Ekki síst hefur Slysavarnaskóli Landsbjargar, sem varð 40 ára í lok maí, skipt sköpum fyrir öryggi sjófarenda en ein helsta ástæða þess að skólinn var stofnaður var hversu tíð banaslys voru á sjó. Í viðtali sem tekið var við Boga Þorsteinsson skólastjóra Slysavarnaskólans í tilefni afmælisins og birt var á sjómannadaginn sagði hann það engum vafa undiropið að slysa- og öryggisfræðsla sjómanna væri einn af lykilþáttum þess að alvarlegum slysum á sjó hefði fækkað jafn mikið og raun ber vitni.
Þá gegnir Rannsóknarnefnd samgönguslysa veigamiklu hlutverki en með hverju slysinu safnast saman gögn sem draga má lærdóm af og draga úr þeirri hættu að sambærileg slys eigi sér aftur stað.
2008 fyrsta árið án mannfalls
Ekki eru liðnir margir áratugir síðan mannfall á sjó þóttu ekki óvæntar fréttir heldur sorglegur liður tilverunnar í landi þar sem veður eru oft óblíð og afkoma og viðurværi landans byggðist að mestu á því að róa eftir fiski.
Oft er talað um að árið 2008 hafi verið fyrsta árið þar sem engin banaslys urðu á sjómönnum en í frétt mbl.is í janúar 2009 segir: „Nýliðið ár var einstakt að því leyti að enginn maður lét lífið í sjóslysi á íslenskum skipum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Siglingastofnun Íslands.“ Þá er tekið fram í fréttinni að sennilega sé um að ræða fyrsta skipti frá landnámi þar sem enginn lét lífið á sjó.
Fimm ár þar sem enginn lést
Frá árinu 2015-2024 voru sex atvik tekin fyrir af RNSA þar sem sjómenn létust við störf. Árin 2017-2021 spanna lengsta tímabilið þar sem ekkert mannfall varð í sjómannastéttinni, eða fimm ár samfleytt. Árið 2023 var hins vegar eitt banaslys skráð hjá RNSA og tvö árið 2022. Árið 2024 leið stóráfallalaust og enginn sjómaður lét lífið.
Sjólag er með öllu móti þegar siglt er á miðin. Ein af ástæðum þess að banaslysum hefur fækkað eru áreiðanlegri veðurspár.
Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Ljóst er að hið sama verður ekki upp á teningnum í lok árs 2025. Á dögunum strandaði báturinn Ormurinn langi AK 64 úti fyrir Patreksfirði með þeim afleiðingum að sjómaðurinn, Magnús Þór Hafsteinsson, lét lífið. Miðað við þessar tölur eru skráð banaslys á tíu ára tímabili því orðin sjö.*
Rannsókn slysa mikilvæg
Þegar atvik tímabilsins eru skoðuð má sjá mikilvægi þess að björgunarbúnaður sé yfirfarinn og í lagi en í tveimur tilvikum virkaði ekki losunarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta. Komið hefur fram að björgunarbátur Ormsins langa blés ekki út en einungis rannsókn RNSA mun leiða í ljós hvort eitthvað hafi verið athugavert við búnaðinn.
Hlutverk RNSA er afar mikilvægt í þessu samhengi en megintilgangur nefndarinnar er að rannsaka slys og leiða í ljós orsakir þeirra í því skyni að draga úr hættu á sams konar slysum. Rannsóknir nefndarinnar eru ekki framkvæmdar í því skyni að leita uppi ábyrgðaraðila heldur einungis til að tryggja öryggi sjófarenda. Hér til hliðar er farið yfir ástæður banaslysa síðustu tíu ár skv. skýrslum RNSA.
Rannsökuð banaslys 2015-2025
2015
Dragnóta- og togbátur – smíðaður 1988
Einn af fjórum skipverjum lést. Báturinn var á dragnótaveiðum á Vestfjarðamiðum í júlí 2015 þegar hann fór á hliðina og síðan á hvolf. Þrír skipverjar komust við illan leik upp á kjöl bátsins en sá fjórði komst ekki lífs af. Ástæða þess að skipið sökk var að öllum líkindum vegna samverkandi þátta ofhleðslu og sjósöfnunar í lest skipsins og á þilfari. Samkvæmt skýrslu RNSA virðist óþéttur lestarlúgukarmur hafa verið ein helsta ástæða þess að sjór komst niður í lestarrými. Þá virkaði ekki sjálfvirkur losunar- og sjósetningarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta.
2016
Krókaaflamarksbátur – smíðaður 2003
Einn skipverji af tveimur lést. Báturinn var á grásleppuveiðum austur af Gjögri á Húnaflóa í apríl 2016. Skipverjar voru að leggja trossu í sjó þegar sá sem aftast var á skipinu flæktist í færinu og dróst fyrir borð. Skipstjóri sem var í stýrishúsi brást strax við þegar hann heyrði skipverjann kalla en erfitt reyndist að koma honum um borð þar sem hann var flæktur í færinu. Þegar það hafðist var það um seinan.
Strandveiðibátur – smíðaður 1992
Einn skipverji lést. Báturinn var á siglingu á Vestfjarðamiðum í maí 2016 þegar honum hvolfdi. Samkvæmt skýrslu RNSA þótti líklegt að báturinn hefði fengið á sig straumhnút og brotsjó sem leiddi til þess að honum hvolfdi. Taldi nefndin að aðstæður hefðu verið vanmetnar en enginn annar skipstjóri hélt til veiða sökum sjólags og veðurs. Þá kom í ljós að gúmmíbjörgunarbátur hafi ekki losnað frá bátnum og ítrekaði RNSA orðrétt tilmæli til Samgöngustofu um endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað sem komið höfðu fram í eldri skýrslu.
2022
Línuskip – smíðað 1975
Einn af fjórtán skipverjum lést. Báturinn var að leggja línu norðarlega á Eldeyjarbanka í desember 2022. Skipverji var að kasta færi og baujum í millibóli þegar hann féll útbyrðis. Ekki er nákvæmlega vitað hvers vegna en þegar uppgötvað var að maðurinn hefði fallið útbyrðis upphófst leit sem bar ekki árangur.
Krókaaflamarksbátur – smíðaður 1981
Einn skipverji lést. Báturinn sigldi frá Reykjavíkurhöfn í janúar 2022 og strandaði við suðurenda Engeyjar en skipverji fannst látinn við Sólfarið við Sæbraut. Krufning leiddi í ljós að maðurinn var undir áhrifum.
2023
Netabátur – smíðaður 1963
Einn skipverji af sjö lést. Báturinn lá bundinn við bryggju í Njarðvíkurhöfn en sjö úr áhöfn voru sofandi í skipinu þegar eldur kom upp. Eldsupptök reyndust vera í stakkageymslu og líklegt þótti að kviknað hefði út frá vettlingaþurrkara.
2025
Strandveiðibátur – smíðaður 1981
Einn skipverji lést. Rannsókn RNSA á slysinu er ekki lokið.
*Vert er að benda á að ekki öll slys á bátum eru rannsökuð af RNSA. Árið 2018 lést til að mynda maður í Sundahöfn á meðan hann vann að viðgerðum um borð í bát og er talinn hafa fallið útbyrðis í prufusiglingu.
Einnig var í maí 2020 gerð umfangsmikil leit í Vopnafirði að 18 ára sjómanni sem féll útbyrðis af netabát sem var á grálúðuveiðum. Málið kom ekki á borð RNSA. Þá eru hér ótalin banaslys sem verða á öðrum skipum, svo sem í skemmtisiglingum o.fl.