Systurnar Þórhildur Ólöf, Guðríður og Þórey Inga Helgadætur unnu hörðum höndum síðastliðinn vetur við að sauma sér íslenska þjóðbúninga. Þær frumsýndu búningana á uppskeruhátíð saumaklúbbsins á Árbæjarsafni.
Systurnar Þórhildur Ólöf, Guðríður og Þórey Inga Helgadætur unnu hörðum höndum síðastliðinn vetur við að sauma sér íslenska þjóðbúninga. Þær frumsýndu búningana á uppskeruhátíð saumaklúbbsins á Árbæjarsafni.
Systurnar Þórhildur Ólöf, Guðríður og Þórey Inga Helgadætur unnu hörðum höndum síðastliðinn vetur við að sauma sér íslenska þjóðbúninga. Þær frumsýndu búningana á uppskeruhátíð saumaklúbbsins á Árbæjarsafni.
Systurnar hittust alla mánudaga síðastliðinn vetur og unnu að búningunum undir leiðsögn móður þeirra, Þuríðar Kolbeins, og Hrefnu Kristbergsdóttur, 82 ára frænku þeirra sem er kjólameistari. Dætur Þórhildar og Guðríðar, þær Ingibjörg Brynja og Ástrós Hera, tóku einnig þátt í saumaskapnum ásamt tengdadóttur Hrefnu, Maríu Garðarsdóttur.
Þórhildur segir meginástæðu þess að þær systur hafi ákveðið að sauma búninga hafa verið til þess að skapa minningar og eiga gæðastundir með móður þeirra sem sé reynd saumakona. Þórhildur segir hana hafa saumað allt á þær systur í æsku. Á meðan systurnar saumuðu búningana hafi móðir þeirra saumað svunturnar á þær.
„Við sátum bara og handsaumuðum allan slíðastliðinn vetur og það var óskaplega skemmtilegt,“ segir Þórhildur í samtali við blaðamann.
Ferlið hafi verið lærdómsríkt fyrir systurnar sem sjálfar séu ekki miklar saumakonur. „Við þurftum mikla og góða leiðsögn því við systurnar kunnum lítið í þjóðbúningagerð þegar við byrjuðum,“ segir Þórhildur. Saumaskapurinn hafi tekið 200 klukkustundir. „Þetta var krefjandi verkefni og ég veit ekki hversu oft ég þurfti að rekja upp og byrja upp á nýtt.“
Þórhildur segir mikilvægt að gefa sér tíma til að eiga gæðastundir með foreldrum sínum þótt mikið sé að gera. „Það var náttúrlega frábært að geta samnýtt tímann; hittast, spjalla og vera líka að gera eitthvað saman en ekki bara sitja og borða kökur, þótt kvöldin hafi endað á kökuhlaðborði með mömmu og pabba.“
Þjóðbúningaáhugi virðist vera konum innan fjölskyldunnar í blóð borinn að sögn Þórhildar. „Mamma á búning og þegar elsta systir mín var lítil þá saumaði mamma búning á hana. Litla systir mín gifti sig í íslenska þjóðbúningnum,“ segir hún og bætir við að báðar ömmur hennar hafi átt þjóðbúninga.
Þjóðbúningaáhugi fjölskyldunnar nær líka til yngri kynslóðarinnar. „Árið sem systurdóttir mín, sem er fædd árið 2003, fermdist fór hún með mömmu á námskeið þar sem þær saumuðu á hana búning. Hún notar upphlutinn við mörg tækifæri og í ýmsum samsetningum, við pils eða buxur. Dóttir mín er líka að sauma búning, þannig að það er mikill áhugi á þessu í okkar nánasta umhverfi.“
Móðir Þórhildar fagnaði nýlega 75 ára afmæli sínu og segir Þórhildur að markmið þeirra systra hafi verið að klæðast þjóðbúningunum í afmælisveislunni. „Það var mjög ánægjulegt að það skyldi takast og mikil gleðistund þegar við klæddum okkur upp með mömmu og fögnuðum með henni svona uppáklæddar og fínar. Pabbi, Helgi Gíslason, var augljóslega að rifna úr stolti yfir glæsilegum kvennahópnum sínum.“
Millurnar, eða þjóðbúningasilfrið, keyptu systurnar hjá gullsmiðnum Eyjólfi Kúld. „Hann hefur handsmíðað þjóðbúningasilfur og íslenskt víravirki í fjölda ára,“ segir Þórhildur, „og fólk sem hefur vit á þjóðbúningum á auðvelt með að sjá hvort millur séu handsmíðaðar eða steyptar.“
Þórhildur segir ánægjulegt að áhugi fyrir þjóðbúningnum sé að aukast, til að mynda séu námskeið í þjóðbúningagerð afar vel sótt og margar konur hafi heimsótt saumaklúbbinn síðastliðinn vetur með þjóðbúninga frá formæðrum sínum til að fá tilsögn um hvernig best væri að umgangast þessa dýrgripi. Allar hafi þær talað um að vilja finna fleiri tilefni til að klæðast þeim.
„Vonandi eigum við eftir að sjá fleiri klæðast íslenska þjóðbúningnum því hann er fallegur og við getum klæðst honum með stolti. Þjóðbúningar eru sameiningartákn þjóða. Við sjáum til dæmis hvað Norðmenn eru duglegir að skarta sínum búningi og allir klæðast honum á þjóðhátíðardaginn, 17. maí. Ég held reyndar að skólar eins og Kvennaskólinn og Verzlunarskólinn ýti undir þetta með því að halda peysufatadag sem mér finnst falleg hefð.“
Þórhildur segir saumaklúbbinn ætla að halda ótrauðan áfram við handavinnu næsta vetur. „Við systurnar erum búnar að ákveða að sauma okkur slár og undirpils sem er bæði fallegt við búninginn og nauðsynlegt að eiga í íslenskri veðráttu. Svo þurfum við auðvitað að prjóna skotthúfurnar.“