Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins efast um að jafn hart væri sótt að Hildi Sverrisdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokks væri hún karlmaður.
Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins efast um að jafn hart væri sótt að Hildi Sverrisdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokks væri hún karlmaður.
Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins efast um að jafn hart væri sótt að Hildi Sverrisdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokks væri hún karlmaður.
Ákvörðun Hildar, sem jafnframt er fimmti varaforseti þingsins, um að slíta þingfundi í gærkvöldi án samráðs við forseta Alþingis hefur verið harðlega gagnrýnd af stjórnarliðum í morgun.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði meðal annars að með ákvörðun Hildar væri „verið að klippa á lýðræðið“ og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra og þingmaður Flokks fólksins, sakaði hana um valdarán.
Hlé var gert á þingfundi um klukkan 11 en þegar hann hófst aftur rétt fyrir hádegi tók Bergþór til máls og setti spurningarmerki við það hlutverk sem kyn Hildar spilar í gagnrýninni á hana.
„Mér er það til efs að það hefði verið jafn fast sótt að karlvaraforseta eins og nú er sótt að kvenvaraforseta hefði karlvaraforseti slitið fundi,“ sagði Bergþór.
Stjórnarliðar sem næst tóku til máls virtust ekki sammála þessari athugun Bergþórs.
„Þetta er alvarleg staða og það að ætla bara að spila enn einn leikinn [...] og reyna að setja þessa alvarlegu ákvörðun varaforseta í eitthvert kynjasamhengi er enn eitt skuespilið af hálfu minnihlutans. Fólk verður að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem það tekur hér og þessi ákvörðun varaforseta í gær er fordæmalaus og grafalvarleg,“ sagði Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingar um ummæli Bergþórs.
Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar tók í svipaðan streng:
„Hér var fundi slitið. Störf Alþingis voru trufluð með einni gerræðislegri ákvörðun þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, háttvirts þingmanns Hildar Sverrisdóttur, án þess að umboð lægi fyrir um að slíta hér fundi frá forseta þingsins. Það var farið hér gegn forseta Alþingis. Þetta snýst ekki um kynferði. Þetta snýst ekki um það hvort hv. þingmaður sé karlkyns eða kvenkyns. Þetta hefur ekkert með það að gera.“