Móðirin verður leyst úr haldi

Daniel Wani, maður Meriam, með nýfædda dóttur sína, Mayu, í …
Daniel Wani, maður Meriam, með nýfædda dóttur sína, Mayu, í fanginu. AFP

Yfirvöld í Súdan ætla að leysa konu úr haldi sem var dæmd til dauða fyrir að hafa snúið frá íslam. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Meriam Ibrahim eignaðist nýverið barn í fangelsinu. Hún verður laus úr fangelsinu innan fárra daga, samkvæmt utanríkisráðuneyti Súdan.

Meriam Yahya Ibrahim ól stúlkubarn í vikunni. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hún situr í fangelsi fyrir hórdóm og trúvillu og bíður þess að verða tekin af lífi, segir í fréttaskýringu Orra Páls Ormarssonar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.
Fæðingin gekk vel miðað við aðstæður en fangelsisyfirvöld íOmdurman-kvennafangelsinu sáu ekki ástæðu til að fjarlægja hlekki af ökklumIbrahim sem hún þarf að bera alla daga. Það var ekki fyrr en daginn eftir að eiginmaður hennar fékk að koma í heimsókn að hún var leyst úr fjötrunum. Þetta er annað barn þeirra hjóna, hinn tuttugu mánaðaMartin, dvelst hjá móður sinni í fangelsinu.

Dæmd til dauða

Ibrahim var dæmd til dauða fyrr í þessum mánuði fyrir hórdóm og trúvillu. Fyrir þremur árum gekk hún að eiga bandarískan ríkisborgara, Daniel Wani, í trássi við stjórnvöld í Súdan en Wani er kristinnar trúar. Það er Ibrahim raunar líka enda þótt dómstólar í Súdan fallist ekki á það. Móðir hennar er kristin en faðirinn, sem yfirgaf fjölskylduna þegar Ibrahim var barn að aldri, múslimi. Ibrahim hefur aldrei aðhyllst aðra trú en er þó skylt, samkvæmt lögum, að fylgja íslam eins og faðir hennar.

Fyrr á þessu ári var Ibrahim dregin fyrir dómstól í Khartoum af tvennum sökum. Annars vegar fyrir trúvillu og hins vegar hórdóm en konum í Súdan er harðbannað að giftast kristnum mönnum, hvað þá ala þeim barn. Ibrahim fékk þriggja daga umhugsunarfrest til að afneita trúnni en þegar hún hafnaði því var hún umsvifalaust dæmd til dauða. Að auki var henni gert að sæta hýðingu, hundrað svipuhöggum, en framkvæmdinni frestað þangað til Ibrahim hefur náð sér eftir barnsburðinn. Samkvæmt landslögum má Ibrahim hlynna að barni sínu í tvö ár áður en dauðadómnum verður framfylgt.

Amnesty International fer þar fremst í flokki en mannréttindasamtökin hafa krafist þess að Ibrahim verði látin laus án tafar og aftökunni aflýst. „Sú staðreynd að kona hafi verið dæmd til dauða vegna trúar sinnar og til barsmíða vegna þess að hún gekk að eiga mann af meintri annarri trú er skelfilegt og andstyggilegt. Hvorugt ætti að vera glæpur. Þetta er skýlaust brot á alþjóðamannréttindum,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Frétt mbl.is: Dauðadæmd móðir fæðir barn í fangelsi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert