„Við erum öll orðin feit á ný“

Jóhanna Engelhartsdóttir sigraði The Biggest Loser Ísland árið 2014.
Jóhanna Engelhartsdóttir sigraði The Biggest Loser Ísland árið 2014. mbl.is/Eggert

Önnur þáttaröð Biggest Loser Ísland hófst í síðustu viku. Þættirnir hafa verið umdeildir hér landi og erlendis og hafa aðeins örfáir keppendur vestanhafs talað við fjölmiðla um neikvæða upplifun sína, þar sem þeir eiga á hættu að að vera lögsóttir fyrir að tjá sig án leyfis framleiðanda. Þau tala um langar, krefjandi æfingar, niðurlægingu þjálfara og að þau hafi nánast verið svelt er þau tóku þátt í þættinum. 

Í fréttatilkynningu sem barst frá Skjá einum og Saga Film áður en fyrsta þáttaröðin fór í loftið á síðasta ári sagði að íslenska þjóðin stæði á tímamótum. Hún væri sú feitasta í Evrópu og við blasti alvarlegt lýðheilsuvandamál. Því hafi fyrirtækin ákveðið að ráðast í „stærsta sjónvarpsverkefni síðustu ára, Biggest Loser Ísland.“

Sumir þeirra sem hafa stigið fram og greint frá upplifun sinni eru stoltir og ánægðir með árangurinn en aðrir draga upp skelfilega mynd af keppninni og aðferðunum sem notaðar eru. Hér að neðan má sjá ummæli nokkurra þátttakenda. 

Eflaust síðasta hálmstráið í baráttu margra

Í þættinum er fylgst með hópi einstaklinga keppa í þyngdartapi. Þeir eiga það sameiginlegt að vera í yfirþyngd en sá sem hefur misst mestan hluta af þyngd sinni í lokin fer með sigur af hólmi. Þættirnir hafa einna helst verið gagnrýndir fyrir áherslu á mikið þyngdartap á stuttum tíma en einnig fyrir að sýna fólk í yfirþyngd í niðurlægjandi ljósi. 

mbl.is ræddi nýlega við Dr. Veru Tarman, yfirlækni á stærstu meðferðarstöð Kanada við vímuefnafíkn. Hún bendir á að matarfíkn sé raunveruleg fíkn sem vísindasamfélagið þurfi að verða opnari fyrir. Sumir sjúklingar hennar, sem glímdu bæði við matar- og eiturlyfjavanda, sögðu að matarfíknin væri verri en fíknin í kókaínið, þeir hefðu allavega stjórn á eiturlyfjafíkninni. 

Þau sem taka þátt í Biggest Loser, hér á landi og erlendis, eru eins og áður sagði í yfirþyngd. Ekki er ólíklegt að þau glími við matarfíkn, sjúkdóm sem þau hafa ef til vill glímt við frá barnæsku. Þau hafa reynt hinar ýmsu leiðir til að léttast, farið í gegnum hvern megrunarkúrinn á fætur öðrum og fengið að finna fyrir fordómum. 

Þátttaka í þætti sem þessum er eflaust síðasta hálmstráið í baráttu margra keppenda. Þau sjá ekki aðra leið út og kjósa að hleypa áhorfandum að sínum dýpstu hjartarótum, leyfa honum að fylgjast með sér púla í von um að vera ekki sendur heim. Fólkið stendur fáklætt á vigtinni og áhorfendur fylgjast spenntir með. 

Hin meinta „vottun“ á ekki við hér á landi

Á heimasíðu Skjásins þar sem lesa má um efni þáttarins segir að þúsundir einstaklinga hvaðanæva úr heiminum hafi farið í gegnum heilsuferli The Biggest Loser sem hafi gjörbreytt lífsháttum þeirra og sé það vottað af læknum, sálfræðingum og næringarfræðingum. 

Fyrir tæpu ári sendu sjö félög frá sér yfirlýsingu í tengslum við vottunina sem vísað er í á heimasíðu Skjásins. Þar sagði að sú meinta „vott­un“ sem ís­lensk út­gáfa sjón­varpsþátt­anna The Big­gest Loser er sögð hafa fengið frá lækn­um, sál­fræðing­um og nær­ing­ar­fræðing­um ætti ekki við um fag­fólk hér á landi.

Í yfirlýsingunni kom jafnframt fram að þættirnir hefðu sætt mikilli gagnrýni, bæði erlendis og hér á landi, fyrir öfgakenndar áherslur á þyngdartap, mikla fæðutakmörkun, álag við æfingar og harkalega framkomu þjálfara í garð keppenda. Nýlega var fjallað var um þættina á vef Líkamsvirðingar.

Sýningar á þáttunum hófust árið 2004 í Bandaríkjunum og koma fjölmargir í áheyrnarprufu fyrir hverja þáttaröð. Sýningar á sextándu þáttaröðinni í Bandararíkjunum standa nú yfir. Að meðaltali fylgjast sjö milljónir manna með þættinum í viku hverri og um 200 þúsund manns koma í áheyrnarprufu fyrir  hverja þáttaröð. 

Vinkonan hvatti hana til að taka þátt

Ein þeirra sem stigið hefur fram og rætt um reynslu sína er Kai Hibbard. Hún tók þátt árið 2006 og missti tæplega 55 kíló á meðan á keppninni stóð. Í viðtali sem birtist nýlega í  New York Post segist hún skammast sín fyrir að hafa tekið þátt. 

Hibbart segir að hún hafi alltaf verið í vandræðum með þyngdina en í janúar árið 2006, þegar hún var orðin rúmlega 120 kíló, sagði vinkona hennar við hana að nú væri hún orðin allt of feit og hvatti hana til að reyna að komast í The Biggest Loser. 

Hún vandar framleiðendum þáttanna ekki kveðjurnar og segir að hún hafi meðal annars verið neydd til að dvelja í herbergi sem henni var úthlutað á meðan keppninni stóð þegar ekki var verið að mynda fyrir þættina. „Hótelið tilkynnir stjórnendum þáttarins ef þú yfirgefur herbergið,“ segir hún.

Innbyrtu eitt þúsund hitaeiningar á dag

Hibbard segir einnig að þjálfararnir hafi látið ýmis ljót orð falla við keppendur. „Þeir sögðu til dæmis við keppendurna, þú munt deyja áður en börnin þín vaxa úr grasi, þú munt deyja rétt eins og móðir þín, við höfum þegar valið líkkistu fyrir feitt fólk,“ rifjar Hibbard upp.

Hér má sjá brot úr þættinum en þar lætur þjálfari keppanda heyra það. 

Hún segir einnig að keppendur hafi ekki fengið að nærast mikið en þau innbyrtu um eitt þúsund hitaeiningar á degi hverjum. Orkuþörf líkamans er mjög breytileg og er háð ýmsum þáttum. Sá sem æfir mikið, líkt og keppendur The Biggest Loser, þurfa að innbyrða mun fleiri hitaeiningar en sá sem hreyfir sig lítið allan daginn.

Sú orka sem fer í grunnefnaskipti er oft áætluð vera um 1440 hitaeiningar. Dagleg orkuþörf líkamans er því sú orka sem þarf við grunnefnaskipti að viðbættri orkunni sem þarf til að reka það sem hver og einn gerir yfir daginn. 

Hætti að fara á blæðingar og missti hárið

Hibbard lýsir því einnig hvernig heilsu hennar fór hrakandi. „Ég hætti að fara á blæðingar, ég svaf aðeins þrjár klukkustundir á nóttunni,“ segir Hibbard en hún glímdi einnig við hárlos. Hún segir að tíðahringur hennar sé ekki enn orðinn eðlilegur átta árum eftir keppnina. Skjaldkirtill hennar hafði alltaf verið í góðu lagi en það á ekki lengur við.

Blaðamanni New York Post leikur þá forvitni á að vita af hverju keppendur hætta ekki keppni. 

„Þú ert heilaþveginn til að trúa því að þú sért afar heppinn að vera þarna,“ segir Hibbard. „Ég hugsaði, þú munt líta út fyrir að vera vanþakklát ef þú léttist ekki meira fyrir lokaþáttinn.“

Fyrsta æfingin var fjórar klukkustundir

Annar keppandi sem ræddi við New York Post en vildi ekki láta nafns síns getið segir að farsími hennar og fartölva hafi verið tekin af honum þegar hann innritaði sig á hótelið í fyrsta skiptið til að taka þátt í keppninni. Hann telur að tölva hans hafi verið hleruð. 

Keppandinn segir einnig að fyrsta æfingin hafi verið fjögurra klukkustunda löng og hneig hann að lokum niður. „Ég hélt að ég myndi deyja,“ segir hann í samtali við New York Post. „Ég gat ekki meira.“ Þá öskraði þjálfarinn. „Stattu upp.“

Í umfjöllun New York Post kemur einnig fram að keppendur hafi þurft að leita sér læknishjálpar, nokkrum sinnum vegna alvarlegra veikinga. Ryan Benson, fyrsti sigurvegari sjónvarpsþáttaraðarinnar, var tæp 150 kíló þegar hann hóf keppni en rúmlega 94 kíló í lokin.

Eftir að hafa staðið uppi sem sigurvegari var hann svo illa haldinn af vannæringu að blóð var að finna í þvagi hans. Í dag er Benson um 150 kíló á ný.

Notaði gufubaðið í sex klukkustundir á dag

„Ég borðaði barnamat. Ég vafði ruslapokum utan um mig til að svitna. Við notuðum gufubaðið í sex klukkustundir á dag. Við hættum að borða og drekka og æfðum í fjórar klukkustundir á dag. Fólk féll í yfirlið hjá lækninum,“ segir Suzanne Mendoca, en hún tók þátt í annarri þáttaröð Biggest Loser.

Hún segir alveg ljóst af hverju sjónvarpsstöðin NBC sem sýnir þættina í Bandaríkjunum framleiði ekki þætti þar sem keppendur hittist aftur eftir að hafa lokið keppni. „Af hverju,“ spyr hún. „Af því að við erum öll orðin feit á ný.“

Kemur framleiðendum þáttanna til varnar

Eins og áður sagði eru sumir keppendurnir ánægðir með árangur sinn og þátttöku í The Biggest Loser. Vincent Higgerson, sem tók þátt í tólftu þáttaröðinni í Bandaríkjunum, missti rúmlega 50 kíló og segir þátttökuna hafa breytt lífi sínu. 

Í nýlegu viðtali kemur hann framleiðendum þáttanna til varnar. Hann segist ekki áfellast Hibbard fyrir þau orð sem hún hefur látið falla um þættina. Hann segist aldrei hafa fundið fyrir fordómum frá þjálfurnum vegna þyngdar sinnar og þvertekur fyrir að um heilaþvott hafi verið að ræða. 

Framkoman í Biggest Loser teldist brotleg

Gætu ekki vottað Biggest Loser

Þættirnir hafa sætt mikilli gagnrýni, bæði erlendis og hér á …
Þættirnir hafa sætt mikilli gagnrýni, bæði erlendis og hér á landi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Í þættinum er fylgst með hópi einstaklinga keppa í þyngdartapi. …
Í þættinum er fylgst með hópi einstaklinga keppa í þyngdartapi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka