gripið sé inn í líf barna áður en þau þurfa á þyngstu úrræðunum að halda. Það er kannski að gleymast í þessari umræðu, bæði forvarnir og að við erum að vona að innleiðing farsældarlaganna og snemmtækrar þjónustu fyrir börn, muni hindra að þau fari inn í þyngstu úrræðin. Það er alltaf markmiðið.“
Í samtölum við mbl.is hafa bæði lögregla og barnavernd viðrað áhyggjur af því að með aukinni áherslu á snemmtæka íhlutun, þá gleymist sá hópur sem nú þegar þarf á þyngstu úrræðunum að halda. Og að úrræðaleysi fyrir þann hóp hafi þær afleiðingar að vandinn þyngist enn frekar.
„Það sem ég myndi segja að hafi verið allra erfiðast á síðasta vetri eru þau áföll sem við verðum fyrir árið 2024. Það er að segja að missa eitt meðferðarheimili út, ásamt brunanum Stuðlum,“ segir Ólöf. Vísar hún þar til meðferðarheimilisins Lækjarbakka sem þurfti að loka vegna myglu í apríl í fyrra og brunans á Stuðlum í október síðastliðnum, þar sem 17 ára drengur lést og álma fyrir neyðarvistun gjöreyðilagðist. Nú er unnið að því að endurbyggja það rými á Stuðlum.
Ólöf er sammála því sem barnaverndarþjónustan hefur bent á, að úrræðin þurfi að vera fjölbreytt. Það þurfi að vera hægt að aðskilja börn með ólíkan vanda.
„Ég tel brýnt að við mætum þessum vanda með fjölbreyttum úrræðum, eins og nýja meðferðarheimilið sem staðið hefur til að byggja í Garðabæ er hugsað, sem á að henta fjölbreyttari hópum. Þar sem hægt er að loka af og vinna með vanda barna meira út frá því sem vandi þeirra snýst um.“
Viljayfirlýsing vegna meðferðarheimilisins í Garðabæ var undirrituð árið 2018 og vonir stóðu til að heimilið yrði tilbúið árið 2020. Það varð hins vegar ekki, en málið strandaði á deilum Garðabæjar og fjármálaráðuneytisins um gatnagerðargjöld. Ekkert var unnið að verkefninu í ráðuneytinu í eitt og hálft ár en skriður komst á málið í vor þegar fjölmiðlar fóru að grafast fyrir um stöðuna á verkefninu.
Það liggur því fyrir að meðferðarheimili í Garðabæ mun ekki rísa alveg á næstunni.
Aðspurð hvernig sé þá hægt að bregðast við vandanum núna, segir Ólöf:
„Síðasta árið var bætt við meðferðarplássum þegar við opnuðum meðferðardeild á Vogi þannig við ættum að vera komin með tíu pláss í meðferð og greiningu.“
Vísar hún þar einnig til fjögurra meðferðarplássa á Stuðlum.
„En okkur vantar langtímameðferðarheimili. Þegar það er komið þá tel ég að við gætum annað vandanum.“
Ólöf bendir á að á meðferðarheimilinu Bjargey í Eyjafirði, þar sem boðið er upp á langtímameðferð fyrir stúlkur, séu laus pláss.
Enn er gert ráð fyrir að meðferðarheimilið Lækjarbakki verði opnað á ný í september eða október í Gunnarsholti á Rangárvöllum, og að þá verði aftur hægt að bjóða upp á langtímameðferð fyrir drengi.
„Það mun létta gríðarlega á öllu þessu kerfi þegar við fáum Gunnarsholt. Það er búið að taka ótrúlegan tíma og mig hefði aldrei órað fyrir öllum þessum árekstrum sem við höfum lent í,“ segir Ólöf.
Við leit að nýrri staðsetningu hafi þau meðal annars rekið sig á að sveitarfélög hafi ekki viljað fá starfsemina til sín.
Ólöf bendir á að það sé mikið inngrip að senda barn í langtímameðferð og því sé mikilvægt að reyna allar aðrar leiðir fyrst.
Um 150 börnum á ári er til að mynda veitt svokölluð MST-meðferð sem fer fram inni á heimilum barnanna og í nærumhverfi þeirra. Þar er oft um að ræða börn sem eru byrjuð í neyslu, brjóta af sér eða glíma við hegðunarvanda.
Hún segir að árangur náist með um 80 prósent barna í MST-meðferð en að eftir standi þessi 20 prósent.
„Ég tel ofboðslega brýnt að fókusa á báða enda. Það að bjarga barni frá því að lenda í þessari stöðu skiptir öllu máli. Þess vegna skipta forvarnir og innleiðing farsældar miklu máli. Það má ekki bara fókusa á annan endann, það verður að fókusa á hvoru tveggja,“ segir Ólöf.
Mikilvægt sé að fólk í nærumhverfi barna sé meðvitað, hafi augun opin og sé óhrætt við að grípa inn í, ef grunur er um að barn sé að leiðast út á ranga braut.
„Þegar maður skoðar mál barna sem hafa lent í kerfinu hjá okkur, þyngsta hlutanum, þá er fullt, fullt af rauðum flöggum sem nærumhverfið hefði átt að grípa, löngu áður en vandinn er orðinn svona stór. Þannig ég bind miklar vonir við að þegar að farsældin er orðin innleidd og komin vel á veg, þá munum við fækka þessum börnum sem þurfa þetta mikla inngrip og lenda með lífið sitt á þessum stað.“