Banatilræðið á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta er afleiðing „óafsakanlegra mistaka,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar öldungadeildar bandaríska þingsins.
Nefndin var sett á laggirnar í kjölfar þess að tilraun varð gerð til að myrða Trump sem þá var forsetaframbjóðandi. Skotið var úr riffli í eyra Donalds Trumps en litlu mátti muna að árásarmaðurinn, hinn tvítugi Thomas Crooks, hefði tekist ætlunarverk sitt.
„Það sem gerðist er ófyrirgefanlegt og afleiðingarnar sem hafa verið lagðar til vegna mistakanna eru ekki í samræmi við alvarleika málsins,“ segir í skýrslu sem gefin var út af heimavarna- og stjórnsýslunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.
„Enginn hefur verið rekinn enn, þrátt fyrir mistökin sem gerð voru,“ segir Rand Paul, formaður nefndarinnar.
„Atvikið sýnir algjört klúður á mörgum stigum öryggisgæslunnar. Það var knúið fram af skrifræðislegu kæruleysi, skorti á skýrum verklagsreglum og algjörri hunsun á beinum hótunum,“ segir Paul.
Engar nýjar upplýsingar um ástæðu Crooks fyrir morðtilrauninni komu fram í skýrslunni. Ekki er vitað hvað honum gekk til. Hann var skotinn til bana við morðtilraunina.