Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, segir stjórnarandstöðuþingmenn stunda grímulausa sérhagsmunagæslu. Formaður Framsóknar bendir á það að 40% sveitarfélaga landsins hafi varað við veiðigjaldafrumvarpinu og því ekki hægt að tala um sérhagsmunagæslu.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, segir stjórnarandstöðuþingmenn stunda grímulausa sérhagsmunagæslu. Formaður Framsóknar bendir á það að 40% sveitarfélaga landsins hafi varað við veiðigjaldafrumvarpinu og því ekki hægt að tala um sérhagsmunagæslu.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, segir stjórnarandstöðuþingmenn stunda grímulausa sérhagsmunagæslu. Formaður Framsóknar bendir á það að 40% sveitarfélaga landsins hafi varað við veiðigjaldafrumvarpinu og því ekki hægt að tala um sérhagsmunagæslu.
Þetta kom fram á Alþingi fyrr í dag.
Ásthildur Lóa sakaði stjórnarandstöðuna um „gaslýsingu“ og þuldi svo upp skilgreininguna á hugtakinu samkvæmt Vísindavefnum.
„Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk og afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig,“ sagði hún um hugtakið.
Tilefni ræðunnar var tillaga stjórnarandstöðunnar um að klára fyrst umræður um fjármálaáætlun og tengingu almannatrygginga við launavísitölu áður en haldið væri áfram með 2. umræðu um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Stjórnarliðar felldu tillöguna.
„Ég er búin að sitja hérna og hlusta á þingmenn minnihlutans snúa öllu á hvolf. Málið er að þið eruð hreinlega í grímulausri sérhagsmunagæslu. Það sést alls staðar, fólkið í landinu sér það,“ sagði Ásthildur og bætti við:
„Hættið þessu bara. Greiðum atkvæði.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, sagði óásættanlegt að andstaða stjórnarandstöðunnar við frumvarpið væri kölluð „sérhagsmunagæsla“ þegar hún byggði meðal annars á samhljóða ályktun 26 sveitarfélaga og áhyggjum frá nýsköpunarfyrirtækjum og sjávarútvegi.
„Eru það sérhagsmunir að taka samhljóða álit 26 sveitarfélaga í landinu – 40% sveitarfélaga – þar sem sjávarútvegur er meginundirstaða atvinnu, umsvifa og lífskjara alls fólksins? Hundrað þúsund manns. Eru það sérhagsmunir?“ spurði hann og nefndi það að nýsköpunarfyrirtæki og tæknifyrirtæki hefðu einnig lýst yfir áhyggjum.
„Eru það sérhagsmunir að benda á það að þegar meirihlutinn er búinn að fara og reyna að gera vont mál skárra, þá sitja engu að síður þau fyrirtæki sem meirihlutinn ætlaði að verja með 50% hærri veiðigjöld? 91% hlutfall af hagnaði sem fer í opinber gjöld,“ sagði hann.
Sigurður Ingi benti einnig á að fyrirtæki í greininni væru þegar undir miklu álagi vegna annarra skatta, svo sem kílómetragjalds og kolefnisgjalda, sem saman hefðu hækkað álögur umtalsvert á stuttum tíma.
Hann hvatti ríkisstjórnina til að setjast niður og leita samkomulags um veiðigjöldin svo hægt væri að ljúka öðrum málum þingsins með sómasamlegum hætti.