Þingmaður Viðreisnar og 1. varaformaður atvinnuveganefndar segir lítið nýtt koma fram í yfirlýsingu Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um veiðigjaldafrumvarpið. Hann segir að það verði að koma í ljós hvort að frumvarpið muni valda frekari samþjöppun í sjávarútvegi.
Þingmaður Viðreisnar og 1. varaformaður atvinnuveganefndar segir lítið nýtt koma fram í yfirlýsingu Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um veiðigjaldafrumvarpið. Hann segir að það verði að koma í ljós hvort að frumvarpið muni valda frekari samþjöppun í sjávarútvegi.
Samtökin gáfu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hvatt var til þess að áhrif frumvarpsins yrðu metin ítarlega, þar með talið áhrif á útsvarstekjur, hafnir, stoðgreinar og nýsköpun. Einnig var varað við frekari samþjöppun í sjávarútvegi og lokun fiskvinnslu úti á landi ef veiðigjöldin hækka jafn bratt og stendur til í frumvarpinu.
Samtökin segja nauðsynlegt að áhrifamat sé gert svo hagaðilar geti metið bein og óbein áhrif frumvarpsins, s.s. á útsvarstekjur, tekjur vegna umsvifa í starfsemi hafna, stoðgreinar og nýsköpun.
Erfitt að vinna nákvæmar greiningar á áhrifum
Tekur þú undir það að ekki hafi verið unnin nægileg greining á áhrifum frumvarpsins?
„Sem fyrrverandi bæjarstjóri hef ég hingað til ekki orðið var við að unnið sé mikið áhrifamat á sveitarfélögin þegar verið er að fara ofan í mál sem snúa að atvinnulífinu. Ég tel að við í þessu tilviki höfum gert það sem við höfum getað miðað við þau gögn og upplýsingar sem við höfum haft og komið meðal annrs til móts við áhyggjur sveitarfélaga með hækkun frítekjumarks” segir Eiríkur Björn Björgvinsson, þingmaður Viðreisnar í samtali við mbl.is.
Hann segir erfitt að vinna nánari greiningar þar sem það séu svo margar breytur sem hafi áhrif á sveitarfélögin.
„Það er auðvitað ekki alltaf hægt að vinna nákvæmar greiningar eða meta áhrif þó vilji sé til þess. Það er kannski ekkert skrýtið að menn í fortíðinni hafi ekki verið að vinna miklar greiningar, því það eru svo margar breytur sem þarf að taka tillit til. Það er mjög erfitt að kalla þær allar fram.“
„Það verður bara að koma í ljós“
Samtökin lýsa enn fremur yfir áhyggjum af aukinni samþjöppun í sjávarútvegi, verði frumvarpið að lögum.
Hefurðu ekki áhyggjur af því ef samþjöppun eykst að það verði í raun óafturkræfar breytingar?
„Ég er nú fyrrverandi bæjarstjóri og hef haft áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í langan tíma. Þetta veiðigjaldafrumvarp skýrir það ekki. Þetta hefur verið þróunin hjá sjávarútveginum í mörg undanfarin ár þannig að það er auðvitað áhyggjuefni út af fyrir sig en ekki vegna þessa frumvarps. Það verður bara að koma í ljós. Þetta eru ákvarðanir sem fyrirtækin taka sjálf og hvernig þau haga sínum rekstri.“
En telur þú að þetta frumvarp muni stuðla að aukinni samþjöppun?
„Það þarf ekki að vera. Fyrirtækin á þessu sviði taka sínar sjálfstæðu ákvarðanir og ég ætla ekki að taka þær ákvarðanir fyrir þau.“
Lítið nýtt í yfirlýsingunni
Eiríkur segir að það komi svo sem lítið fram í yfirlýsingunni sem atvinnuveganefnd hafi ekki þegar verið upplýst um.
„Það er svo sem ekkert nýtt,“ segir hann og nefnir að hann viti ekki betur en að atvinnuvegaráðherra hafi verið í ágætis samskiptum við fulltrúa samtakanna.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.