Bergþór telur kyn Hildar hafa áhrif á gagnrýnina

Alþingi | 10. júlí 2025

Bergþór telur kyn Hildar hafa áhrif á gagnrýnina

Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins efast um að jafn hart væri sótt að Hildi Sverrisdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokks væri hún karlmaður.

Bergþór telur kyn Hildar hafa áhrif á gagnrýnina

Alþingi | 10. júlí 2025

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins á þingi í dag.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins á þingi í dag. mbl.is/Birta Margrét

Bergþór Ólason þing­flokks­formaður Miðflokks­ins ef­ast um að jafn hart væri sótt að Hildi Sverr­is­dótt­ur þing­flokks­for­manni Sjálf­stæðis­flokks væri hún karl­maður.

Bergþór Ólason þing­flokks­formaður Miðflokks­ins ef­ast um að jafn hart væri sótt að Hildi Sverr­is­dótt­ur þing­flokks­for­manni Sjálf­stæðis­flokks væri hún karl­maður.

Ákvörðun Hild­ar, sem jafn­framt er fimmti vara­for­seti þings­ins, um að slíta þing­fundi í gær­kvöldi án sam­ráðs við for­seta Alþing­is hef­ur verið harðlega gagn­rýnd af stjórn­ar­liðum í morg­un.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sagði meðal ann­ars að með ákvörðun Hild­ar væri „verið að klippa á lýðræðið“ og Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, mennta- og barna­málaráðherra og þingmaður Flokks fólks­ins, sakaði hana um vald­arán.

Ekki jafn hart sótt að karlvara­for­seta

Hlé var gert á þing­fundi um klukk­an 11 en þegar hann hófst aft­ur rétt fyr­ir há­degi tók Bergþór til máls og setti spurn­ing­ar­merki við það hlut­verk sem kyn Hild­ar spil­ar í gagn­rýn­inni á hana.

„Mér er það til efs að það hefði verið jafn fast sótt að karlvara­for­seta eins og nú er sótt að kven­vara­for­seta hefði karlvara­for­seti slitið fundi,“ sagði Bergþór.

Snýst ekki um kyn­ferði

Stjórn­ar­liðar sem næst tóku til máls virt­ust ekki sam­mála þess­ari at­hug­un Bergþórs.

„Þetta er al­var­leg staða og það að ætla bara að spila enn einn leik­inn [...] og reyna að setja þessa al­var­legu ákvörðun vara­for­seta í eitt­hvert kynja­sam­hengi er enn eitt sku­espilið af hálfu minni­hlut­ans. Fólk verður að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem það tek­ur hér og þessi ákvörðun vara­for­seta í gær er for­dæma­laus og grafal­var­leg,“ sagði Guðmund­ur Ari Sig­ur­jóns­son þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar um um­mæli Bergþórs.

Sig­mar Guðmunds­son þing­flokks­formaður Viðreisn­ar tók í svipaðan streng:

„Hér var fundi slitið. Störf Alþing­is voru trufluð með einni ger­ræðis­legri ákvörðun þing­flokks­for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, hátt­virts þing­manns Hild­ar Sverr­is­dótt­ur, án þess að umboð lægi fyr­ir um að slíta hér fundi frá for­seta þings­ins. Það var farið hér gegn for­seta Alþing­is. Þetta snýst ekki um kyn­ferði. Þetta snýst ekki um það hvort hv. þingmaður sé karl­kyns eða kven­kyns. Þetta hef­ur ekk­ert með það að gera.“

mbl.is