Réttarhöld hafin í máli Freddie Gray

Lögreglumaðurinn Edward Nero á leið í réttarsalinn í dag.
Lögreglumaðurinn Edward Nero á leið í réttarsalinn í dag. AFP

Réttarhöld hófust í dag í máli þeldökks Bandaríkjamanns sem lést í haldi lögreglunnar. Málið hratt af stað miklum mótmælum og uppþotum í borginni Baltimore á síðasta ári.

Dauði Freddie Gray varpaði ljósi á kynþáttamismunun og harkalegar aðferðir lögreglunnar.  

Réttarhöldin, þar sem lögreglumaðurinn Edward Nero kemur við sögu, eru þau önnur í röðinni sem tengjast dauða Gray. Fyrri réttarhöldunum lauk á síðasta ári án þess að kviðdómur kæmist að niðurstöðu og voru réttarhöldin því dæmd  ómerk.

Frétt mbl.is: Ómerkt í máli Freddie Gray

Hryggbrotnaði við flutning í lögreglubíl

Nero er á meðal sex lögreglumanna sem þurfa að svara til saka hver í sínu lagi vegna dauða hins 25 ára Gray  sem lést eftir að hafa hryggbrotnað við flutning í lögreglubifreið í Baltimore í apríl í fyrra. Gray hafði verið gripinn af lögreglunni eftir að hann reyndi að flýja í burtu frá henni.

Nero, sem bar vitni í dag, er ákærður fyrir líkamsárás, vítavert gáleysi og ósæmilega hegðun. Lögreglumennirnir sem tengjast málinu, þrír hvítir og þrír þeldökkir, segja að Gray hafi dáið af slysförum. Enginn hefur verið sakfelldur í málinu.

Baltimore-borg samþykkti í september að greiða fjölskyldu Gray tæpar 800 milljónir króna í skaðabætur vegna dauða hans.

Mótmælendur fyrir utan dómshúsið í Baltimore.
Mótmælendur fyrir utan dómshúsið í Baltimore. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert