Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir langsótt að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi sakað minnihlutann um tilraun til valdaráns í yfirlýsingu sinni á Alþingi í gær.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir langsótt að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi sakað minnihlutann um tilraun til valdaráns í yfirlýsingu sinni á Alþingi í gær.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hélt því fram í ræðu á Alþingi í gær að Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og 5. varaforseti Alþingis, hefði gert tilraun til valdaráns með því að slíta þingfundi án samráðs við forseta þingsins.
Gunnar segir að í ræðu Kristrúnar komi fram þröngur skilningur á lýðræði, að lýðræði sé einfaldlega alltaf meirihlutaræði og minnihlutinn hafi engin réttindi eða áhrif. Það sé hlutverk stjórnarandstöðunnar að vera í andstöðu og er það mikilvægt hlutverk lýðræðisins.
„Flestar kenningar um lýðræði gera ráð fyrir því að það sé einhvers konar valdajafnvægi sem lýðræðið hvíli á. Ef þú ert alltaf í minnihluta og færð aldrei að hafa nein áhrif þá endar það náttúrulega með því að þú missir trú á lýðræðiskerfinu. Við höfum að vísu sterka hefð á Íslandi fyrir meirihlutaræði og skörpum átökum á milli stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem það er nú hlutverk stjórnarandstöðunnar að vera í andstöðu,“ segir Gunnar.
Gunnar segir fátækleg tækifæri vera fyrir stjórnarandstöðuna til þess að hafa áhrif, eitt af þessum tækifærum stjórnarandstöðunnar hefur þó verið málþóf að sögn Gunnars.
„Hingað til hefur það verið þannig að málþóf hefur kannski verið helsta tækifæri stjórnarandstöðunnar til að hafa einhver áhrif. Hótunin um málþóf gerir það að verkum að meirihlutinn semur við minnihlutann um framgang mála. Það getur þá gerst að stjórnarandstaðan fái framgengt að einhverjum málum sé frestað.“
Gunnar telur að orð Kristrúnar á þinginu séu einhvers konar skilaboð en Kristrún sagði að lýðræðið væri viðkvæmt í landinu og það væri hennar skylda að standa vörð um það.
„Það sem forsætisráðherra er að gera þarna er að gefa skilaboð um að þessu muni einhvern veginn ljúka. Hún er að vísa í að meirihlutinn sé tilbúinn til að nýta sér afl sitt í þinginu. Þetta virðist því vera undirbúningur á næsta fasa í þessari deilu, sem væri þá að ríkisstjórnin myndi skera á hnútinn með því að vísa þessu í atkvæðagreiðslu og stöðva málþófið,“ segir Gunnar.
Segir hann ljóst að hætt sé við því að þetta muni hækka átakastigið í þinginu og hleypa illu blóði í samskiptin þar. Það sé þó eðlilegt að stjórnarandstaðan beiti málþófi enda eitt af þeim tækjum sem þau geta notað til þess að hafa völd.
„Þetta er náttúrulega óvenjulegt og óvenjulega flókið mál. Það verður því spennandi að sjá hvernig framvindan verður á þinginu á næstu mánuðum,“ segir Gunnar að lokum.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.