Þingstörf standa enn yfir þrátt fyrir að júlímánuður sé genginn í garð og ekki sér fyrir endann á þeim. Átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu harðna, þar sem hvor aðili um sig sakar hinn um takmarkaðan samningsvilja.
Þingstörf standa enn yfir þrátt fyrir að júlímánuður sé genginn í garð og ekki sér fyrir endann á þeim. Átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu harðna, þar sem hvor aðili um sig sakar hinn um takmarkaðan samningsvilja.
Þingstörf standa enn yfir þrátt fyrir að júlímánuður sé genginn í garð og ekki sér fyrir endann á þeim. Átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu harðna, þar sem hvor aðili um sig sakar hinn um takmarkaðan samningsvilja.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í ræðu sinni áherslu á að mikilvægt væri að hraða þingstörfum svo að þingflokksformenn gætu komið saman og náð samkomulagi um þinglok.
„Það er gjarnan talað um þinglokasamninga. Út á það gengur þetta. Það gengur út á það að minnihlutinn og meirihlutinn setjist niður og reyni að leiða í jörð ágreining um stór mál og koma sér saman um þinglok. Það hefur aldrei, held ég, gengið eins illa og núna,“ sagði Jón.
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, lýsti efasemdum sínum um raunverulegan samningsvilja stjórnarandstæðinga.
Hann sagði að Jón Gunnarsson hefði á sama tíma og hann kallaði eftir sátt í þingsal, sagt að þingi myndi ekki ljúka fyrr en að frumvarp um breytingar á veiðigjöldum yrði fellt af dagskrá.
„Ég spyr um samningsvilja þegar háttvirtur þingmaður Jón Gunnarsson kemur hér upp og býður fram einhverja sáttarhönd en á sama tíma er hann að fullyrða það í fjölmiðlum að þetta þing verði ekki stoppað fyrr en þetta mál [veiðigjaldafrumvarpið] verður tekið af dagskrá. Maður veltir fyrir sér samningsvilja hans þar,“ sagði Guðbrandur.
Í umræðunum vísaði Guðbrandur einnig til umfjöllunar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem hafði sagt í færslu á samfélagsmiðlum að stjórnarandstaðan mætti vissulega lýsa andstöðu sinni við frumvörp ríkisstjórnar, en að það væri hlutverk meirihlutans að setja lög.
„Lýðræðið virkar þannig að þó að það sé vitlaus meirihluti, þá má hann búa til vitlaus lög,“ sagði Guðbrandur.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, steig síðar í pontu og svaraði orðunum. Hún tók undir það að ríkisstjórnin hefði lýðræðislegt umboð, en lagði áherslu á að lýðræðisferlið væri flóknara en svo að meirihlutinn gæti einfaldlega samþykkt lög að vild.
„Lýðræðið er sem betur fer mun flóknara og vandaðra fyrirbæri en það að sá sem er valdhafi hverju sinni sitji og ýti á græna takkann í sínu borði. Það er vandaðra og flóknara en það og þá segir sig sjálft að minnihlutinn hverju sinni gæti þá að sjálfsögðu bara verið heima hjá sér ef það væri reyndin,“ sagði Hildur.