Á Youtube er birt myndband af því er fólk í kvikmyndahúsinu í Denver í Bandaríkjunum flýr af vettvangi skotárásar sem átti sér stað á miðnæturfrumsýningu á nýjustu Batman-myndinni. Að minnsta kosti fjórtán létust í árásinni og um 50 eru slasaðir, þar af margir mjög alvarlega.
Sjónarvottar segja að maður með gasgrímu á höfði hafi læðst inn í troðfullar bíósalinn og hafið skothríð. Þá hafi hann einnig kastað sprengjum sem annað hvort voru reyksprengjur eða táragassprengjur.
24 ára gamall maður var handtekinn skömmu síðar, grunaður um árásina, að því er fram kemur á vef BBC. Hann sagði lögreglu að hann væri með sprengjuefni heima hjá sér og var fjölbýlishús í Denver rýmt af þeim sökum.