Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er bjartsýn á að senn takist samningar um þinglok og kveðst ekki láta sitt eftir liggja um það, en hún hefur verið meira í þinginu síðustu daga en yfirleitt.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er bjartsýn á að senn takist samningar um þinglok og kveðst ekki láta sitt eftir liggja um það, en hún hefur verið meira í þinginu síðustu daga en yfirleitt.
„Ég er bara búin að vera þingflokksformanni og þingflokki mínum innan handar, ég hef auðvitað verið á staðnum til þess að taka samtöl. Ég held að það skipti máli, svona á lokametrunum, að vera til staðar og vera opin fyrir samtöl.“
Er eitthvað að þokast?
„Minnihlutinn hefur lagt mesta áherslu á að tala um leiðréttingu veiðigjalda. Ég heyrði í fréttum að þetta væri orðið þriðja lengsta málþóf sögunnar og það hefur auðvitað haft áhrif á starfsemi þingsins.
Þingflokksformenn voru komnir ansi nálægt samningum á sunnudagskvöldið, sem sýnir að það er samningsgrundvöllur og samtalið mjög virkt. Það er ekkert óalgengt að það skapist tafir inni á milli. Það þarf tvo í tangó og við þurfum að klára þetta mál. Það er ríkur samningsgrundvöllur til staðar – a.m.k. miðað við hvernig umræður voru að þróast um helgina – og ég tel að við getum vel klárað þetta.“
Strandaði á einhverju sérstöku?
„Ég ætla ekki að vera að úttala mig um það, fólk getur haft alls konar skoðanir á því. En eins og ég segi, það þarf tvo til. Það er ríkur samningsvilji báðum megin, ég held að fólk sé farið að finna til mikillar ábyrgðar, en minnihlutinn hefur mest talað um leiðréttingu veiðigjalda; þau eru bara þar núna.“
Ertu enn jafnsannfærð um það og í upphafi að ætluð auðlindarenta, 33-50% af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja, hafi engin áhrif á greinina?
„Auðlindarenta í eðli sínu… ef það er auðlindarenta, þá hefur hún ekkert með hefðbundna starfsemi fyrirtækis að gera. Hitt er síðan annað mál að fólk getur farið illa með auðlindarentu, það getur offjárfest, það getur fjárfest í skyldum félögum með óskynsamlegum hætti eða það getur tekið vondar rekstrarlegar ákvarðanir…“
Á það ekki við um allt atvinnulífið?
„Jú, en það er kannski meira svigrúm til þess að ganga á auðlindarentu þar sem hún er til staðar. Auðvitað gera verið fyrirtæki sem eru illa rekin í sjávarútvegi, eins og þar geta verið vel rekin fyrirtæki. En ég er viss um að auðlindarenta er til staðar, mér finnst þetta hófleg gjaldtaka, ég hef ekki áhyggjur af beinum áhrifum þessara aðgerða á greinina.
Það er hins vegar gömul saga og ný að það hafa orðið breytingar í greininni á síðustu árum án aðkomu ríkisstjórnar. Auðvitað verða einhverjar breytingar í hvora áttina sem er, við getum ekki breytt framþróun greinarinnar.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.