Hef staðið of oft í þessum sporum

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í gær fjöldamorðið í kirkju í Charleston í Suður-Karólínu. Hann sagðist hafa þurft að standa of oft í þessum sporum.

„Enn og aftur er saklaust fólk drepið að hluta til vegna þess að einhver sem vildi valda tjóni átti ekki í neinum vandræðum með að útvega sér byssu,“ sagði forsetinn á blaðamannafundi í gær.

Þrátt fyrir að nú væri tími sorgar, þá þyrfti hann að tala hreint út. Bandaríska þjóðin þyrfti að horfast í augu við þá skelfilegu staðreynd að fjöldamorð sem þessi ættu sér ekki stað í öðrum þróuðum ríkjum. 

„Þau eiga sér ekki stað eins oft og hér. Og það er í okkar valdi að gera eitthvað í málinu.“

Þjóðin þyrfti nauðsynlega að breyta hugsunarhætti sínum þegar kæmi að bæði byssueign og ofbeldi með byssum.

Hinn 21 árs gamli Dylann Roof var í gær handtekinn en hann er grunaður um að hafa skotið níu manns til bana í kirkjunni á miðvikudagskvöldið.

Hann var viðstaddur biblíufræðslu í kirkjunni þegar hann á að hafa staðið skyndilega upp og sagst vera kominn „til þess að skjóta svart fólk“ að sögn vitna.

Fréttir mbl.is:

Kom „til þess að skjóta svart fólk“

Birtu mynd­ir af þeim grunaða

Níu féllu í skotárás í Char­lest­on

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert