Reykjavíkurborg hefur lokað starfsstöð Brúarskóla við Dalbraut sem sinnir viðkvæmum hópi barna og ungmenna á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).
Reykjavíkurborg hefur lokað starfsstöð Brúarskóla við Dalbraut sem sinnir viðkvæmum hópi barna og ungmenna á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).
Reykjavíkurborg hefur lokað starfsstöð Brúarskóla við Dalbraut sem sinnir viðkvæmum hópi barna og ungmenna á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var skólastjóri Brúarskóla kallaður úr sumarfríi í síðustu viku til að segja upp kennurum starfsstöðvarinnar, sem voru tveir.
Borgin gerði úttekt á Brúarskóla í vetur og voru ráðgjafar fyrirtækisins KPMG sendir til að kanna aðstæður og ræða við kennara. Úttektin var ekki gerð í samráði við BUGL eða Landspítalann.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hyggjast stjórnendur óska eftir fundi með borginni í vikunni, en fregnir af breytingum bárust ekki fyrr en í síðustu viku.
Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, vildi ekki tjá sig um málið er Morgunblaðið óskaði eftir viðtali en sagði sviðið vera að endurskoða starfsstöðvar Brúarskóla og að verið væri að ganga frá ákveðnum breytingum.
Í fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fram 31. október 2024 kemur fram að skera ætti framlög til Brúarskóla niður um 30 til 34 milljónir. Ekki komu fram frekari lýsingar á því hvernig niðurskurðurinn yrði útfærður.
Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins og formaður skóla- og frístundaráðs, kannaðist hvorki við lokunina né uppsagnirnar þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða. Hún sagði að málið hefði ekki verið rætt á fundum ráðsins. Þá hafði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði, heldur ekki heyrt af lokuninni þegar Morgunblaðið sló á þráðinn í gær.
Samkvæmt heimildum blaðsins hefur Landspítalinn ekki fengið svör frá borginni um hvernig og hvar börnin munu stunda nám í haust. Skólaskylda er á Íslandi frá 6 til 16 ára aldurs. Í menntastefnu borgarinnar segir að mikilvægt sé að tryggja jöfn tækifæri og aðgang barna að námi og starfi í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika. Í 17. gr. grunnskólalaga segir jafnframt að „nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt á sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun“.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri vildi ekki ræða við Morgunblaðið um lokunina en vísaði á einn af upplýsingafulltrúum Reykjavíkurborgar.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir upplýsingafulltrúi hélt því fram að ekkert þjónusturof yrði þrátt fyrir að kennurunum hefði verið sagt upp.
Nánar má lesa um málið á bls. 10 í Morgunblaðinu og í Mogga-appinu í dag.