Óeirðarlögregla skaut táragasi að mótmælendum í Ferguson í Missouri í morgun. Mikil reiði ríkir í bænum eftir að hinn 18 ára Michael Brown var skotinn til bana af lögregluþjóni fyrir viku síðan. Brown var óvopnaður.
Í tilkynningu sem lögreglan á svæðinu gaf út í gær kom fram að Brown hafi verið grunaður um þjófnað í búð stuttu áður en hann var skotinn. Í kjölfarið hófust mótmæli að nýju en flestir mótmælenda líta á dauða Brown sem merki um kynþáttahatur innan lögreglunnar, en Brown var þeldökkur.
Um 60% íbúa Ferguson eru þeldökkir á meðan 50 af 53 lögregluþjónum á svæðinu eru hvítir.
Í tilkynningu lögreglunnar kom einnig fram nafn lögreglumannsins sem skaut Brown.Hann heitir Darren Wilson og er 28 ára gamall.
Mótmælunum síðustu daga hefur fylgt ofbeldi, skemmdarverk og hafa heilu búðirnar verið tæmdar af ræningjum sem notfæra sér ástandið.
Mótmælendur hafa jafnframt hent steinum, gleri og molotov-kokteilum að lögreglu sem svara með rafbyssum, táragasi og reyksprengjum undanfarna daga.
Dauði Brown hefur skapað mikla umræðu í Bandaríkjunum um samband lögregluyfirvalda og þeldökkra í landinu.
Fjölskylda Brown bað upphaflega fólk um að sýna stillingu en reiddist eftir að lögreglan sagði Brown hafa verið grunaða um þjófnað. Hefur fjölskyldan kallað það „lævísa“ tilraun til þess að sverta mannorð Brown sem var með hreina sakaskrá og var við það að hefja námi í háskóla er hann lést.
„Engar staðreyndir um þetta mál geta réttlætt morðið á barni þeirra,“ sagði lögfræðingur fjölskyldunnar. „Þetta var eins og aftaka. Lögreglumaðurinn skaut drenginn er hann var uppi með báðar hendur, sem er alþjóðlegt merki uppgjafar.“