Níu lögreglumenn ákærðir fyrir barsmíðar

Egypsk óeirðarlögregla vaktar mótmæli í Kaíró.
Egypsk óeirðarlögregla vaktar mótmæli í Kaíró. AFP

Níu lög­reglu­menn í Egyptalandi hafa verið ákærðir fyr­ir að hafa beitt tvo lækna of­beldi þegar þeir neituðu að falsa lækna­skýrsl­ur. At­vikið, sem átti sér stað í norður­hluta Kaíró, vakti mikla reiði og varð þess vald­andi að þúsund­ir lækna mót­mæltu við stétt­ar­fé­lag sitt í borg­inni.

Lög­reglu­menn­irn­ir eru sagðir hafa ráðist að lækn­un­um með of­beldi og sví­v­irðing­um 28. janú­ar sl. en lög­reglu­yf­ir­völd í Egyptalandi hafa sætt mik­illi gagn­rýni vegna pynt­inga og dauðsfalla ein­stak­linga í varðhaldi frá því í lok árs 2015.

Þá hef­ur lög­regla verið sökuð um að hand­taka fólk eft­ir geðþótta og láta stjórn­ar­and­stæðinga „hverfa“. Hin meintu brot þykja minna á aðferðir sem tíðkuðust í valdatíð Hosni Mubarak, sem var flæmd­ur úr for­seta­stóli 2011.

Sitj­andi for­seti, Abdel Fattah al-Sisi, hef­ur kallað eft­ir því að lög­reglu­menn sem brjóta af sér séu látn­ir svara til saka, og sagt að hann muni fara fram á það við þingið að viður­lög gegn brot­um af þessu tagi verði hert.

Í apríl sl. skaut lög­reglumaður götu­sala til bana í Kaíró en menn­ina greindi á um verðið á te­bolla. Mynd­ir af vett­vangi fóru í dreif­ingu á sam­skiptamiðlum og í kjöl­farið til­kynntu sak­sókn­ar­ar að lög­reglumaður­inn yrði ákærður fyr­ir morð og morðtil­raun. Tveir veg­far­end­ur særðust.

Í fe­brú­ar var ann­ar lög­reglumaður dæmd­ur í átta ára fang­elsi fyr­ir að berja dýra­sk­urðlækni til bana í bæn­um Ismailiya. Lækn­ir­inn sat í varðhaldi þegar of­beldið átti sér stað.

Þá var lög­reglumaður dæmd­ur í lífstíðarfang­elsi í apríl fyr­ir að skjóta öku­mann til bana með lög­reglu­byssu sinni í rifr­ildi um flutn­ings­kostnað. Það til­vik leiddi til mót­mæla í Kaíró.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert