Myndskeið sem sýnir hvítan lögreglumann taka svarta skólastúlku haustaki áður en hann þrífur hana af stól og dregur hana þvert yfir skólastofuna hefur vakið mikla reiði á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring.
Það var sjónvarpsstöðin WIS sem sýndi tvö myndskeið af atvikinu sem átti sér stað í menntaskóla í Columbia í Suður-Karólínu en þau voru tekin af öðrum nemendum á snjallsíma í skólastofunni.
Myndskeiðið hefur vakið upp umræðu um ofbeldi af hálfu hvítra lögreglumanna gagnvart svörtu fólki sem hefur verið áberandi í Bandaríkjunum undanfarin misseri. Á samfélagsmiðlum er fjallað um myndskeiðin með myllumerkinu #AssaultAtSpringValleyHigh og þar vísað til nafns skólans þar sem árásin átti sér stað.
Í myndskeiðum nemenda sést lögreglumaðurinn koma inn í kennslustofuna og eiga stuttar samræður við stúlkuna sem situr við skólaborð sitt áður en hann grípur um háls hennar, hendir henni af stólnum og kastar henni yfir gólfið. Hún sést ekki sýna mótspyrnu við ofbeldinu af hálfu lögreglumannsins.
Curtis Wilson, talsmaður lögreglustjóraembættisins Richland, sagði á blaðamannafundi í gær að nemandinn hafi nokkrum sinnum verið beðinn um að yfirgefa kennslustofuna, án þess að upplýsa hvers vegna, en hafi neitað.
Lögreglumaðurinn, Ben Fields, er annar tveggja lögreglumanna sem sinna gæslu í skólanum. Hann hefur nú verið sendur í ótímabundið leyfi á meðan málið er rannsakað.