Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lokið máli sínu í umræðum um veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lokið máli sínu í umræðum um veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lokið máli sínu í umræðum um veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Þetta sögðu formenn flokkanna þriggja í upphafi þingfundar í dag þar sem þriðju umræðu um frumvarpið umdeilda er framhaldið. Umræða um frumvarpið er sú lengsta í sögu Alþingis.
Fyrirhugað er að dagurinn í dag verði seinasti dagur þessa þings en samkomulag um þinglok náðist síðdegis á laugardaginn í kjölfar tillögu þingforseta.
Fjögur mál verða afgreidd í dag en þau eru veiðigjaldafrumvarpið, frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar, frumvarp um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með breytingartillögu stjórnarandstöðunnar og lögbundin fjármálaáætlun.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók fyrst allra til máls á fundinum og gagnrýndi þar harðlega framferði ríkisstjórnarinnar og beitingu á 71. gr þingskaparlaga.
Hún sagði að umræðan um frumvarpið á þinginu væri ekki umræða heldur væri um að ræða sviðsetningu leikrits af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hefði haft í hyggju að þröngva í gegn eigin niðurstöðu frá upphafi.
„Af þeim sökum hefur Sjálfstæðisflokkurinn lokið máli sínu í þessu máli. Það var þeirra ákvörðun og hún verður því miður ekki dregið til baka,“ sagði Guðrún að lokum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kvöddu sér einnig hljóðs að loknu máli Guðrúnar og staðfestu að flokkar sínir myndu ekki taka þátt í frekari umræðu um frumvarpið.
Þriðju umræðu um frumvarpið er nú lokið en atkvæðagreiðslu hefur verið frestað.