Féll eftir áttunda skotið

Lögreglumaðurinn Michael Thomas Slager skaut átta skotum á eftir Walter Lamer Scott á flótta. Scott féll til jarðar eftir áttunda skotið, segir í Washington Post í dag. 

Slager var handtekinn í gærkvöldi og er ákærður fyrir morð á Scott sem er fimmtugur að aldri.

Myndskeið af því þegar lögreglumaðurinn, sem er hvítur, skýtur svartan mann á hlaupum, varð til þess að Slager var handtekinn fyrir morð en Scott var stöðvaður af lögreglu við umferðareftirlit í bænum North-Charleston í Suður-Karólínu. 

Það var ónafngreindur maður sem kom myndskeiðinu til fjölskyldu Scotts, segir í frétt Washington Post.

Slager, sem hefur verið í lögreglunni í North-Charleston í fimm ár, var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær. Ef hann verður fundinn sekur um morð á hann yfir höfði sér 30 ára fangelsi eða jafnvel lífstíðardóm.

Líkt og fleiri svartir menn sem hafa verið skotnir til bana af hvítum lögreglumönnum undanfarin misseri var Scott óvopnaður.

Boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan ráðhúsið í North Charleston í dag en fjölskylda Scotts og lögmaður þeirra,  L. Chris Stewart, hvetja til þess að mótmælin verði friðsöm. Þau segja að ákæran sýni að réttarkerfið sé að virka rétt í þetta skiptið.

Stewart segir í samtali við Washington Post að myndskeiðið hafi neytt yfirvöld til þess að bregðast skjótt og rétt við. „Hvað ef það hefði ekki verið um neitt myndskeið að ræða? Ef það hefðu ekki verið nein vitni eða hetja líkt og ég kalla hann (sá sem tók myndskeiðið) sem gaf sig fram,“ segir Stewart.

Lögmaður Slagers, David Aylor, segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á mánudag að lögreglumaðurinn hafi talið sér ógnað og að Scott hafi reynt að grípa rafbyssu Slagers. Eftir að myndskeiðið var birt í gær sagði Aylor sig frá málinu.

Í myndskeiðinu sést Scott falla til jarðar eftir að lögreglumaðurinn hafði skotið áttunda skotinu. Slager sést ganga rólega til hans og skipa Scott að setja hendur aftur fyrir bak. Þegar Scott hreyfir sig ekki setur Slager hendur hans aftur fyrir bak og handjárnar hann. Síðan gengur hann til baka að þeim stað þar sem hann skaut skotunum og tekur eitthvað upp af jörðinu. Slager snýr síðan aftur til Scott og lætur hlutinn falla við fætur Scotts.

Ríkisstjórinn í Suður-Karólínu, Nikki Haley, segir að gjörðir Slagers séu óásættanlegar og endurspegli ekki gildi ríkisins né heldur gjörðir flestra lögreglumanna í ríkinu.

Allt bendir til þess að Walter Scott hafi reynt að flýja lögregluna vegna þess að hann skuldaði barnsmeðlag en í Suður-Karólínu getur það þýtt fangelsisvist. Scott átti fjögur börn og var trúlofaður. Hann hafði verið leystur frá störfum hjá bandarísku strandgæslunni með sæmd og hefur aldrei tengst ofbeldisbrotum af nokkru tagi, segir í frétt WP. Fjölskylda hans íhugar að höfða skaðabótamál gegn lögreglunni.

Lögreglumaður ákærður fyrir morð

Fjölmargir tóku þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi í Los Angeles …
Fjölmargir tóku þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi í Los Angeles í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert