„Við getum klæðst honum með stolti“

Þjóðbúningurinn | 12. júlí 2025

„Við getum klæðst honum með stolti“

Systurnar Þórhildur Ólöf, Guðríður og Þórey Inga Helgadætur unnu hörðum höndum síðastliðinn vetur við að sauma sér íslenska þjóðbúninga. Þær frumsýndu búningana á uppskeruhátíð saumaklúbbsins á Árbæjarsafni.

„Við getum klæðst honum með stolti“

Þjóðbúningurinn | 12. júlí 2025

María Garðarsdóttir, Þórhildur Ólöf Helgadóttir, Þuríður Kolbeins, Hrefna Kristbergsdóttir, Ingibjörg …
María Garðarsdóttir, Þórhildur Ólöf Helgadóttir, Þuríður Kolbeins, Hrefna Kristbergsdóttir, Ingibjörg Finnbjörnsdóttir, Guðríður Helgadóttir og Þórey Inga Helgadóttir mbl.is/Birta Margrét

Syst­urn­ar Þór­hild­ur Ólöf, Guðríður og Þórey Inga Helga­dæt­ur unnu hörðum hönd­um síðastliðinn vet­ur við að sauma sér ís­lenska þjóðbún­inga. Þær frum­sýndu bún­ing­ana á upp­skeru­hátíð sauma­klúbbs­ins á Árbæj­arsafni.

Syst­urn­ar Þór­hild­ur Ólöf, Guðríður og Þórey Inga Helga­dæt­ur unnu hörðum hönd­um síðastliðinn vet­ur við að sauma sér ís­lenska þjóðbún­inga. Þær frum­sýndu bún­ing­ana á upp­skeru­hátíð sauma­klúbbs­ins á Árbæj­arsafni.

Syst­urn­ar hitt­ust alla mánu­daga síðastliðinn vet­ur og unnu að bún­ing­un­um und­ir leiðsögn móður þeirra, Þuríðar Kol­beins, og Hrefnu Krist­bergs­dótt­ur, 82 ára frænku þeirra sem er kjóla­meist­ari. Dæt­ur Þór­hild­ar og Guðríðar, þær Ingi­björg Brynja og Ástrós Hera, tóku einnig þátt í sauma­skapn­um ásamt tengda­dótt­ur Hrefnu, Maríu Garðars­dótt­ur.

Sam­vera megin­á­stæða sauma­skap­ar­ins

Þór­hild­ur seg­ir megin­á­stæðu þess að þær syst­ur hafi ákveðið að sauma bún­inga hafa verið til þess að skapa minn­ing­ar og eiga gæðastund­ir með móður þeirra sem sé reynd sauma­kona. Þór­hild­ur seg­ir hana hafa saumað allt á þær syst­ur í æsku. Á meðan syst­urn­ar saumuðu bún­ing­ana hafi móðir þeirra saumað svunt­urn­ar á þær.

Saumaskapurinn tók 200 klukkustundir.
Sauma­skap­ur­inn tók 200 klukku­stund­ir. mbl.is/​Birta Mar­grét

„Við sát­um bara og handsaumuðum all­an slíðastliðinn vet­ur og það var óskap­lega skemmti­legt,“ seg­ir Þór­hild­ur í sam­tali við blaðamann.

Ferlið hafi verið lær­dóms­ríkt fyr­ir syst­urn­ar sem sjálf­ar séu ekki mikl­ar sauma­kon­ur. „Við þurft­um mikla og góða leiðsögn því við syst­urn­ar kunn­um lítið í þjóðbún­inga­gerð þegar við byrjuðum,“ seg­ir Þór­hild­ur. Sauma­skap­ur­inn hafi tekið 200 klukku­stund­ir. „Þetta var krefj­andi verk­efni og ég veit ekki hversu oft ég þurfti að rekja upp og byrja upp á nýtt.“

Þór­hild­ur seg­ir mik­il­vægt að gefa sér tíma til að eiga gæðastund­ir með for­eldr­um sín­um þótt mikið sé að gera. „Það var nátt­úr­lega frá­bært að geta sam­nýtt tím­ann; hitt­ast, spjalla og vera líka að gera eitt­hvað sam­an en ekki bara sitja og borða kök­ur, þótt kvöld­in hafi endað á köku­hlaðborði með mömmu og pabba.“

Þjóðbún­inga­áhugi í blóð bor­inn

Þjóðbún­inga­áhugi virðist vera kon­um inn­an fjöl­skyld­unn­ar í blóð bor­inn að sögn Þór­hild­ar. „Mamma á bún­ing og þegar elsta syst­ir mín var lít­il þá saumaði mamma bún­ing á hana. Litla syst­ir mín gifti sig í ís­lenska þjóðbún­ingn­um,“ seg­ir hún og bæt­ir við að báðar ömm­ur henn­ar hafi átt þjóðbún­inga.

„Það er mikill áhugi á þessu í okkar nánasta umhverfi.“
„Það er mik­ill áhugi á þessu í okk­ar nán­asta um­hverfi.“ mbl.is/​Birta Mar­grét

Þjóðbún­inga­áhugi fjöl­skyld­unn­ar nær líka til yngri kyn­slóðar­inn­ar. „Árið sem syst­ur­dótt­ir mín, sem er fædd árið 2003, fermd­ist fór hún með mömmu á nám­skeið þar sem þær saumuðu á hana bún­ing. Hún not­ar upp­hlut­inn við mörg tæki­færi og í ýms­um sam­setn­ing­um, við pils eða bux­ur. Dótt­ir mín er líka að sauma bún­ing, þannig að það er mik­ill áhugi á þessu í okk­ar nán­asta um­hverfi.“

Móðir Þór­hild­ar fagnaði ný­lega 75 ára af­mæli sínu og seg­ir Þór­hild­ur að mark­mið þeirra systra hafi verið að klæðast þjóðbún­ing­un­um í af­mæl­is­veisl­unni. „Það var mjög ánægju­legt að það skyldi tak­ast og mik­il gleðistund þegar við klædd­um okk­ur upp með mömmu og fögnuðum með henni svona uppá­klædd­ar og fín­ar. Pabbi, Helgi Gísla­son, var aug­ljós­lega að rifna úr stolti yfir glæsi­leg­um kvenna­hópn­um sín­um.“

„Fólk sem hefur vit á þjóðbúningum á auðvelt með að …
„Fólk sem hef­ur vit á þjóðbún­ing­um á auðvelt með að sjá hvort mill­ur séu hand­smíðaðar eða steypt­ar.“ mbl.is/​Birta Mar­grét

Mill­urn­ar, eða þjóðbún­ingasilfrið, keyptu syst­urn­ar hjá gullsmiðnum Eyj­ólfi Kúld. „Hann hef­ur hand­smíðað þjóðbún­ingasilf­ur og ís­lenskt víra­virki í fjölda ára,“ seg­ir Þór­hild­ur, „og fólk sem hef­ur vit á þjóðbún­ing­um á auðvelt með að sjá hvort mill­ur séu hand­smíðaðar eða steypt­ar.“

Þjóðbún­ing­ur­inn sam­ein­ing­ar­tákn

Þór­hild­ur seg­ir ánægju­legt að áhugi fyr­ir þjóðbún­ingn­um sé að aukast, til að mynda séu nám­skeið í þjóðbún­inga­gerð afar vel sótt og marg­ar kon­ur hafi heim­sótt sauma­klúbb­inn síðastliðinn vet­ur með þjóðbún­inga frá for­mæðrum sín­um til að fá til­sögn um hvernig best væri að um­gang­ast þessa dýr­gripi. All­ar hafi þær talað um að vilja finna fleiri til­efni til að klæðast þeim.

„Von­andi eig­um við eft­ir að sjá fleiri klæðast ís­lenska þjóðbún­ingn­um því hann er fal­leg­ur og við get­um klæðst hon­um með stolti. Þjóðbún­ing­ar eru sam­ein­ing­ar­tákn þjóða. Við sjá­um til dæm­is hvað Norðmenn eru dug­leg­ir að skarta sín­um bún­ingi og all­ir klæðast hon­um á þjóðhátíðardag­inn, 17. maí. Ég held reynd­ar að skól­ar eins og Kvenna­skól­inn og Verzl­un­ar­skól­inn ýti und­ir þetta með því að halda peysu­fata­dag sem mér finnst fal­leg hefð.“

Þór­hild­ur seg­ir sauma­klúbb­inn ætla að halda ótrauðan áfram við handa­vinnu næsta vet­ur. „Við syst­urn­ar erum bún­ar að ákveða að sauma okk­ur slár og und­irpils sem er bæði fal­legt við bún­ing­inn og nauðsyn­legt að eiga í ís­lenskri veðráttu. Svo þurf­um við auðvitað að prjóna skott­húf­urn­ar.“

Saumaklúbburinn heldur ótrauður áfram næsta vetur.
Sauma­klúbbur­inn held­ur ótrauður áfram næsta vet­ur. mbl.is/​Birta Mar­grét
mbl.is