Innan Framsóknarflokksins eru eins og gengur og gerist skiptar skoðanir á veiðigjöldum. Flestir Framsóknarmenn hafa þó getað sameinast um það að hækka megi veiðigjöld en að mikilvægt sé að vandað verði til verka, tryggt að hækkunin dreifist með sanngjörnum hætti um byggðir landsins og hún stefni ekki atvinnu fólks og lífsviðurværi brothættra byggða á landsbyggðinni í hættu.
Um það snerist barátta Framsóknarmanna sem lögðust á sveif með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki í málþófi til að knýja á um að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði betur unnið, þ.m.t. að mat yrði lagt á áhrif hækkunar veiðigjalds á einstök sveitarfélög.
Með öðrum orðum snerist gagnrýni stjórnarandstöðunnar aldrei um það hvort hækka ætti veiðigjöld heldur hversu mikið og ört þau yrðu hækkuð og að vandað væri til verka, sem nokkur misbrestur virtist á.
Varamaður kallaður inn
Halla Hrund fylgdi þingflokki Framsóknarflokksins að málum til að byrja með, sérstaklega hvað varðar samráð við sveitarfélögin og lengd samráðsferilsins. Þetta kom fram í ræðum hennar á þingi en þar setti hún fram fjölmargar og alvarlegar efasemdir um ágæti frumvarpsins þegar í 1. umræðu þess í upphafi maí. Hún tók síðast til máls um veiðigjaldafrumvarpið miðvikudaginn 2. júlí og hvatti til málamiðlunar en þótti þingmenn lítt hafa tekið tillit hver til annars.
Veiðigjaldafrumvarpið var til umræðu í rúma viku eftir að Halla Hrund hafði lokið máli sínu eða allt þar til forseti þingsins beitti kjarnorkuákvæði þingskapalaga til þess að stöðva umræðu málsins föstudaginn 11. júlí. Degi fyrr, á fimmtudegi, var varamaður kallaður inn fyrir Höllu Hrund.
Sjaldan launar kálfur ofeldi
Í færslu Höllu Hrundar kveður skyndilega við annan tón. Þar tekur hún í reynd undir framsetningu stjórnarliða á baráttu stjórnarandstöðu. Stef stjórnarliða hefur falið í sér að um sé að ræða réttlætismál fyrir hlunnfarna þjóð. Verið sé að leiðrétta ranglæti og að stjórnarandstaðan sé að gæta hagsmuna fárra ríkra fjölskyldna með því að standa í vegi fyrir hækkun veiðigjalda.
Áður hafði Halla Hrund gagnrýnt þessa nálgun og það er ekki síst þess vegna sem útspil Höllu Hrundar vekur upp spurningar. Misskildi hún stefnu flokks síns, snerist henni hugur eða er hún að stíga í vænginn við stjórnarflokkana?
Í öllu falli er ljóst að með færslu sinni slær Halla Hrund sig til riddara á vinsældarvagni ríkisstjórnarinnar á sama tíma og hún hendir samflokksmönnum sínum í Framsókn undir þann sama vagn.
Um er að ræða mikinn trúnaðarbrest við þingflokkinn en alvarlegastur er þó trúnaðarbrestur Höllu Hrundar við formann flokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, sem bar hana á höndum sér inn í flokkinn fyrir síðustu kosningar eftir að hún hafði beðið ósigur í forsetakosningum fyrr um árið.
Sigurður Ingi gaf eftir oddvitasæti sitt í suðurkjördæmi fyrir Höllu Hrund og skipaði sjálfur annað sæti listans. Með þessu tók hann mikla áhættu, án ávinnings þegar upp úr kössunum var talið og var hann raunar hársbreidd frá því að detta út af þingi.
Í flestum flokkum rúmast ólíkar skoðanir en þegar til kastanna kemur eru þingmenn hluti af liði. Sagan hefur ítrekað sýnt hversu mikilvægt er að þingflokkar miðli málum innan sinna raða og gangi svo í takt út á við, einmitt til þess að hámarka slagkraftinn.
Ekki þarf að efast um vonbrigði Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar en hann tók mikla áhættu fyrir Höllu Hrund.
mbl.is/Eggert
Einangruð að eigin sök
Greini þingmann svo verulega á í afstöðu sinni við línu þingflokks er algengast að viðkomandi haldi sig einfaldlega til hlés. Að þingmaður rísi upp gegn samstarfsmönnum opinberlega og lýsi yfir stuðningi við andstæðinga er sjaldséðara en þó ekki óþekkt.
Ef til vill er um byrjendamistök Höllu Hrundar að ræða en hún var alls óreynd á sviði stjórnmálanna fyrir þetta kjörtímabil. Halla Hrund hlýtur engu að síður að hafa séð fyrir að með útspili þessu myndi hún einangra sig í þingflokknum, sem þetta kjörtímabilið er óvenju lítill en hefur fram að þessu verið samheldinn eins og rík hefð er fyrir í Framsóknarflokknum.
Afleiðingarnar ætti hún ekki síst að hafa séð fyrir í ljósi þess að hún kemur ný og óreynd sem oddviti inn í þingflokk þar sem samstarfsmenn hennar hafa setið um ára- og áratugabil.
Daðrað við andstæðinginn
Færsla Höllu Hrundar féll vel í kramið hjá stjórnarliðum sem margir hverjir „læka“ færsluna og skrifa athugasemdir þar sem þeir fagna afstöðu hennar og þakka henni fyrir samstarfið. Stuðningsmenn Framsóknar voru aftur á móti þöglir ef ekki kjaftstopp.
Hafi Halla Hrund séð það fyrir að með útspili þessu myndi hún einangra sig í þingflokki Framsóknar, eins og gera má ráð fyrir, er óhjákvæmilegt að spyrja sig að því hvort hún hafi vísvitandi stigið í vænginn við stjórnarliða og að um sé að ræða úthugsað skref í þá átt að ganga til liðs við einn stjórnarflokkanna.
Í því samhengi er rétt að benda á að Halla Hrund hefur stutt við nær öll mál ríkisstjórnarinnar og ekki verður annað séð en að hennar áherslur falli ágætlega að áherslum þeirra.
Ef til vill væru vistaskipti þægilegasta lausnin fyrir Höllu Hrund að svo komnu máli. Trúnaðarbresturinn mun óhjákvæmilega draga dilk á eftir sér. Kannski það jafni sig eitthvað í sumarleyfinu en það tekur tíma að byggja upp traust og enn meiri tíma að endurheimta glatað traust. Það gerist með verkum frekar en orðum.
En svo benda aðrir á að Halla Hrund kunni að vera að hugsa lengra en til sala Alþingis. Hún hefur áður lýst metnaði til þess að verða sendiherra og í ýmsum þingræðum hennar hefur mátt greina vonbrigði með það hvernig störf á Alþingi ganga fyrir sig.
Í því ljósi kann henni að henta að ganga til liðs við ríkisstjórnina, sem myndi eflaust verðlauna hana fyrir.