Fimm í haldi vegna morðs

Fjórir hafa verið handteknir í tengslum við morð á þungaðri konu fyrir utan dómshús í pakistönsku borginni Lahore á þriðjudag. Konan var grýtt til bana hópi fólks en hinir handteknu eru frændur hennar.

Farzana Parveen var grýtt af á þriðja tug árásarmanna sem réðust á hana fyrir utan hæstarétt í borginni með múrsteina að vopni. Fjölmargir árásarmannanna eru ættingjar hennar voru afar ósáttir við eiginmann hennar. Lögregla horfði aðgerðarlaus á morðið sem átti sér stað um miðjan dag í næst stærstu borg Pakistans.

Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, sagði í gær að morðið væri óásættanlegur glæpur sem yrði að bregðast hratt við. Beindi hann þeim tilmælum til bróður síns, sem er æðsti yfirmaður í héraðinu, Punjab, að hefjast þegar í stað handa við að tryggja að réttlætið næði fram að ganga.

Alls eru fimm í haldi vegna árásarinnar því faðir konunnar var handtekinn á árásarstaðnum.

Sharif hefur krafist þess að dæmt verði í málinu fyrir hryðjuverkadómstól þar sem það þýði hraðari málsmeðferð. En eitt af því sem hefur verið gagnrýnt í dómskerfi landsins er sá silagangur sem einkennir alla afgreiðslu mála. Hæstiréttur landsins hefur krafist þess að fá greinargóða skýrslu um málið af hálfu lögreglunnar innan tveggja sólarhringa.

Myrti fyrri eiginkonu sína af ást til þeirrar sem nú var grýtt til bana

Eiginmaður Parveens,  Mohammad Iqbal, viðurkenndi í samtali við AFP í gær að hafa kyrkt fyrri eiginkonu sína til bana en hann hafi ekki þurft að afplána í fangelsi þar sem sonur hans hafi fyrirgefið honum að hafa myrt móður hans. „Ég var ástfanginn af Farzana og myrti fyrri eiginkonu mína vegna ástar minnar á henni (Farzana Parveen).“

Þegar Farzana Parveen var grýtt til bana var hún að koma út úr dómssal þar sem hún hafði borið vitni í máli fjölskyldunnar gegn Iqbal. Fjölskylda Farzana Parveen hafði sakað hann um að hafa rænt henni og neytt hana í hjónaband.

Iqbal, sem er bóndi, segir að Parveen fjölskyldan hafi samþykkt hjónabandið í upphafi en snúist gegn honum þar sem þeim þótti hann ekki greiða nægjanlega mikið fyrir hana.

Á síðasta ári létust 869 konur í svokölluðum sæmdarmorðum í Pakistan. Afar sjaldgæft er að dæmt sé í slíkum málum þar sem hægt er að komast undan refsingu ef þér er fyrirgefið af nánustu ættingjum fórnarlambsins, sem í þessum málum eru oft sömu einstaklingar og standa á bak við sæmdarmorðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert