Verði frumvarp innviðaráðherra um breytingu á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga samþykkt á Alþingi mun það hafa veruleg fjárhagsleg áhrif á Garðabæ og leiða til minnkunar á fjárframlögum til sveitarfélagsins um 218 milljónir.
Verði frumvarp innviðaráðherra um breytingu á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga samþykkt á Alþingi mun það hafa veruleg fjárhagsleg áhrif á Garðabæ og leiða til minnkunar á fjárframlögum til sveitarfélagsins um 218 milljónir.
Við það mun bætast skerðing sem ráðgerð er í drögum að frumvarpinu vegna útsvarshlutfalls, en í tilviki Garðabæjar getur sú skerðing numið um 400 milljónum. Má því gera ráð fyrir að framlög til Garðabæjar skerðist um u.þ.b. 600 milljónir, sem nemur um 30 þúsund krónum á hvern íbúa.
Þetta segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, við Morgunblaðið.
Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar er til þess vísað sem fram kemur í frumvarpinu, að líta megi svo á að með því að greiða framlög til sveitarfélaga sem ekki nýta útsvarshlutfall sitt að fullu sé sjóðurinn að niðurgreiða lækkun á útsvari þeirra sveitarfélaga. Segir að það byggist á sanngirnissjónarmiðum, þ.e. að sveitarfélög sem nýti ekki álagningarhlutfall útsvars að fullu fái ekki úthlutað framlögum úr Jöfnunarsjóði sem því nemur.
Útsvar heimilt á tilteknu bili
„Við höfum ítrekað bent á að með þessu er verið að refsa sveitarfélögum sem leggja á lægra útsvar, sem er í augljósri mótsögn við sjálfstæði sveitarfélaga sem er áskilið í stjórnarskrá. Lög gera ráð fyrir því að sveitarfélögum sé heimilt á leggja á útsvar á tilteknu bili. Það er mótsögn að refsa fyrir þetta. Ég get líka fullyrt að Garðabær nýtur þess með engu móti hjá Jöfnunarsjóði að leggja á lægra útsvar. Það fer jafn hátt hlutfall af útsvari Garðbæinga inn í sjóðinn og hjá öllum öðrum, eða 2,21% af útsvarsstofni. Þessi breyting fjölgar ekki krónunum sem Jöfnunarsjóður hefur til ráðstöfunar. Það fer að verða þreytandi að þurfa að leiðrétta þetta ítrekað,“ segir Almar.
„Meirihluti nefndarinnar skýlir sér á bak við sanngirnisrök og ber því við að sjóðurinn sé að niðurgreiða lækkun á útsvari. Þetta er einfaldlega rangt. Yfir 10 ára tímabil hafa Garðbæingar greitt 3,7 milljörðum meira til Jöfnunarsjóðs en Garðabær hefur fengið greitt úr sjóðnum til skilgreindra verkefna. Það er afar athyglisvert að sjá þaulreynt sveitarstjórnarfólk í umhverfis- og samgöngunefnd skrifa undir svona texta. Það er augljóslega ekki verið að niðurgreiða útsvar til Garðabæjar þegar staðan er þessi,“ segir hann.
Bendir Almar jafnframt á að verði frumvarpið lögfest muni Jöfnunarsjóður skerða svokölluð grunnskólaframlög til Garðbæinga, sem komi ekki úr ríkissjóði, heldur frá sveitarfélögunum sjálfum.
„Þá er rétt að menn viti að á undanförnum 10 árum hefur grunnskólaframlag úr Jöfnunarsjóði til Garðabæjar verið 57% lægra en það sem við höfum lagt til mála í gegnum útsvarið. Af hverjum þúsund krónum sem lagðar eru til jöfnunar grunnskóla fá Garðbæingar 430 krónur til baka,“ segir hann og spyr: „Var einhver að tala um sanngirni?“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.