Flutt á sjúkrahús í Singapúr

Unga konan, sem varð fyrir hópnauðgun í strætisvagni í Delhi í Indlandi fyrr í mánuðinum, hefur verið flutt á spítala í Singapúr. Konan er í öndunarvél og er talið að hún muni þurfa á líffæragjöf að halda.

Hún var flutt með sjúkraflugi í nótt og liggur nú á gjörgæsludeild Mount Elizabeth sjúkrahússins. Í yfirlýsingu frá spítalanum segir að ástand konunnar, sem er 23 ára og hafði áður gengist undir þrjár aðgerðir í Delhi, sé mjög alvarlegt. Fjölskylda hennar hafi fylgt henni til Singapúr enda búist við að sjúkrahúsdvölin verði löng.

Konan og karlkyns vinur hennar voru í strætó á leið heim úr bíói þann 16. desember sl. þegar sex eða sjö menn réðust á þau, rifu utan af þeim fötin, börðu með járnstöngum og hentu síðan út úr vagninum á meðan hann var á ferð. Talið er að konunni hafi verið nauðgað í tæpa klukkustund. Hún og maðurinn lágu nakin og í blóði sínu í vegkanti í u.þ.b. klukkustund áður en lögreglan kom á vettvang.

Mótmæli hafa farið fram víða á Indlandi undanfarna daga þar sem krafist var harðra refsinga yfir mönnunum sex sem hafa verið handteknir en margir mótmælendurnir lýstu yfir áhyggjum sínum af því að mennirnir fengju léttvæga refsingu, yrði þeim refsað yfir höfuð. Delhi hefur stundum verið kölluð „nauðgunarhöfuðborg“ Indlands þar sem kynferðisglæpir eru mun algengari þar en annars staðar í landinu. 

Til að reyna að lægja óánægjuöldurnar og draga úr mótmælum hafa stjórnvöld tilkynnt um ýmsar ráðstafanir sem þau hyggjast grípa til í því skyni að gera borgina öruggari fyrir konur. T.a.m. verður nætureftirlitsferðum lögreglunnar fjölgað og bann lagt við strætisvögnum með dekktar rúður. Þá hafa þau sagt að krafist verði lífstíðarfangelsis yfir mönnunum en mótmælendur segja það ekki vera nóg og krefjast margir þess að mennirnir hljóti dauðadóm.

Mótmæli í Srinagar í dag.
Mótmæli í Srinagar í dag. TAUSEEF MUSTAFA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert