Ólýsanleg sorg ríkti í tyrkneska bænum Soma í dag þegar meira en tvö hundruð verkamenn voru bornir til grafar. Mennirnir létust þegar sprenging varð í námu við bæinn. Staðfest dauðsföll eru komin yfir 280 og meira en hundrað er enn saknað. Litlar sem engar vonir eru um að mennirnir séu á lífi.
Sprengingin snertir alla í Soma. Verslanir voru flestar lokaðar í dag og ef eigendur lokuðu ekki af sjálfdáðum urðu þeir að gera það enda fóru flestir starfsmenn í verkfall í dag vegna atburðanna. Margir kenna tyrkneskum stjórnvöldum um. Nemi sem AFP-fréttaveitan ræddi við mótmælti af þeim sökum. „Þetta var morð á verkamönnum,“ sagði konan og einnig að hún þekkti til margra sem misst höfðu einhvern nákominn.
Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hafnaði því hins vegar alfarið í gær að ríkisstjórn hans bæri ábyrgð. Hann sagði námuna hafa staðist öryggisskoðun í mars síðastliðnum og benti fólki á að vinnuslys geti orðið. Urðu orð hans sem olía á eldinn og færðust mótmæli í aukanna eftir að Erdogan tjáði sig.