Dómara í Texas hafa borist mikilvægar niðurstöður úr DNA-prófum á karlmanni sem dæmdur var til dauða fyrir að drepa þrjár manneskjur. Dómarinn verður nú að ákveða hvort taka eigi Hank Skinner af lífi en hann hefur verið á dauðadeild í yfir tvo áratugi.
Skinner var dæmdur fyrir að myrða árið 1993 vinkonu sína og tvö börn hennar. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og vonar nú að DNA-greiningin, sem hann hefur farið fram á í 13 ár, geti hreinsað hann af ásökununum.
Lögmaður hans, Robert Owen, segir að DNA-rannsóknin skipti miklu máli og sanni að vafi leiki á því að Skinner sé sekur.
Fjögur hár fundust á líki konunnar. Lögfræðingurinn segir að DNA-rannsóknin nú bendi til þess að þrjú þeirra séu af fórnarlömbunum sjálfum eða einhverjum öðrum úr fjölskyldunni.
Lögmaður Skinners hefur bent á annan mann sem hugsanlegan morðingja. Sá hetir Robert Donnell og var frændi konunnar sem var drepin. Hann er nú látinn. Lögmaðurinn segir að Donnell hafi áreitt konuna nokkrum klukkustundum fyrir morðin.
Saksóknari í málinu segir hins vegar að fjórða hárið tilheyri Skinner samkvæmt niðurstöðu DNA-rannsóknarinnar. Þá hafi fyrri rannsókn leitt í ljós að erfðaefni hans var einnig að finna á morðvopninu, eldhúshníf.
Lögmaður Skinners bendir hins vegar á að skjólstæðingur hans hafi búið í sama húsi og notað eldhúshnífinn á hverjum degi. Hann einn og sér nægi ekki til að sanna sekt Skinners.
„Ríkinu hefur ekki tekist að koma fram með ný sönnunargögn sem sanna sekt Skinners,“ sagði lögmaðurinn við fyrirtöku málsins í gær.
Þá gagnrýndi lögmaður Skinners að blóðugur jakki, sem fannst við lík konunnar, hefði horfið. Sá hefði getað verið mikilvægt sönnunargagn í málinu.