Þorpsbúar minntust fórnarlambanna

Uppreisnarmenn standa vörð skammt frá torginu þar sem fólksins var …
Uppreisnarmenn standa vörð skammt frá torginu þar sem fólksins var minnst. AFP

Í dag eru tvö ár síðan farþegaþota Malaysi­an Air­lines, MH17, hrapaði í Úkraínu. All­ir 298 um borð létu lífið en tug­ir þorps­búa í Aust­ur-Úkraínu, þar sem þotan hrapaði, komu sam­an og minnt­ust fórn­ar­lambanna í dag.

Um 60 manns tóku þátt í minn­ing­ar­stund­inni sem fór fram á litlu torgi í þorp­inu Petropa­vli­vka þar sem ein­hverj­ar leif­ar og per­sónu­leg­ar eig­ur fórn­ar­lambanna féllu til jarðar þenn­an ör­laga­ríka júlí­dag 2014.

Börn­in í þorp­inu héldu á pappa­flug­vél­um og minnt­ust barn­anna sem létu lífið en þotan var á leið frá Amster­dam til Kuala Lump­ur þegar hún hrapaði.

„Ætt­ingj­ar sumra fórn­ar­lambanna hafa haft sam­band og beðið okk­ur um að reyna að finna hluti sem til­heyrðu fórn­ar­lömb­un­um, t.d. leik­föng barn­anna sem voru um borð,“ sagði Na­talia Vo­los­hina, formaður þorps­ráðsins í sam­tali við AFP.

Íbúar þorps­ins finna enn litla hluti úr farþegaþot­unni í skóg­lendi skammt frá þorp­inu. Hlut­un­um hef­ur verið staflað upp fyr­ir utan skrif­stofu Vo­los­hina í til­efni dags­ins en þeir verða síðan flutt­ir til hol­lenskra rann­sak­enda.

Flest­ir hinna látnu voru hol­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar og marg­ir ætt­ingj­ar þeirra und­ir­búa nú lög­sókn gegn Malaysi­an Air­lines og öðrum sem þeir telja bera ábyrgð á brot­lend­ing­unni.

Í októ­ber greindi alþjóðleg rann­sókn­ar­nefnd frá því að þotan hefði verið skot­in niður af svo­kölluðu BUK-flug­skeyti sem var fram­leitt í Rússlandi. Þá var flug­skeyt­inu skotið frá svæði sem var und­ir stjórn upp­reisn­ar­manna.

Nefnd­in vildi þó ekki segja að það hafi verið upp­reisn­ar­menn sem skutu þot­una niður og þá hafa Rúss­ar ávallt neitað aðild að mál­inu. Hol­lensk rann­sókn­ar­nefnd mun birta niður­stöður sín­ar í haust.

Petro Poros­hen­ko, for­seti Úkraínu, hét því í dag að þeim, sem beri ábyrgð, verði refsað.

Tals­menn upp­reisn­ar­mann­anna hafa alltaf neitað aðild að brot­lend­ing­unni og kennt úkraínsk­um her­mönn­um um.

Þorpsbúar í Petropavlivka minntust fórnarlambanna í dag.
Þorps­bú­ar í Petropa­vli­vka minnt­ust fórn­ar­lambanna í dag. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert