„Þurfti að klofa yfir lík vina minna“

Murat Yokus slapp lifandi frá námuslysinu í Soma í Tyrklandi. Hann getur hinsvegar ekki þurrkað út minningarnar af vinum hans, sem féllu hver af öðrum til jarðar og köfnuðu í þykkum eiturgufum sem fylltu göngin þar sem þeir voru fastir, á 2 km dýpi neðanjarðar. 301 lét lífið áður en yfir lauk.

„Ég þurfti að klofa yfir lík vina minna til að flýja. Ég þurfti að trampa á þeim,“ sagði Murat í viðtali við blaðamann Afp, augu hans flóandi í tárum. Fimm dagar eru liðnir síðan sprenging sprakk í námunni, með þeim afleiðingum að göngin hrundu saman.

Björgunaraðgerðum var hætt í dag og hafa krufningar leitt í ljós að mennirnir létust úr kolsýringseitrun.

Börðust fyrir lífinu eins og fórnardýr

Murat, sem er 29 ára, er einn af 485 námumönnum sem tókst að komast út á lífi, en það munaði mjóu. Hann segir atburðina ólýsanlega. „Ég var á leiðinni út úr námunni og heim til mín þegar ég sá reykinn koma. Fyrst sagði yfirmaður minn okkur að bíða, en svo byrjðum við að verða órólegir.“

Um 100 menn voru fastir í gangahlutanum þar sem Murat var, í um 300 fm rými. Þegar fréttir bárust af því að félagar þeirra í öðrum hluta ganganna hefðu allir dáið úr súrefnisskorti þá ákvað Murat að óhlýðnast fyrirmælum yfirmanns síns.

„Ég sagði við sjálfan mig að ég ætlaði ekki að deyja hér, ekki núna. Ég tók súrefnisgrímuna sem ég hafði aldrei notað áður og gekk af stað. Þegar ég leit um öxl sá ég marga vini mína liggjandi á jörðinni. Þeir voru að kafna, börðust fyrir lífinu eins dýr sem er verið að fórna. Þeir börðust gegn dauðanum.“

Ofsahræðsla greip um sig

Murat segist hafa sannfærst um það á þessari stundu að hann myndi draga sinn síðasta andardrátt þarna neðanjarðar. Honum varð hugsað til tveggja ungra barna sinna, eiginkonu og fjölskyldunnar. 

„Ég fór með mína síðustu bæn,“ sagði Murat, og svo leið yfir hann. Heppnin var hinsvegar með honum því stuttu síðar náðu björgunarmenn til hans og báru hann af stað. Hann rankaði fljótt við sér og ákvað að ganga sjálfur út úr námunni.

„Þú getur ekki ímyndað þér ofsahræðsluna. Vinnufélagar mínir hlupu fram og aftur, kvíðnir, óttaslegnir,“ sagði hann. Námuverkamenn gera sér fulla grein fyrir að þeir sinna hættulegu starfi, en Yokus segir að enginn geti verið búinn undir slys af þessu tagi.

Ætlar aftur ofan í jörðina

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar á slysinu, sem tyrkneska dagblaðið Milliyet hefur undir höndum, benda til þess að ýmsar öryggisreglur hafi verið brotnar í námunni. Meðal annars hafi kolsýringsskynjarar verið of fáir og loftið gert úr við en ekki málmi.

Þrátt fyrir allt fékkst Yokus ekki til að gagnrýna vinnuveitanda sinn í viðtali við blaðamann Afp. Fyrir þetta hættulega starf fær hann greiddar 800 evrur, um 120.000 krónur á mánuði. Hann stefnir á að vinna áfram neðanjarðar í 10 ár til viðbótar, til að vinna sér inn réttindi til að fara snemma á eftirlaun.

„Það er ekkert annað sem við getum gert. Hér er enginn landbúnaður, engin fyrirtæki, engin önnur störf,“ sagði Yokus. Faðir hans vann einnig sem námuverkamaður á undan honum.

„Ég ætla samt að flytja mig yfir í aðra námu. Ég hef misst of marga vini í þessari til að treysta mér til að stíga þar inn fæti aftur.“

Námuverkamenn sem komust lífs af lögðu við hlustir á blaðamannafundi …
Námuverkamenn sem komust lífs af lögðu við hlustir á blaðamannafundi sem eigandi Soma Holding námufyrirtækisins hafnaði ásökunum um vanrækslu. AFP
Kertavaka var haldin til minningar um 301 námuverkamann sem lést …
Kertavaka var haldin til minningar um 301 námuverkamann sem lést í Soma námunni. AFP
Björgunarmenn og námuverkamenn sjást bera út látna starfsmenn Soma námunnar, …
Björgunarmenn og námuverkamenn sjást bera út látna starfsmenn Soma námunnar, þann 15. maí, tveimur dögum eftir slysið. AFP
Námuverkamenn sem komust lífs af lögðu við hlustir á blaðamannafundi …
Námuverkamenn sem komust lífs af lögðu við hlustir á blaðamannafundi sem eigandi Soma Holding námufyrirtækisins hafnaði ásökunum um vanrækslu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert