Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, fagna þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga áður en frumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, fagna þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga áður en frumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, fagna þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga áður en frumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær.
Þetta segja bæjarstjórarnir í samtali við mbl.is.
Áður en frumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær var samþykkt breytingartillaga Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem felldi á brott ákvæði um lækkun framlaga úr sjóðnum sem ekki fullnýta álagningu útsvars á íbúa sveitarfélagsins en Ásdís og Almar, ásamt öðrum bæjarstjórum, höfðu harðlega gagnrýnt þetta ákvæði frumvarpsins.
Bæjarfélög sem innheimta ekki hæstu leyfilegu útsvarsprósentu, eins og Kópavogur og Garðabær, hefðu orðið af framlögum úr sjóðnum hefði ákvæðið ekki verið fellt út. Leiða má líkur að því að ákvæðið hefði því orðið til þess að sveitarfélög yrðu nauðbeygð til þess að hækka útsvarsprósentu sína.
Almar kveðst ánægður með þær breytingar sem gerðar voru þó hann sé ekki fyllilega sáttur með nýju lögin í heild sinni.
„Það er mjög skynsamleg niðurstaða hjá þinginu að fella þetta útsvarsákvæði út. Okkar málflutningur var í raun staðfestur í svörum innviðaráðuneytisins þegar málið var til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd,“ segir Almar aðspurður um þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu.
Almar segir að með nýju lögunum verði Garðabær af jöfnunarframlögum sem hafa hlupið á hundruðum milljónum króna síðastliðin ár.
„Við verðum af þessum árlegu framlögum. Það vill auðvitað engin missa tekjur en við sýnum þessu meiri skilning heldur en hefði átt við um útsvarsákvæðið. Hér er um heildarendurskoðun á þessum jöfnunarframlögum að ræða og það getur þýtt breytingar fyrir hvert og eitt sveitarfélag,“ segir Almar aðspurður um hvort lögin komi til með að hafa neikvæð áhrif á hans sveitarfélag.
Ásdís tekur í sama streng og Almar og fagnar því að útsvarsákvæðið hafi verið tekið út enda segir segir hún að slíkt ákvæði hafi beinlínis neytt sveitarfélögum sem ekki séu með útsvarsálagningu í hæstu leyfilegu prósentu að hækka skatta á sína íbúa. Ákvæðið hefði að hennar mati falið í sér alvarlega skerðingu á sjálfstjórn sveitarfélaga og skapað ranga hvata fyrir sveitarfélög.
Hún segist þó setja spurningamerki við ákveðna þætti laganna, þar á meðal svokallað höfuðstaðarálag sem Reykjavík og Akureyri munu hljóta, meðal annars til að sinna menningarstarfsemi sinni.
„Þetta höfuðstaðarálag er rosalega matskennd og óljóst hvernig álagið er fengið. Þegar nýtur Reykjavík sem dæmi góðs af því að flestar ríkisstofnanir eru í borginni og fær tugi milljarða skatttekjur á ári í gegnum fasteignagjöldin. Með þessu álagi er hins vegar verið að gera ráð fyrir því að önnur sveitarfélög fari að niðurgreiða enn frekar til Reykjavíkur því hún sé höfuðborg, til dæmis er tiltekið vegna menningarstarfsemi svo dæmi séu tekin.
Kópavogur og mörg önnur sveitarfélög eru hins vegar sjálf að reka menningarstofnanir, við erum til dæmis að reka Salinn og Gerðarsafn. Þannig að okkur finnst eitthvað skakkt hvernig þetta höfuðstaðarálag er fengið. Þó það megi gagnrýna þetta höfuðstaðarálag þá var vissulega okkar megináhersla að þátturinn er sneri að útsvarinu yrði tekin út og við erum auðvitað mjög ánægð að á okkur var hlustað,“ segir Ásdís.
Ásdís telur ekki að lögin eins og þau voru samþykkt hafi veruleg áhrif á fjárhag Kópavogs.
„Lögin hafa óveruleg áhrif á okkar fjárhag, þetta hefur meiri áhrif á önnur sveitarfélög. Við erum stórt sveitarfélag og greiðum meira inn í sjóðinn en við fáum út úr honum, sem er eðlilegt þegar horft er til þess hvert sé meginhlutverk jöfnunarsjóðs.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, ásamt fleiri þingmönnum, gagnrýndi það að útsvarsákvæðin umdeilda hefðu verið felld úr lögunum. Afstaða Framsóknarflokksins hefur verið sú að sveitarfélög sem hafi svigrúm til þess að sækja tekjur með sköttum á eigin íbúa eigi ekki að sækja tekjur í jöfnunarsjóð.
Bæjarstjórarnir segja þessi sjónarmið vera byggð á misskilningi á því hvernig sjóðurinn starfi.
„Það er verið að láta að því liggja að það sé engin jöfnun í kerfinu eins og það var fyrir breytingu en það er allsherjar misskilningur. Við höfum margbent á það að okkar íbúar hafa lagt inn meira í sjóðinn en við höfum fengið á móti, við erum þó ekki andsnúin því en okkur finnst skjóta skökku við þegar menn halda því fram að sjóðurinn hafi ekki verið félagslegur jöfnunarsjóður,“ segir Almar.
Ásdís segir það ekki skipta neinu máli hver útsvarsprósenta sveitarfélags er þegar greitt er inn í sjóðinn og úr honum.
„Það er bara ekki rétt að halda því fram að ef einhver sveitarfélög séu ekki með útsvarið í hámarki að þá séu þau að fá niðurgreiðslu í gegnum Jöfnunarsjóð. Ákvarðanir hvers sveitarfélags um útsvarsprósentu sína hafa engin áhrif á greiðslur þeirra inn í sjóðinn. Kópavogsbær greiðir árlega til að mynda einum og hálfum milljarði meira inn í sjóðinn en við fáum út úr honum. Kópavogsbúar eru því að niðurgreiða rekstur annarra sveitarfélaga með sínum útsvarsgreiðslum,“ segir Ásdís.