Minnst 157 eru nú sagðir látnir í námuslysinu í Tyrklandi, samkvæmt yfirlýsingu frá stjórnvöldum.
Samkvæmt borgarstjóranum í Manisa er slysið mun mannskæðara en virtist í fyrstu. Mjög var á reiki um dauðsföll í fyrstu og hermdu fregnir að minnst 4 en allt að 20 væru látnir. Síðar var gefin út opinber tala um að 17 væru látnir.
Borgarstjórinn fullyrðir nú að a.m.k. 157 séu látnir og 75 særðir. Ekki er fulljóst hversu margir eru enn fastir á lífi inni í námunni. Mikill fjöldi fólks hefur safnast saman við námumunnann, m.a. aðstandendur í von um að sjá ástvinum sínum bjargað á lífi.
Sprenging er sögð hafa orðið í námuni vegna bilunar í straumbreyti og kviknaði eldur í kjölfarið. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa nú yfir. „Tíminn vinnur ekki með okkur. VIð verðum að koma þeim út. Við gætum verið í mjög erfiðri stöðu,“ hefur Afp eftir orkumálaráðherra Tyrklands, Taner Yildiz.
Talið er að mennirnir sem eru fastir í námunni séu með súrefnisgrímur en ekki er ljóst hve lengi þær endist. Slökkviliðsmenn dæla súrefni inn í námuna. Dánarorsök flestra mannanna er sögð vera köfnun eða kolefniseitrun.
Sjá einnig: